Með saknaðarilm í nösunum

downloadSaknaðarilmur er fullkomin titill á bók sem byggir á minningum. Í tilfelli Elísabetar Jökulsdóttur eru það minningar um móður. Mér hefur oft fundist við vanmeta lyktarskynið. Í bókum er brugðið upp myndum og þær lifna fyrir hugskotssjónum lesandans, hann heyrir oft tónlist, finnur mjúkt efni undir höndum eða fótum þegar söguhetjan gengur um en mun sjaldnar finnum við lyktina í híbýlum eða af öðrum persónum. Elísabet leggur hins vegar upp með í sitt minningarferðalag með saknaðarilminn í nösunum. Og við erum örugglega fleiri sem könnumst við það að finna einhverja lykt og þá hellast yfir minningar og tilfinningar af miklum krafti. 

Það er svo mikill sársauki í þessari bók, skerandi ótti barnsins og svíðandi reiði fullorðinnar dóttur sem upplifði að móðirin hefði svikið hana. En einnig skilningur og sátt. Kannski er það rómantísku stefnunni að þakka eða kenna að í hugum okkar hefur móðirin fengið upphafið hlutverk. Hún á að vera fórnfús, umhyggjusemin holdi klædd og sú sem aldrei bregst. „Þú varst líknin, móðir mín og mildin þín studdi mig fyrsta fetið.“ Kvað Örn Arnarson en í kvæði Jónasar um hina grátnu er gengur um hjarn, fórnar móðir lífinu fyrir barn sitt. Fáar konur, ef nokkrar, ná að uppfylla þessa ímynd. Þær eru einfaldlega oft þreyttar, einmana eða illa fyrir kallaðar. Þær geta líka orðið reiðar, brugðist og hastarlega við og gert afdrifarík mistök. Það er öllum áfall að uppgötva að mæður þeirra eru ekki fullkomnar og ekki síður að gera sér grein fyrir að maður getur ekki verið sínum eigin börnum sú móðir sem maður vildi vera. Mæður þurfa líka að taka erfiðar ákvarðanir, vera grimmar, þegar og ef það er barninu fyrir bestu. Sjaldan er hins vegar talað um þessa hlið eða börnum opnuð sýn á tilfinningalíf foreldra sinna. Vissulega óþarfi að leggja allt á börnin en kannski ágætt að þau fái að heyra stundum hvers vegna þau mæta akkúrat þessum viðbrögðum.

Elísabet lýsir einkar hversu miklu það munar að skilja. Þegar sjónarhorn annarra á atburði opnast okkur og við vitum hvað lá að baki er oft auðveldara að fyrirgefa og lækna sárin. Sambönd mæðra og dætra hafa verið ótal mörgum rithöfundum umfjöllunarefni og ýmsir sérfræðingar í sálarlífi mannsins lagt sig fram um að skilja það og skilgreina en á blaðsíðum Saknaðarilms birtist allt sem skiptir máli, ást, togstreita, skilningur, gleði, tenging og sundrung. Móðir og barn eru órjúfanlega tengd en þurfa ekki alltaf að ganga í fullkomnum takti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég er akkúrat að lesa Saknaðarilm núna og finnst hún mögnuð. Mikið er ég ánægð að sjá þig aftur á blogginu. Það verður dásamlegt að lesa dóma um bækur frá þér. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.11.2022 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband