19.5.2007 | 17:26
Ógæfumenn og peningavaldið
Við hjónin vorum í Smáralindinni áðan og þar stóðu fulltrúar Öryggismiðstöðvarinnar við hlið stórrar myndar af Lalla Johns og buðu fólki reykskynjara og innbrotavarnir. Einn þessara starfsmanna vék sér að mér og bauð mér bækling með mynd af Lalla. Ég sagði viðkomandi að þótt ég vissi að hann væri ekki ábyrgur fyrir þessum ósköpum þá myndi ég ekki kaupa húsdýraáburð af fyrirtæki sem auglýsti á svo siðlausan hátt hvað þá öryggi fyrir heimili mitt. Hann maldaði í móinn og talaði um forvarnargildi. Ég nennti ekki að munnhöggvast svo ég hélt áfram en hvar liggur forvarnargildið í birtingu flennistórrar myndar af ógæfumanni sem er eins og plakötin úr vestrunum MOST WANTED? Ég skil það ekki. Á það að verða til þess að ungir fíkniefnaneytendur horfi á myndina og leggi þar með kúbeinið á hilluna? Það tel ég ólíklegt. Eina forvarnargildið sem felst í þessu er að kenna fólki eins og mér að óttast menn eins og Lalla Johns og reyna að víggirða heimili mitt gegn þeim. Ég ber ekki á móti því að meiri ástæða er til að verja heimili sitt í dag en var fyrir einhverjum áratugum en ég held samt sem áður að með því að setja andlit á varginn sé verið að skapa ákveðna fjarlægð og ala á ótta og fordómum. Myndin af Lalla og auglýsingarnar eru ekki til þess fallnar að vekja samúð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)