Konur eru konum bestar

Á stundum er ég ofurviðkvæm. Það er kvenlegur eiginleiki og ég viðurkenni með nokkru stolti en jafnframt ákveðnum pirringi að ég tek gagnrýni nærri mér. Þannig fannst mér sárt að Sylvíu fannst forsíðurnar mínar bera vott um sexist attitude af minni hálfu. Til allrar lukku voru margir ekki sammála henni annars hefði ég áreiðanlega eytt helginni undir sæng nagandi mig í handarbökin fyrir að hafa misst sjónar á jafnréttishugsjóninni. Á hinn bóginn varð ég líka pínulítið reið því ég hef svo oft heyrt þennan frasa: Konur eru konum verstar. Ég get ekki tekið undir þetta. Alla mína ævi hef ég verið umkringd yndislegum konum sem hafa stutt mig á allan hátt og kennt mér svo margt. Þetta segi ég þótt ég eigi mann sem hefur staðið með mér gegnum þykkt og þunnt í 28 ár og sé traustur, góður og fallegur. Ég á líka son sem er engum líkur og hefur gefið mömmu sinni svo margt að marga daga tæki að telja það upp en ég á líka dóttur, yndislega dóttur sem hefur kennt mér að hreinskiptni og heiðarleiki í mannlegum samskiptum borgar sig. Ég á móður sem var gefin slík frásagnargáfa að fólk er tilbúið að koma langt að til að hlýða á hana segja frá. Ég hef tekið hana mér til fyrirmyndar í mínu starfi og veit að ég væri ekki sú sem ég er í dag hefði hún ekki komið til. Ég á systur sem er mín besta vinkona ásamt yndislegri konu sem ég kynntist þegar ég var fimmtán ára. Þessar tvær hafa aldrei brugðist trausti mínu. Ég átti einnig vinkonu á Fróða, gamla vinnustaðnum mínum, sem ávallt var tilbúin að byggja mig upp og hvetja mig. Ég sakna hennar enn þann dag í dag og veit að fullkominn vinnustaður er ekki til án Gurríar. Ég átti líka vinkonur í ömmu æskuvinkonu minnar sem ég kynntist fimmtán ára og konu sem við systur kölluðum ömmu en þessar konur eru báðar látnar. Þær voru gáfaðar, heilsteyptar og frábærar en jafnframt börn síns tíma og opnuðu mér innsýn inn í veröld sem ég held að allar konur þurfi að kynna sér áður en þær lýsa sig jafnrétttissinna. Nefnilega veröld kvenna sem voru aldar upp við fátækt og færri valkosti en er að hafa í dag. Sylvía virðist telja að fötin sem valin voru handa Katrinu Friðriksdóttur á forsíðiðunni hjá mér endurspegli á einhvern hátt vantrú mína á konur. Hún segir að ég sé sexist. Hugsanlega er það rétt en mig langar að benda á eitt. Ég er alin upp í fimm systra hópi. Við fengum allar að njóta góðs af kvenfrelsishugmyndum móður okkar en hún trúði að konur ættu að mennta sig og síst af öllu ættu þær að treysta á útlit sitt til að sjá sér farborða eða einhvern karlmann. Mamma notaði nánast aldrei snyrtiivörur. Hún bar á sig púður og notaði varalit ef hún fór á ball sem var að meðaltali einu sinni á ári. Föðursystir mín sem ég umgekkkst minna notaði hins vegar snyrtivörur mun meira. Það var eins og ég hefði fengið hugljómun í fyrsta sinn sem ég sá snyrtiborðið hennar og ég elskaði hana umfram aðrar konur í nokkrar vikur eftir að hún gaf mér kinnalit, varalit og augnskugga sem ég smurði ótæpilega í andlitið á mér um tíma. Ég elska krem, krukkur, varaliti og gloss. Ég er líka tilbúin til að ganga ansi langt fyrir glæsilegan pels eða flottan kjól. Þrátt fyrir þessar hégómasyndir mínar er ég sannfærð um að ég er ekki síðri jafnréttissinni en systur mínar sem ekki eru hégómagjarnar. Fjórar systur og af þeim er aðeins ein sem málar sig að staðaldri. Hinar eru glæsilegar án þess en þær bera virðingu fyrir mér og telja mig hugsjónamanneskju sem trúir á sömu gildi og þær. Hvers vegna er ég þá að vesenast?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Rosalega finnst mér þú töff og flott kona.  Þessi pistill er æðislegur.  Ég er svo sammála þér með konurnar.  Flestar konur eru konum bestar.  Svo eru hinar svona eins og hríðarbylur, þær koma á ógnarhraða, skemma smá og eyðileggja og eru svo horfnar.  Jafnt áþreifanlega og í minninu.  Ég er alin upp hjá ömmu minni, sem hafði sko lifað tímana tvenna.  Á sex systur og fullt af vinkonum.  Ég elska allar þessar konur.  Mér þykir líka óskaplega gaman að klæða mig fínt, er hégómagjörn og stolt af því.  Skilgreini mig kinnroðalaust sem feminista.  Enn og aftur takk fyrir flottan pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2007 kl. 01:05

