18.4.2007 | 15:52
Leitað að fordómum
Inga Lind Karlsdóttir gerði viðtal mitt við Katrínu Friðriks. að umtalsefni í Íslandi í dag í gær. Við hér á ritstjórninni ákváðum að svara henni og birtist svarið inn á mbl.is. Svar okkar var eftirfarandi.
Vegna umfjöllunar í Íslandi í dag vill h-tímarit taka fram eftirfarandi:
Ástæða þess að klæðaburður Katrínar Friðriksdóttur var gerður að umtalsefni í viðtali við hana var sú staðreynd að hann er óvenjulegur. Hingað til hefur hefðbundin dragt verið einkennisklæðnaður kvenna í viðskiptalífinu og þær ekki teknar alvarlega ef þær kjósa frjálslegri og kvenlegri fatnað. Katrín er ung, falleg kona sem kýs að klæða sig eftir eigin smekk og sú staðreynd að hún er ekki bara tekin alvarlega heldur mikils virt hlýtur að vera ákveðinn sigur fyrir allar konur. Kvennabarátta og jafnrétti snýst um að hver og einn einstaklingur fái að njóta sín á sínum forsendum en þurfi ekki að beygja sig undir einhverjar fyrirfram gefnar hefðir eða hugmyndir til að njóta lífssins.
Hefði Ingólfur Bender eða annar karl í viðskiptalífinu mætt í viðtal í golfbuxum og strigaskóm og sagst vera þannig klæddur í vinnunni dagsdaglega því þannig liði honum best hefði það svo sannarlega verið gert að umtalsefni í blaðinu til marks um persónu sem fer sínar eigin leiðir. h-tímarit telur að með því að klæða sig eftir eigin smekk og jafnvel svolítið stelpulega sýni Katrín Friðriksdóttir að hún er sterkur karakter og líkleg til frekari afreka.
Allir viðmælendur okkar eru spurðir að því hvernig þeim gangi að sameina fjölskyldulíf og krefjandi starf eða áhugamál. Hilmir Snær fær þessa spurningu í janúarblaðinu og Gísli Örn Garðarson er í febrúar spurður hvort hann haldi að nýfædd dóttir hans muni á einhvern hátt verða til að draga úr útrás Vesturports um allan heim. Í sama blaði og Katrín er í fá Bjössi og Dísa í World Class nákvæmlega sömu spurningu. h-tímarit er jafnréttissinnað blað sem gerir sér grein fyrir að bæði karlar og konur eiga fjölskyldur.
h-tímarit kappkostar að sýna jafnréttishugsjónina í verki og bendir á að karlar og konur fá jafnt vægi í blaðinu og leitað er að sterkum jákvæðum konum til að segja frá vinnu sinni og áhugamálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)