29.4.2007 | 16:47
Grjótpálar tveir
Við Svava vorum að koma úr hressandi göngutúr um steinafjöruna í Hvalfirði. Við systur tíndum baggalúta, jaspísbrot, bergkristalla og fleira og fleira. Eftir örskamma stund vorum við orðnar rúmlega 100 kg. þyngri en venjulega og undarlega siginaxla af steinaburði. Samt gátum við ekki stillt okkur um að bæta við ef við sáum einhverja freistandi hlunka liggjandi í fjörunni. Til allrar hamingju voru veiðilendur rýrari hinum megin á nesinu og við sluppum því við að verða strandglópar þarna í fjörunni þegar við værum hættar að komast úr sporunum vegna grjótþyngsla. Ætli við hefðum þá ekki orðið að steini þarna og mosavaxnar fyrr en varði. Það hefði nefnilega ekki verið hægt að treysta því að við hefðum vit á að losa okkur við eitthvað af gersemunum í vösunum til að orka það að ganga upp að bílnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)