Ein sú allra besta

downloadÉg verð að viðurkenna að ég treindi mér þessa bók. Horfði á hana á náttborðinu svona eins og maður starir á freistandi súkkulaðiköku. Eftir góða vinnutörn verðlaunaði ég mig með því að opna hana. Og þvílík sæla. Bandið er svo fallegt og kápan vel unnin svo veislan byrjaði strax þar. Jane Austen las ég fyrst sautján ára. Þá varð Pride and Prejudice fyrir valin og seinna fór ég í áfanga í enskudeildinni þar sem verk hennar var tekin fyrir ásamt bókum Brontë-systra og Georges Eliots. Mikið var það rosalega gaman. Ég gleypti í mig Emmu og Northenger Abbey og keypti Sense and Sensibility til lesa mér til ánægju. Hún var ekki tekin fyrir þarna því hún var fyrsta bókin og æskuverk, Jane var aðeins nítján ára þegar hún byrjaði á henni, og kennarinn eiginlega gaf í skyn að hún væri síðri en hinar. Þegar ég hafði svo lokið lestrinum gat ég alls ekki verið því sammála. Þessi dásamlega kímni, meistaralegur leikur að kaldhæðni og snilldarlega persónusköpun er til staðar í þessari fyrstu bók ekkert síður en í hinum og mér finnst persónur hennar ekkert gefa eftir Bennett-fjölskyldunni og vonbiðlum systranna þar. Þær Elinor og Marianne eru hvor á sinn hátt frábærlega unnir og heilsteyptir karakterar í skáldsögu og móðir þeirra ekki síður. Maður getur skilið báðar systurnar, haft samúð með þeim og fagnað því hversu vel þær ná að þroskast í gegnum söguna. Allt það besta sem Jane Austen gerir er til staðar í Aðgát og örlyndi en það er titillinn sem Silja Aðalsteinsdóttir valdi eftir þónokkra umhugsun og eftir að hafa heyrt rök hennar fyrir valinu er ég fyllilega sátt við hann. Hún þýðir söguna líka snilldarlega á fallegt íslenskt mál og það var hreinlega dásamlegt að endurnýja kynnin við Dashwood-fjölskylduna. Hinn sjálfselska John og gráðugu Fanny, hinn hægláta Edward Ferrars, Sir John Middleton, Willoughby og Colonel Brandon. Þetta var sko jólaveisla rétt fyrir jólin og það verður svo gaman að eiga þessa bók upp í skáp og handleika hana reglulega lesa aftur fyndnustu kaflana og dást að því hvað hún er falleg. Ég vona sannarlega að Silja fái þýðingarverðlaunin sem hún er tilnefnd til. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband