Æðruleysi og æruleysi

Við vorum að ræða um útvarpsmenn og hversu misjafnir þeir eru nú hér í vinnunni og þá datt mér í hug saga af þekktri útvarpskonu. Eitt sinn var hún með þátt í vikunni fyrir jólin og hringt var inn. Á línunni var maður sem sagði sínar farir ekki sléttar. Hann var að sjálfsögðu öryrki og illa staddur í lífinu og þennan dag hafði hann haldið af stað í bæinn til að kaupa jólagjafir og týnt veskinu sínu. Líkt og venjulega þegar veski týnast á Íslandi rétt fyrir jólin var aleiga hans í því. Útvarpskonunni gengu raunir mannsins að hjarta og hvað eftir annað æjaði hún og óaði meðan hann sagði söguna. Að lokum kvaddi hún manninn og sendi þessi skilaboð til hlustenda sinna: Ég vona bara að veskið finnist og ég bið skilvísan hlustanda að skila því nú inn. Það er svo agalegt að tapa svona ærunni rétt fyrir jólin.


Heimur versnandi fer

Ég var stödd í verslun hér í heimabæ mínum um daginn þegar karl nokkur vindur sér inn úr dyrunum með límónusúran svip á andlitinu. Umsvifalaust tók hann að hella úr skálum reiði sinnar yfir mig og afgreiðslustúlkuna og benti á unglingahóp sem stóð fyrir framan verslunina og hallaði sér fram á hrífur, skóflur og önnur garðverkfæri og var að spjalla saman. Þetta fannst honum til marks um að leti hefði aukist til muna í samfélaginu og vinnusiðgæði Íslendinga að engu orðið. Ég hlustaði á manninn svolitla stund og sagði svo: Já, það er verst að galeiðurnar skuli vera aflagðar. Annars hefðu við geta selt allt þetta lið í þrældóm og látið Rómverja um að berja inn í það einhverja hörku. Karlinn starði á mig gapandi en afgreiðslukonan greip andann á lofti og sagði: Nei, segðu þetta ekki. Hugsaðu um aumingja Breiðuvíkurdrengina. Þetta hefur hins vegar orðið til þess að ég velti alvarlega fyrir mér hvort Íslendingar séu hættir að skilja kaldhæðni.

Bloggfærslur 18. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband