Ekki eins málglöð og ég hélt

Ég fór inn á síðu af blogginu hennar Nönnur Rögnavaldar. www.oneplusyou.com og rakst þar á nokkur spennandi persónuleikapróf, m.a. má þar tékka á hversu málglaður bloggari maður er. Ég reyndist mun penni í kjaftavaðlinum en ég hélt því ég var 20% orðfærri en meðalblogger. Því miður get ég ekki fært sönnur á þetta hér því kódar eins og þeir sem gefnir eru upp í þessum prófum virka aldrei rétt hér á blogginu mínu. Ég kópera þá samviskusamlega og skeyti inn í færslurnar mínar en það eina sem birtist eru óskiljanlegar línur af tölum og táknum. Þið verðið bara að trúa mér.


Af harðsperrum og handarmeinum

Ég gekk á Úlfarsfellið um daginn í fyrsta sinn á þessu vori. Líkt og venjulega dróst ég upp síðustu metrana blásandi eins og físibelgur meðan tíkin horfði á mig með samúð sem krydduð var örlítilli fyrirlitningu. Fyrstu fjallagöngunni fylgja jafnan harðsperrur en að þessu sinni voru þær svo magnaðar í framanverðum lærunum að ég gat varla með nokkru móti sest á klósett. Ég varð að sæta lagi og skáskjóta mér niður á setuna með stunum og kvölum og bar mig svo klaufalega að við þessa hreyfingu að ég óttaðist það mest að hitta ekki á klósettið heldur hlunkast með beran botninn á gólfið. Til allrar lukku gerðist það ekki þann tíma sem það tók líkamann að laga vöðvaskemmdirnar en þetta varð til þess að sagan af sveitakonunni mikilvirku rifjaðist upp fyrir mér. Kona þessi er mér og öðrum kunn af því að vera hörkudugleg, afkastamikil og víla fátt fyrir sér. Hún fékk slæmsku í hendurnar sem eingöngu var hægt að laga með uppskurði svo frúin var tilneydd til að halda í kaupstaðaferð til að fá bót meina sinna. Læknirinn spurði hana á hvorri höndinni hún vildi að þeir byrjuðu. Mín svaraði að bragði samkvæm sjálfri sér: „Takið þær báðar í einu þá þarf ég ekki að koma aftur.“ Undarlegur svipur kom á lækninn og hann spurði hvort hún væri alveg viss. Hún hélt það nú og uppskurður var gerður á báðum höndum. Það var hins vegar ekki fyrr en heim kom að hún áttaði sig á því að með báðar hendur í gifsi og umbúðum nýttust þær ekki til daglegra smástarfa eins og þess að skeina sig. Þá þjónustu varð maður hennar að veita. Já, skilvirknin er stundum ofmetin.

Bloggfærslur 8. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband