15.11.2022 | 17:42
Íslenskar jarðýtur í sókn
Varnarlaus eftir Jónínu Leósdóttir er bráðskemmtileg sakamálasaga þar sem þrjú dularfull mál eru rannsökuð á sama tíma. Adam fer að fá áhyggjur af heilsu föður síns eftir að mamma hans hringir ítrekað og kvartar undan skrýtinni hegðun hans og á sama tíma lætur hann fyrrverandi konu sína draga sig inn í rannsókn á óvenjulega tíðum dauðsföllum á hjúkrunarheimili. Það er þvert á vilja hans og gæti komið honum í erfiða stöðu ef upp kæmist því það sem Soffía fer fram á er á mörkum þess að teljast siðlegt í hans fagi. En lögreglukonan Soffía er ekki vön að sætta sig við neitun og allra síst frá fyrrverandi eiginmanni sínum. En Pandóra, samstarfskona Adams á Sáló, hefur miklar áhyggjur af nágrannakonu sinni. Þar er eitthvað meira en lítið dularfullt í gangi og þegar ungur sonur stúlkunnar á efri hæðinni hverfur getur Pandóra ekki látið þetta kyrrt liggja. Bæði Adam og Soffía koma síðan að þeirri rannsókn líka. Jónína skrifar karakterdrifnar glæpasögur og byggir á áhuga lesandans á persónunum og örlögum þeirra fremur en gríðarlegri spennu.
Hér eru ekki blóðug lík á annarri hverri síðu eða illskeyttir morðingjar í felum bak við hurðir. Kurteis og yfirvegaður millistéttar Breti, íslensk valkyrja og forvitinn sálfræðingur sjá að ekki er allt með felldu og ákveða að gera eitthvað í því. Borgarar með samvisku. Jónína er snillingur í að gera ýtnar íslenskar konur að persónum í bókum og gera þær áhugaverðar. Þær eru nokkrar í þessari bók, djarfar, ákveðnar og fylgnar sér og breskur sálfræðingur hefur ekki roð við þeim, verður einfaldlega að fylgja straumnum en mikið er þetta skemmtilegt og svo auðvitað gaman að brjóta heilann um gáturnar og fá á þeim lausn í lokin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.