Vor í lofti og á legi

Vorið er komið. Á því er enginn vafi. Við Freyja gengum meðfram sjónum áðan, byrjuðum í Nauthólsvík, gengum Ægissíðuna á enda og snerum svo við. Æðarfuglinn er byrjaður að para sig en var ekki í betra skapi en svo að hann úaði á mig með reglulegu millibili sennilega til að minna mig á að vera nú ekki of ánægð með sjálfa mig. Tjaldar og sandlóur þutu um í fjöruborðinu og tíndu upp í sig prótínríkt sælgæti á borð við marflær og þráðorma. Alveg síðan Svava systir gróf upp eitt stykki þráðorm fyrir mig í fjörunni út við Reykjanesvita hefur svartur og sakleysislegur sandurinn fengið svipaða stöðu í huga mér og hryllingsmynd sem ég hef ekki séð. Ég veit að ógeðið er þarna en jafnframt að ég get forðast að sjá það ef ég bara vil. Svava taldi að þar sem ég er ákaflega elsk að náttúrunni svona yfirliett þá myndi ég fagna þeirri reynslu að sjá langt svart kvikindi iða með ótal þráðlíkum löppum. Henni skjátlaðist því ást mín á náttúrunni miðast við blóm, mjúkan feld eða fjaðrir fremur en iðandi fálmara og verur sem hafa óeðlilega snöggar hreyfingar og geta skriðið upp buxnaskálmarnar hjá manni. En hvað um það, Enginn þráðormur var sýnilegur í blíðunni í dag og hafa sjálfsagt flestir lent beint í fuglsmaga. Virðulegur toppskarfur sat á steini og snyrti fjaðrirnar. Þeir eru svo sætir. Þeir minna alltaf einna helst á embættismenn í gömlum en vönduðum jakkafötum þar sem þeir sitja ábúðarfullir á þangþöktum skerjum. Mig langar oft til að stoppa og bíða bara til að sjá hvort þeir hefji ekki upp raust sína og sendi einhvern merkan boðskap frá þessari hentugu staðsetningu. Já, hvergi sést vorið betur og fyrr en niðri við sjóinn.

Bloggfærslur 16. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband