Hvers virði er einstaklingurinn?

mika-baumeister-LaqL8nxiacc-unsplashÉg skipti um vinnu á liðnu ári. Það olli svo sem engum titringi að ráði neins staðar. Það var í senn spennandi og kvíðvænlegt, eins og alltaf þegar tekist er á við breytingar. En það viðmót og starfsandi sem mætti mér á nýjum stað einkenndist af hlýju og virðingu. Það varð til þess að ég fór að velta fyrir mér framkomu yfirmanna á vinnustöðum við starfsmenn sína á svolítið nýjan hátt. Ég er þeirrar skoðunar að hlutverk stjórnenda sé að veita undirmönnum sínum innblástur, vekja með þeim ástríðu, áhuga og metnað fyrir verkefnunum og takist það ekki þurfi viðkomandi stjórnandi að skoða aðferðir sínar og þær leiðir sem hann fer við að nálgast starf sitt. Hann þarf að leggja sig fram um að kynnast fólkinu sínu, þekkja styrkleika þess og veikleika og velja því hlutverk út frá því. Þegar vel tekst til skapast andi metnaðar og kappsemi á vinnustaðnum. Þar ríkir vinátta og samvinna sem ekki snýst um að troða skóinn af öðrum heldur ríkir skilningur á að allir eru mikilvægir í ferlinu.

Það þarf að gefa fólki tækifæri til að vaxa í starfi, leiðbeina því og styðja þegar það stígur út fyrir þægindarammann. Á nýjum vinnustað gerði ég nýlega upp árið á fundi með yfirmanni mínum. Þar fékk ég tækifæri til að líta yfir helstu sigra haustsins, mistök, verkferla sem þarfnast úrbóta og eigin stöðu innan heildarinnar. Til dæmis hvernig ég vil styðja samstarfsmenn og hvers ég þarfnast frá þeim. Ég setti mér líka markmið fyrir næsta ár og á fundinum fórum við yfir þau saman. Ég fékk leiðbeiningar, jákvæða uppörvun og innblástur til að halda áfram.

pablo-varela-hEw2qUhk-fw-unsplash (1)Ég hef aldrei skilið þá mannauðsstefnu að segja fólkinu sínu sífellt að enginn sé ómissandi, að maður komi í manns stað. Með því er í raun verið að segja að starf þitt sé einskis virði, þú sért lítils metinn. Á sama tíma og hamrað er á þessu skilja viðkomandi yfirmenn ekkert í því að þeir finni ekki fyrir metnaði og áhuga hjá starfsfólki, að það sýni fyrirtækinu ekki tryggð heldur forði sér eins fljótt og það getur. En langar einhvern að dvelja þar sem hann er bara skrúfa í tannhjólinu og útskiptanlegur fyrir aðra sambærilega hvenær sem er? Við vitum öll að vissulega er hægt að skipa mann í manns stað en það þýðir ekki að hann fylli skarðið. Ekkert er nýtt undir sólinni að því leyti að flest það sem menn taka sér fyrir hendur hefur verið gert áður í einhverri mynd og allar nýjungar byggja á gömlum grunni. Besti árangur sem við getum vonast til að ná, einkum og sér í lagi ef maður vinnur í skapandi geira, er að setja sitt persónulega mark á verkið. Skapa blæbrigði sem eru þín og enginn annar fær um að leika fyllilega eftir. Og einmitt vegna þess er svo mikilvægt að yfirmenn og mannauðsstjórar átti sig á hvílík verðmæti felast í einstaklingnum á vinnustaðnum. Þú getur sagt upp manneskju vegna þess að þér leiðist hún eða þér finnist hún ekki passa í teymið, að hún sé orðin of dýr, of stöðnuð í starfi eða hvað eina annað en þér leyfist aldrei að tala hana niður eða gera lítið úr hæfileikum hennar. Ef þér sem yfirmanni tókst ekki að blása henni í brjóst áhuga eða löngun til að laga sig að þínu fyrirtæki, verkefnum þess og markmiðum er eitthvað að þinni nálgun á þitt starf.


Bloggfærslur 4. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband