Undarlegur lestrarvandi

siora-photography-hgFY1mZY-Y0-unsplashMeð árunum hefur sótt á mig undarlegur lestrarvandi. Mér hefur ótal sinnum tekist að lesa einhver orð svo dæmalaust vitlaust að engu tali tekur. Nýlega komst ég að því að ég er ekki ein um þessi ósköp og ýmsir í kringum mig þjást af því sama.

Eitt sinn var ég á göngu við Bókasafn Kópavogs með hundinn minn og sá þá í glugga sem á stóð: Skítalúga á norðurhlið. Jáhá, hugsaði ég með mér. Hér hafa greinilega margir óprúttnir hundaeigendur gengið og ekki hirt upp eftir hunda sína. Forsvarsmenn bókasafnsins hafa því brugðið á það ráð að koma upp sérstakri lúgu fyrir hundaskít á norðurhlið. Mér þótti þetta fullkomlega rökrétt skýring þar til ég rýndi betur í stafina og sá að þarna stóð: Skilalúga á norðurhlið. Hitt hefði nú líka sett nokkuð annan blæ á starfsemi safnsins.

Ég minnist þess líka þegar ég var að ljúka við þá stórfínu bók Kuðungakrabbana að ég var spennt að vita endinn og las því síðustu blaðsíðurnar kannski svolítið hratt. Á einum stað var talað um róna í kirkjuskipinu og ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum menn fjarlægðu ekki rónann úr kirkjunni. Þar fyndist mér hann ekki eiga heima. Það var ekki fyrr en eftir tvær blaðsíður í viðbót að ég áttaði mig á því að þarna var verið að tala um ró þ.e.a.s. frið. En það er hins vegar allt önnur Ella.

Ljóð hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og ég gríp reglulega ljóðabækur og les mér til hugarhægðar. Í fyrsta skipti sem ég las ljóðið Ísland eftir Bjarna Thorarensen varð ég ákaflega hissa á seinna hlutanum. Sá fyrri var auðskilinn: Fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði, fjöll sýni torsóttum gæðum að ná. Síðan kom hið undarlega orðalag: bægi sem kerúb með sveittanda sverði silfurblár Ægir oss kveifarskap frá. Ég hafði aldrei heyrt um sveittanda og var ekki alveg viss um að andar svitnuðu svona almennt. Eftir annan lestur varð mér hins vegar ljóst að þetta var sveipanda sverði, aðeins önnur merking.

Sumar manneskjur og spilafífl

Íslenskt heilbrigðiskerfi hefur mikið verið til umfjöllunar vegna niðurskurðar og þegar ég las eina slíka frátt sá ég að sjúkrahús á landsbyggðinni hafði lokað fyrir innlagnir vegna manneskju. Það er aldeilis, hugsaði ég. Sumar manneskjur eru til meiri vandræða en aðrar. Síðan leit ég aftur á þetta og þá kom í ljós að þarna stóð manneklu ekki manneskju. 

sincerely-media-c1YrcFYW66s-unsplashNú er ég að verða sannfærð um að þessi vandi er ekki eingöngu minn. Kona, mér náskyld, sagði mér frá því um daginn að hún hafði verið á ferð norður í land þegar hún kom auga á vegaskilti sem á stóð: Þristapar. Hún velti fyrir sér alla leið á áfangastað hver tæki upp á skíra bæ sinn eða kennileiti í landi sínu eftir þristum. Kannski væri þetta spilafíkill sem hefði unnið þann stóra á þristapari í póker. Í bakaleiðinni beið hún spennt og las á skiltið góða en þá stóð þar: Þrístapar og konan áttaði sig á að þarna hafði hún ekið framhjá staðnum þar sem síðasta aftaka fór fram á Íslandi. Svona getur nú munað miklu milli punkts og kommu.

Eitthvað svipað átti sér stað þegar ég keypti pítsu frá Eldsmiðjunni fyrir allnokkrum árum og maðurinn minn kallaði hróðugur til mín á leið með kassana í ruslið:„Energi lík. Hér stendur energi lík.“ „Jæja,“ svaraði ég glöð. „Ætli það tákni ekki að jafnvel lík fyllist energí eftir át á Eldsmiðjupítsu.“ „Fyrirgefðu,“ kom að bragði að frá karli. „Þetta var engri lík.“

Skipperrar og nauðgunaruppboð

Þegar nauðungaruppboð voru auglýst í dagblöðum las lítil stúlka í Reykjavík ævinlega nauðgunaruppboð og fletti hratt yfir síðuna því hún vissi að nauðgun var eitthvað hræðilegt. Seinna rifjaði hún þetta upp í góðra vina hópi og þá kom í ljós að margir aðrir höfðu lesið þetta sama út úr orðinu. Það má hins vegar velta lengi fyrir sér hvernig nauðgunaruppboð færu fram. Þessi sama stúlka rakst einhvern tíma líka á fyrirsögnina Skipperrar funda í Stykkishólmi og hrökk í kút. Fram að þeirri stundu hafði hún ekki gert sér ljóst að til væru skipperrar hvað þá að þeim væri leyft að funda á jafn fallegum stöðum en leit ögn betur á fyrirsögnina og sá að þar stóð: Skipherrar funda í Stykkishólmi.

Af hverju þessi undarlegi og bráðsmitandi lestrarvandi stafar er ekki gott að segja en skemmtilegur getur hann sannarlega verið og ekki meinlegri en svo að auðvelt er að lifa með honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband