4.7.2007 | 11:49
Svo bregðast krosstré sem önnur ...
Pennar eru bara ekki pennar í dag. Þeir endast svo miklu skemur en var í mínu ungdæmi og ég hef rekið mig á að alltaf skulu þeir gefast upp þegar verst gegnir. Ég geng ævinlega með penna í töskunni eins og góðum blaðamanni sæmir en upp á síðkasti bregst varla að þegar ég tek upp pennann minn til að skrifa nótur eftir viðmælanda eða einhverjar glimrandi hugmyndir sem skyndilega lýstur niður í höfuðið á mér þá eru þeir bleklausir. Fáeinir skýrir bókstafir birtast en svo dofna þeir og undir það síðasta sést ekki annað en far í blaðsíðuna. Já, hér áður fyrr gat maður skrifað og skrifað og blekið virtist eilíflega sprautast úr pennanum. Heimur versnandi fer.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)