27.4.2008 | 19:35
Í leit að Brimkatli
Við Guðmundur héldum ásamt Svövu systur út á Reykjanes í hádeginu í leit að Brimkatlinum fagra sem þar er að finna. Við höfðum aðeins mjög ónákvæmt kort að styðjast við og héldum því af stað í leit að þessu fallega náttúrufyrirbæri sem kúrir við klettana í enda Staðarbergs og er stundum kæft í brimi. Eftir nokkurra klukkustunda klifur og skrið í stórgrýttri fjöru römbuðum við á staðinn. Þá sáum við stórt skilti upp við veginn sem vísaði skynsömum ökumönnum á að þar fyrir neðan væri ketillinn góði. Það voru svolítið skömmustulegar systur sem komu sér fyrir við skiltið og biðu eftir að Guðmundur kæmi á bílnum sem lagt hafði verið í um það bil hálftíma fjarlægð frá skiltinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.4.2008 | 18:43
Skelfileg innrás
Við hjónin hrukkum upp við hávært suð og dynki klukkan hálfsjö í morgun. Þegar við opnuðum augun blasti við svart- og gulröndótt fluga á stærð við meðalspörfugl. Ég var minnug átakanna við geitungana í haust og þar sem maður lærir nú af reynslunni ákvað ég að vaða ekki á móti þessu ferlíki með sama gleiðgosahætti og að geitungunum forðum. Þeir launuðu mér með fimm sárum stungum þá viðteitni að ná þeim lifandi og koma þeim út. Ég breiddi því sængina yfir höfuð og ýldi ámátlega: Gummmmmmi! Hetjan mín hugumstóra reif sig fram úr (að vísu ekki með neinu gleðibragði), klæddi sig í náttsloppinn og gekk niður á neðri hæðina. Flugan tók þá til við að berja á svefnherbergisgluggann og það var meira en Matti þoldi. Hann stökk upp og sló hana í gólfið. Tíkina greip við það mikill vígamóður og hún gelti heiftarlega og hringsnerist um gólfið. Matti sá sitt óvænna hvæsti og yfirgaf bráð sína. Flugan skreið um gólfið svolitla stund en hóf sig svo á loft og réðst á gluggann aftur. Þá kom riddarinn sjónumhryggi vopnaður skordýraeitri og lét hana hafa það. Dauðastríðið tók örfáar sekúndur og mér tókst að dotta fljótlega aftur þrátt fyrir að samviskan kveldi mig. Eiginmanninum fannst nefnilega nauðsynlegt að segja mér að þetta muni hafa verið drottning sem er ekki með neinn brodd. Mér hefði því verið fullkomlega óhætt að koma henni varlega fyrir í glasi og henda henni út. Já, það eru fleiri en þeir sem hafa tandurhreina samvisku sem sofa vel. Kannski er ég bara svona forhert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)