18.3.2008 | 15:40
Heimilisofbeldi og réttarkerfið
Í morgun las ég frétt af þingfestingu máls gegn manni sem ákærður er fyrir fjórar alvarlegar líkamsárásir á fyrrverandi eiginkonu sína. Dómur er ekki fallinn í þessu máli en sennilega verður hann vægur ef dómari heldur sig við dómvenju í slíkum málum hér á landi. Mér finnst ekkert undarlegt að illa gangi að uppræta heimilisofbeldi því menn virðast ekki skilja eðli þess og kerfið þar afleiðandi ekki í stakk búið til að takast á við það. Ofbeldi af þessu tagi stigmagnast og endar iðulega með því að þessir menn drepa eiginkonur sínar. Ég man eftir tveimur þekktum dæmum um slíkt hér á landi en eflaust eru til fleiri þótt ég viti ekki um þau. Í Bretlandi hafa félagsmálayfirvöld komið sér upp áætlun þar sem þau flytja konur verstu ofbeldismannanna milli staða og fara í raun með þær eins og þá sem njóta vitnaverndar. Þetta kemur til af illri nauðsyn svo margar konur hafa fallið í valinn þar að Bretar eru farnir að átta sig á að engin rök eða venjuleg úrræði duga. Mál Mariu Ericson sem Liza Marklund skrifaði um í Hulduslóð og Friðlandi sýnir svart á hvítu hvað vestræn yfirvöld eru gersamlega skilningsvana og afllaus þegar menn eru nægilega staðráðnir í að beita ofbeldi og brjóta af sér. Ég myndi vilja að nálgunarbann væri gert að áhrifaríkari og ákveðnari leið til að setja þessum mönnum mörk og því væri oftar beitt. Það á líka að sækja þess menn til saka burtséð frá því hvort fórnarlömbin kæra eða ekki. Þeir eru stórhættulegir. Vonandi kemur að því að íslensk yfirvöld opna augun og átta sig á að við ofbeldi er bara eitt svar, boð og bönn sem framfylgt er af ákveðni og hörku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)