Hnífur og skæri eru ekki barna meðfæri

Á heimili mínu var til tippexpenni sem reyndist mér ávallt hinn ágætasti vinur meðan ég er að ráða vísbendingakrossgátur helgarinnar. Síðastliðinn sunnudag sat ég með sveittan skalla við að lemja saman krossgátu Morgunblaðsins sem ég er by the way alveg viss um að er vitlaus núna. Það er örugglega ekki til orð sem þýðir að bjástra við og byrjar á ás vantar þrjá stafi a vantar tvo stafi a. Nokkrum sinnum þurfti ég að grípa til pennans góða í þeim tilgangi að leiðrétta lítilfjörleg mistök sem mér urðu á. Reyndist pennaskriflið stíflað og þrátt fyrir kreistur, pot með nálum og alls konar fleiri æfingar var ekkert úr honum að fá af hinu indæla hvíta sulli sem gefist hefur vel til að hylja slóð mistaka. Maðurinn minn hélt því fram að penninn væri tómur en því átti ég bágt með að trúa þar sem hann var bústinn um miðjuna og dúaði vel þegar á hann var þrýst. Ég brá mér því fram í eldhús og klippti í sundur pennaskrokkinn og við það sprautaðist tippex um allt eldhúsið mitt. Skærin mín urðu hvítskellótt, eldhúsbekkirnir líka og stálvaskurinn varð eins og golsótt ær. Langt fram eftir nóttu var ég að þrífa tippex úr eldhúsinu og þrátt fyrir öflug og hreinsiefni og pússisvampa tókst ekki með nokkru móti að gera skærin lík skærum. Ég reyndi að sletta asitoni á skærin þar sem lífræn efni gefast vel, að sögn efnafræðingsins sonar míns, til að leysa upp lífræn efni og asitonið má síðan sápuþvo af skærunum. Ég eyddi upp öllum naglalakksuppleysi í húsinu en þótt vaskurinn og eldhúsbekkurinn hafi að mestu fengið fyrra form eru skærin undarlega grámygluleg. Ekki beint lík áhaldi sem maður kýs að beita á matvæli. Af þessum atburði hef ég dregið þann lærdóm að líklega borgi sig að henda stífluðum tippexpennum.


Bloggfærslur 20. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband