Dorgað við sjónvarpið

Líkt og allir vita hef ég gaman af bögumælum og ambögum ýmiss konar. Í gær heyrði ég sögur af konu sem var nokkuð óðamála og kannski ekki alltaf með öll orðatiltæki á hreinu. Eitt sinn mætti þessi kona venju fremur framlág í vinnu og gaf þessa skýringu á þreytu sinni: „Ég tók vídeóspólu í gærkvöldi og lá svo dorgandi yfir sjónvarpinu í allt gærkvöld og var andvana í alla nótt.“ Þetta finnst mér óstjórnlega skemmtilega að orði komist.

Frelsi í hugsun

Í morgun var ég að ræða um bókina Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali við starfsmann útgefandans og nefndi það við hann að ég væri alveg hissa á hversu litla athygli bókin hefði vakið hér á landi. Mér finnst nefnilega svo áhrifamikið og merkilegt að þessi kona sem alin er upp í islam, var mjög trúuð og barðist árum saman við að beygja sig undir ofurvald trúarbragðanna fullyrði að misrétti sé innbyggt í islam. Vestrænir spekingar hafa nefnilega borið á móti þessu árum saman og sagt að í Kóraninum sé ekkert slíkt að finna þvert á móti sé þar bara kærleikur. Nú þekki ég þetta ekki og ætla mér ekki að dæma um það en Ayaan bendir að í Kóraninum sé sannarlega að finna misrétti gegn konum og þar sé líka krafist slíkrar undirgefni gagnvart guði og trúarbrögðunum að gagnrýnin hugsun komist ekki að. Hún segir að á meðan svo sé verði engar framfarir í löndum sem játa þessa trú og lýðræði muni aldrei geta þrifist. Finnst ykkur þetta ekki merkilegt? Eins og ég tók fram áðan þá þekki ég þetta ekki en finnst þess virði að hlusta á sterka, afgerandi rödd þessarar hugrökku konu.


Bloggfærslur 2. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband