Marktækar og ómarktækar konur?

Tvær þekktar íslenskar konur hafa lengi farið í taugarnar á mér vegna þess að oft leika þær „enfant terrible“ þegar þær koma fram í fjölmiðlum. Þær setja krúttlegan stút á munninn, sjúga jafnvel ofurlítið loft milli tannanna og skáskjóta augunum upp á spyrilinn eins og kotrosknir smákrakkar. Þessar konur eru báðar mjög klárar og hæfar hvor á sinu sviði en af einhverjum ástæðum leika þær þetta hlutverk af og til. (Ég hef séð báðar láta alveg af þessari hegðun og það gefur þeirri trú minni að þetta sé tilgerð byr undir báða vængi.) Ég ergi mig óendanlega yfir þessu aðallega vegna þess að mér finnst þetta smækka konurnar. Rétt eins og mér finnst það lítillækkandi fyrir alla viðstadda þegar kona, sem fram af því hefur verið fullkomlega eðlileg í kvennahópi, breytir um persónu við það eitt að karlmaður gengur inn í herbergið. Hún hlær þá hærra, fer að vefja hárlokk um fingur sér og horfir gapandi í andakt á karlinn, hallar undir flatt og hlustar af ákafa á öll þau gullkorn sem hrjóta honum af vörum. Konur þurfa hvorki að leika börn né fábjána til að vera gildandi í þessu samfélagi og síst konur sem þegar hafa sannað sig á sínu sviði. En að lokum er við hæfi að vitna í ekki minni manneskju en Himnaríkis-Gurrí og segja: Nöldur dagsins var í boði Steingerðar.

Bloggfærslur 10. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband