28.3.2008 | 09:57
Kettir og klór
Á heimili minu stendur nú yfir stríð enn hatrammara en sterakremstríðið við tíkina forðum. Þannig er mál með vexti að læðan mín hefur bitið það í sig að nærfataskúffa húsbóndans, eiginmanns míns, (come on, að minnsta kosti að nafninu til) sé ákjósanlegt rúm og meira en það, allra besta svefnplássið í húsinu. Hún kemur sér notalega fyrir í miðri nærbuxnahrúgunni og þjappar niður holu sem passar akkúrat utan um hana. Gallinn á þessari hreiðurgerð er sá að hárin sem hún óhjákvæmilega lætur af sér í holu sína fara óskaplega í taugarnar á Gumma. Hann hefur því krafist þess að skápurinn sé hafður harðlokaður og ef ganga þarf um hann sé vandlega lokað á eftir sér. Þetta var gert og lengi gekk allt vel eða þar til læðan komst upp á lag með að krafsa upp skáphurðina. Hún stillir sér upp fyrir framan hana og klórar í kantinn þar til hurðin opnast. Þegar ég verð vör við hana í skápnum reyni ég að toga hana út úr skúffunni en hún festir klærnar í fötunum og gerir sig eins stóra og hægt er þannig að erfiðlega gengur að draga hana fram. Oftast endar þetta með því að skúffan er dregin nánast alveg út og kötturinn tekinn beint upp og þá heyrist hátt mótmælamjálm. Ég tjáði manninum mínum í tölvupósti í gær að stríðið væri tapað vegna þess að undanfarna daga hefur læðan laumast í skápinn þegar ég fer í vinnuna og liggur þar ævinlega þegar ég kem heim. Hann sendi svar þar sem hann kvað það óheppilegt því kattarhárin yllu kláða á viðkvæmu svæðinu sem nærbuxurnar hylja og þau fara ekki úr í þvotti. Hann yrði mér því sennilega til skammar þegar heim kæmi vegna klórs á ósiðlegum stöðum. Ég minnist þess að hafa iðulega séð karlmenn laumast til að klóra sér hraustlega á þessu svæði og hef hingað til flokkað það undir ruddaskap en kannski voru þetta bara óheppnir kattareigendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)