Meyja, kona, móðir

Mikið lifandis skelfing, ósköp og býsn er hún Benný Sif skemmtilegur höfundur. Gratíana er yndisleg bók. Þarna er ástin í öllum sínum myndum, konur sem hika ekki við að láta drauma sína rætast og líta aldrei um öxl. Konur sem elska af öllu hjarta og geta ekki annað en veitt umhyggju og ástúð. Kraftmiklar, dreymnar, hvatvísar, greindar og fullar baráttuanda eru kvenpersónur þessarar bókar.

Hún er eilíf barátta kvenna. Togstreitan milli skyldunnar og löngunar til að vera sjálfstæð. Umönnunarhlutverkið hefur lengst af dæmst á okkur og við þótt betur til þess fallnar en karlar og eflaust eru einhverjar konur þannig innréttaðar frá náttúrunnar hendi en flestar renna smátt og smátt inn í móðurhlutverkið og læra fórnfýsina og ástúðina sem til þarf. Gratíana getur ekki yfirgefið barn systur sinnar, eins og kemur fram í Hansdætrum. Hún fer með það heim og gefur upp á bátinn menntun sína og þar með framtíðarmöguleika.

Evlalía tekur ástfóstri við dótturdóttur sína en hennar eigin son getur hún ekki elskað. Gratíana hefur líka alltaf staðið í skugga Sellu. En það má Evlalía eiga að hún hrindir Gratíönu út úr hreiðrinu. Neyðir hana upp úr deyfðinni í saltfisknum og skipar henni af stað í leit að nýju lífi og draumum. Lesendur fá svo að fylgja henni eftir við kennslustörf og í vist hjá kaupmannshjónum. 

Allar persónur eru dregnar svo sterkum litum í bókum Bennýjar. Hennar karakterar eru margbrotnir, breytilegir og breyskir og svo ofboðslega áhugaverðir. download

Nú ef það er ekki nóg þá hefur Benný Sif ótrúlegt vald á tungumálinu. Hér gefst færi á að rifja upp gömul og góð orðtök og málshætti og bæta við nýjum og stórskemmtilegum. Hún fléttar líka orð saman á svo frumlegan og fallegan hátt að ég þarf eiginlega að fara í gegnum þessa bók aftur og skrifa þetta allt hjá mér svo ég geti slegið um mig með þessari snilld. Mikið öfunda ég þá sem eiga þá ánægju eftir að lesa Hansdætur og Gratíönu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband