15.5.2007 | 10:12
Hvernig sumir eru við suma
Í nýjasta tölublaði h-tímarits er viðtal við fjölskylduráðgjafann Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur um væntingar okkar og hvernig þær flækjast stundum fyrir í hjónaböndum. Jóhanna Guðrún er einstaklega skemmtileg kona og talar tæpitungulaust um hlutina. Hún er líka ein af þessum manneskjum sem maður skynjar ósjálfrátt að ber virðingu og umhyggju fyrir öðrum. Ég kunni afskaplega vel við hana og eftir að hafa skrifað viðtalið datt mér í hug saga af hjónum sem ekki voru sérlega samlynd. Karlinn var hinn versti durtur og hefði sennilega ekki þekkt rómantík þótt hún settist í fangið á honum. Konan hans kvartaði reglulega undan þessu og þá einkum því hversu langt að baki manni vinkonu hennar hann stóð að þessu leyti. Einhverju sinni fékk karl nóg leit á hana og sagði: „Ef sumir væru ekki við suma, eins og sumir eru við suma, væru sumir við suma eins og sumir eru við suma.“ Mikil speki leynist í þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)