Einn í miðju úthafi

downloadSíðustu þrjú ár hefur Einar Kárason sótt innblástur í kunna voðaatburði sem setið hafa í þjóðinni. Opið haf byggir á sögu Guðlaugs Friðþórssonar, sjómanns sem synti í land 6 km leið í köldum sjó. Þetta einstaka afrek verður líklega seint endurtekið og hefur vakið aðdáun alla tíð síðan. Það sem ekki hvað síst hefur orðið mönnum undrunarefni er hvernig Guðlaugi tókst að halda ró sinni og skýrri hugsun þær níu klukkustundir sem þrekraun hans stóð yfir í. Ekki nóg með að hann synti í land, hann þurfti að kasta sér út aftur í öldurnar því hann kom ekki að landi á heppilegum stað fyrst og síðan tók við 3 km ganga yfir úfið hraun í frosti og kulda. Og það er einmitt þessi hugarró sem verður Einari að yrkisefni í sögu sinni. Hann lýsir vel hvernig maðurinn, einn í miðju úthafi, lætur hugann reika. Rifjar upp minningar, ímyndar sér viðbrögð fólksins síns, talar við múkkann og fær aukið þor á örvæntingarstundum. Takturinn er hægur meðan á sundinu stendur í samræmi við hvernig tíminn hefur silast áfram á sundinu en í lokin verður bókin spennandi og dramatísk. Einar er frábær höfundur og þessi bók sýnir vel hve flinkur hann er. Hún er falleg og að lestri loknum finnst manni að einmitt svona hljóti þetta að hafa verið. 

 


Bloggfærslur 20. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband