Vorið sem kom og fór

Ég fór í göngu með Freyju í morgun í vorlegu og fallegu veðri. Loftið var svalt og á stilltum Arnarnesvognum syntu margæsir og húsendur. Sólin var farin að skína og bjart yfir öllu og ég sá fyrir mér vorhlýindi framundan. Á ljósastaur sat hins vegar bísperrtur sílamávur og hló illkvittnislega. Í fyrstu vissi ég ekki að hverju hann var að hlæja en þegar ég leit út um gluggann rétt fyrir hádegið og sá snjókomuna skildi ég að hann hafði verið að segja mér að fagna ekki of snemma. Í fyrra var ég að leiðsegja hóp Soroptimista um Snæfellsnes þann 20. júní og rútan var stöðvuð efst í toppi brekkunnar á Vatnaleið til að fólk gæti fengið sér kaffi. Þá snjóaði á okkur og fólkið stóð skjálfandi með kaffibollana íklætt lopapeysum, vettlingum og húfum. Nei, það borgar sig ekki að fagna vorkomunni of snemma hér á Íslandi.

Bloggfærslur 17. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband