15.4.2007 | 00:50
Konur eru konum bestar
Á stundum er ég ofurviðkvæm. Það er kvenlegur eiginleiki og ég viðurkenni með nokkru stolti en jafnframt ákveðnum pirringi að ég tek gagnrýni nærri mér. Þannig fannst mér sárt að Sylvíu fannst forsíðurnar mínar bera vott um sexist attitude af minni hálfu. Til allrar lukku voru margir ekki sammála henni annars hefði ég áreiðanlega eytt helginni undir sæng nagandi mig í handarbökin fyrir að hafa misst sjónar á jafnréttishugsjóninni. Á hinn bóginn varð ég líka pínulítið reið því ég hef svo oft heyrt þennan frasa: Konur eru konum verstar. Ég get ekki tekið undir þetta. Alla mína ævi hef ég verið umkringd yndislegum konum sem hafa stutt mig á allan hátt og kennt mér svo margt. Þetta segi ég þótt ég eigi mann sem hefur staðið með mér gegnum þykkt og þunnt í 28 ár og sé traustur, góður og fallegur. Ég á líka son sem er engum líkur og hefur gefið mömmu sinni svo margt að marga daga tæki að telja það upp en ég á líka dóttur, yndislega dóttur sem hefur kennt mér að hreinskiptni og heiðarleiki í mannlegum samskiptum borgar sig. Ég á móður sem var gefin slík frásagnargáfa að fólk er tilbúið að koma langt að til að hlýða á hana segja frá. Ég hef tekið hana mér til fyrirmyndar í mínu starfi og veit að ég væri ekki sú sem ég er í dag hefði hún ekki komið til. Ég á systur sem er mín besta vinkona ásamt yndislegri konu sem ég kynntist þegar ég var fimmtán ára. Þessar tvær hafa aldrei brugðist trausti mínu. Ég átti einnig vinkonu á Fróða, gamla vinnustaðnum mínum, sem ávallt var tilbúin að byggja mig upp og hvetja mig. Ég sakna hennar enn þann dag í dag og veit að fullkominn vinnustaður er ekki til án Gurríar. Ég átti líka vinkonur í ömmu æskuvinkonu minnar sem ég kynntist fimmtán ára og konu sem við systur kölluðum ömmu en þessar konur eru báðar látnar. Þær voru gáfaðar, heilsteyptar og frábærar en jafnframt börn síns tíma og opnuðu mér innsýn inn í veröld sem ég held að allar konur þurfi að kynna sér áður en þær lýsa sig jafnrétttissinna. Nefnilega veröld kvenna sem voru aldar upp við fátækt og færri valkosti en er að hafa í dag. Sylvía virðist telja að fötin sem valin voru handa Katrinu Friðriksdóttur á forsíðiðunni hjá mér endurspegli á einhvern hátt vantrú mína á konur. Hún segir að ég sé sexist. Hugsanlega er það rétt en mig langar að benda á eitt. Ég er alin upp í fimm systra hópi. Við fengum allar að njóta góðs af kvenfrelsishugmyndum móður okkar en hún trúði að konur ættu að mennta sig og síst af öllu ættu þær að treysta á útlit sitt til að sjá sér farborða eða einhvern karlmann. Mamma notaði nánast aldrei snyrtiivörur. Hún bar á sig púður og notaði varalit ef hún fór á ball sem var að meðaltali einu sinni á ári. Föðursystir mín sem ég umgekkkst minna notaði hins vegar snyrtivörur mun meira. Það var eins og ég hefði fengið hugljómun í fyrsta sinn sem ég sá snyrtiborðið hennar og ég elskaði hana umfram aðrar konur í nokkrar vikur eftir að hún gaf mér kinnalit, varalit og augnskugga sem ég smurði ótæpilega í andlitið á mér um tíma. Ég elska krem, krukkur, varaliti og gloss. Ég er líka tilbúin til að ganga ansi langt fyrir glæsilegan pels eða flottan kjól. Þrátt fyrir þessar hégómasyndir mínar er ég sannfærð um að ég er ekki síðri jafnréttissinni en systur mínar sem ekki eru hégómagjarnar. Fjórar systur og af þeim er aðeins ein sem málar sig að staðaldri. Hinar eru glæsilegar án þess en þær bera virðingu fyrir mér og telja mig hugsjónamanneskju sem trúir á sömu gildi og þær. Hvers vegna er ég þá að vesenast?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)