Nagandi óvissa

Ég sat hér í makindum við tölvuna þegar ég heyrði eitthvað bresta undir tönn hjá hundinum sem lá fram á palli. Það var líkt og köld hönd gripi um hjarta mitt, enda er ég minnug sterastríðsins sem geysaði hér í Neðstutröðinni ekki alls fyrir löngu. Ég stökk því á fætur en það gerði Freyja líka og smeygði sér undir rúm. Ég náði taki á því sem hún var með í kjaftinum og dró hana urrandi undan rúminu. Herfangið reyndist glossið hennar dóttur minnar sem nú er hauslaust en nothæft. Þetta jók ekki vinsældir Freyju hjá uppeldissystur sinni.

Þrjóskuhundur

Jæja, þá er ég búin að sjá bæði vetrarblóm og lóur þetta árið. Vorið er sem sé komið samkvæmt öllum mínum kokkabókum. Við Svava systir skelltum okkur upp að Kleifarvatni í dag og börðum augum ótal bleikar þúfur sem hengu þar um alla kletta. Óvenjulega margir voru með í för að þessu sinni eða Steingrímur, fósturbarnið hennar Svövu, Hilda Margrét og Guðlaug Hrefna systurdætur mínar. Aftursætið var því fullt og prinsessan Freyja gerð útlæg í skottið. Í svona ferðum fær hún venjulega að liggja í fanginu á Hildu Margréti, sem hún elskar afar heitt. Henni fannst svívirðilega óréttlátt að taka af henni leguplássið og sýndi móðgun sína með því að neita að koma inn í bílinn þegar leggja átti af stað heim. Ég gekk á eftir henni með harðfisk og alls konar fleðulátum en um leið og ég var komin nægilega nærri til að snerta hana tók mín á rás og forðaði sér lengst út í móa. Þar velti hún sér af fullkominni ósvífni og engu líkara en hún væri að senda mér langt nef. Á endanum settist ég upp í bílinn og keyrði af stað. Lét hana hlaupa dágóðan spöl á eftir bílnum og stoppaði svo. Þá gafst hún upp en þó ekki fyrr en ég kom og sótti hana þar sem hún stóð. Hún varð að halda andlitinu að einhverju leyti þannig að hún neitaði að koma til mín. Er þetta ekki makalaust? Bæði börnin mín og hundurinn eru alveg afburðaþrjósk. Ábyggilega er þetta vegna þess að börnin eiga sama föður og hundurinn er alinn upp hjá honum líka. Segir ekki í Njálu að fjórðungi bregði til fósturs.

Bloggfærslur 21. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband