2.5.2007 | 20:14
Með nefið ofan í bókum
Ég játaði það fúslega um daginn að vera orðhákur mikill. Ég er alltaf með einhverjar bækur í takinu og sílesandi blöð og bloggfærslur. Hér áður fyrr þótti það ekki sæmilegt að vera sífellt með nefið ofan í bókum. Málshátturinn: Ekki verður bókvitið í askana látið vitnar um það og sömuleiðis sagan af Gilitrutt. Sú saga var sögð bókhneigðum stúlkum til viðvörunar, svona rétt til að benda þeim á að iðjusemin væri dyggð en bóklestur ekki því eins og menn muna vildi húsfreyja ekki sinna ullarvinnu, matargerð og öðrum heimilisstörfum heldur liggja í bókum allan daginn. Gilitrutt kenndi henni þá lexíu að slíkt borgaði sig ekki með því að vera nærri búin að svipta hana fyrsta barninu sína. Þessi blessuð húsfreyja hefur verið fyrsta kvenréttindakona á Íslandi og það þurfti heila tröllskessu til að kenna henni að þjóðfélagið væri ekki búið undir breytingar. En hvað um það. Að undanförnu hef ég verið að lesa Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri og þess vegna er jafnréttið mér svona hugleikið. Ég var líka að ljúka við Úlfurinn rauði, Ahab's Wife og Óvinir ríkisins. Í kvöld ætla ég svo að byrja á Síðasta musterisriddaranum og segja Gurrí minni hvernig mér líkaði þegar sú bók verður upplesin.
Já, og fyrst minnst er á lestur fékk ég að heyra hér á blogginu að sonur minn þjáist af svipaðri lesblindu og ég. Hann sá auglýsingu í dagblaði þar sem verið var að bjóða ferðir til Bretlands og piltur las Breiðholt. Honum þótti dýrt drottins orðið að borga rúmar 20.000 fyrir viku í Breiðholtinu en tekið skal fram að þessi ungi maður getur helst ekki hugsað sér að fara nokkru sinni í hærra póstnúmer en 105. Honum hefur því þótt eðlilegra að menn fengju borgað fyrir að dvelja viku í Breiðholtinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2007 | 08:34
Vísnabók barnanna minna
Aldrei of illa farið með góð börn
Alltaf þegar börnin mín halda að þau séu laus undan þeirri áþján að þurfa að þola kveðskap móður sinnar sendi ég þeim örlítinn glaðning. Þetta fengu þau í morgun.
Það var strákur í Timbuktú
sem átti aðeins eina kú.
Hann gaf henni gras
og eftir mikið bras
hann tók fyrir hana trú.
Það var stúlka sem átti kött
og elskaði Hróa hött.
Hún borðaði pítu
og hringdi í Rítu
og tilkynnti: Þú ert brött.
Lítið lát er á andagift minni þessa dagana. Þetta fengu börnin mín sent rétt í þessu.
Ef ég ætti að syngja þér söng
vetrar- og vorkvöldin löng.
Ég mundi það róma
að þú ert fegurst blóma
og alveg eins og Gunna stöng.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2007 | 08:33
Ókosturinn við að heita algengu nafni
Nafnarugl og hugmyndadeyfð
Það er ekki tekið út með sældinni að heita algengu nafni. Auður Haralds sagði eitthvað á þá leið í einni bóka sinna að sumir þjáðust alla ævi vegna hugmyndasneyðar foreldra sinna. Ég hef alltaf verið sammála henni og vorkennt þeim sem koma sér upp ótal kynslóðum Jóna Jónssona eða þegar tvö nöfn skiptast á, menn heita þá ýmist Jón Karlson eða Karl Jónsson. Ég veit að þetta háir mörgum fjölskyldum og hefur beinlínis staðið mörgum manninum fyrir þrifum í þroska og geðprýði.
En aftur að algengum nöfnum. Guðmundur minn hefur mátt þola margt gegnum tíðina sökum nafns síns. Frægasta dæmið er örugglega árásarmálið. Hér kemur sagan af því. Við hjónin, þá reyndar sambýlisfólk, brugðum okkur af bæ til að halda upp á tvítugsafmæli hans Guðmundar og fréttum þegar heim kom að lögreglan hefði komið um kvöldið að leita hans. Við vorum mjög hissa á þessu, enda vissum við ekki til þess að Gummi hefði brotið nokkurn hlut af sér. Eftir hálfgerða andvökunótt fór hann niður á lögreglustöð og fékk að vita að hann væri ákærður fyrir að hafa brotið rúðu í hurð á íbúð á Skúlagötu 61. Tilgangur hans með rúðubrotinu var sá að opna sér leið inn til sextugrar konu sem þar bjó. Lögregluskýrslan tiltók ekki í hvaða tilgangi hann vildi komast inn til konunnar en lesendur geta bara beitt ímyndunaraflinu og getið í eyðurnar. Samkvæmt framburði vitna hét þessi kröftugi maður sem réðst inn í stigaganginn þeirra Guðmundur og bjó á Laugavegi 159.
Þetta passaði við Gumma minn en mannlýsingin var fremur ólík honum nefnilega á þessa leið: Fremur lágvaxinn maður, þykkur um miðjuna og hárið heldur farið að þynnast. Þegar þessi saga gerist var Guðmundur spengilegur og kraftalegur ungur maður með allt sitt hár óskert. Málrekstur gegn honum var því látinn niðurfalla eftir viðtal við rannsóknarlögreglumann daginn eftir. Í annað sinn fékk Gummi ástarbréf frá Svíþjóð. Þar skrifaði ung kona að hann hefði reynst henni seingleymdur eftir nokkurra daga unaðsleg kynni og hún teldi sig því þurfa að láta á það reyna hvort ekki væri hægt að endurnýja kynnin. Það vildi Gumma til happs að hann hafði ekki átt leið um Svíþjóð á þeim tíma sem stúlkan tiltók annars hefði hann sennilega ekki kembt hærurnar eftir að konan hans komst í bréfið. Já, svonalöguðu geta jónar, gunnur og gummar alltaf búist við en Steingerðar og Kolgrímur sleppa blessunarlega við skammt af slíkum misskilningi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)