2 Smámynd: Brynja Björk Garðarsdóttir

Mikið var þetta fallega sagt hjá þér Steingerður mín.

PS. Glæsileg forsíða núna og undurfagur myndaþáttur með viðtalinu við Katrínu Friðriksdóttur. Svo ég hrósi nú enn meira fannst mér Katrín frábær forsíðustúlka. Eins og ferskur andblær eftir allar þessar forsíður með leikkonum og pólitíkusum.

Brynja Björk Garðarsdóttir, 15.4.2007 kl. 02:07

3 Smámynd: Heiða  Þórðar

Sit hér með hárið ógreitt einsog páfugl, brosandi úti bæði. Frábær pistill og sá fyrsti sem ég les í morgunsárið! Byrjunin á deginum lofar því góðu.

Timiritið, las það á netinu á spretti, fær hæstu einkunn samkvæmt mínum kokkabókum. Þú sjálf hinsvegar toppar svo allar einkunnagjafir, með þessum annars fallega ljúfa pistil sem er svo stútfullur af innihaldi.

Heiða Þórðar, 15.4.2007 kl. 11:04

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ekki bregstu fremur en fyrri daginn, kæra vinkona. Ég missti algjörlega af þessu Sylvíudæmi og vissi ekkert hvað þú áttir við fyrst. Þoli ekki þessa setningu Konur eru konum verstar! Hún er svo ósönn. Ekki kýs ég þó konu bara af því að hún er kona ... Svona setningar eru til þess eins að skapa úlfúð. Oft hefur verið reynt að snúa konum gegn konum á ýmsan hátt (af því að við erum svo sterkur hópur þegar við tökum okkur saman) og ég man svo vel eftir launabaráttu einu sinni þar sem dæmigerð kvennastétt sem var að berjast réðst að annarri kvennastétt með hærri laun ... aðalatriðið gleymdist. Hafði lengi á tilfinningunni að þetta hafi verið gert viljandi og konurnar hoppað beint í gildruna. Samt var þetta ekki dæmi um að konur væru konum verstar ... hver ætli annars hafi fundið upp á þessari setningu sem bæði kynin hafa tekið upp athugasemdalaust? Tek það fram að ég myndi líka mótmæla setningu á borð við Karlar eru körlum verstir. 

Guðríður Haraldsdóttir, 15.4.2007 kl. 15:15

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Frábær lesning. Þú kannt að skrifa af heiðarleika og eindrægni. Þú ert góður fulltrúi kvenkynsins - og mannkynsins!  Ég er sérdeilis ósammála Sylviu.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 15.4.2007 kl. 17:49

6 identicon

Hver er þessi Sylvía   Ég er alltaf að læra, vissi ekki að feministar væru karla-konur Ég get ekki farið í skógar-göngutúr með þér nema með varalit og blásið hár Ég þarf eitthvað að endurskoða hugtakið feministi hjá mér Æðislegt blað hjá þér og líka forsíðan.Skil ekki alveg af hverju við getum ekki verið prinssesur og feministar í sama pakkanum

Sigurveig Eysteins (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 00:15

7 identicon

Hvaða Silvíu rugl er þetta , missti af þessu . Getur maður sem sagt ekki verið umhugað um útlit sitt og fatnað og verið feministi í sömu mund, skil ekki þetta . Þar sem við erum nú systradætur og ég þekki þig allvel og þú minnist á mömmu þína . Skyldi hún vera eitthvað minni feministi þótt hún máli sig minna en mamma ?????????Þetta er orðin svo sjúk umræða og komin langt út fyrir allt sem ég get skilið , ég segi við þessar sjúku karlkonur , farið nú upp úr skotgröfunum , njótið þess að vera konur eða þegið .

Hildur Þöll

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 16:26

8 identicon

Þetta með mömmu þína og mína , skrifaði þetta vitlaust , átti að vera svona . Skyldi mamma þín vera eitthvað meiri feministi af því að hún málar sig minna en mín mamma ??????

Þessi rebbagen eru ansi tricky

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband