Langar þig að upplifa stórkostlega skemmtun?

download-1Ef einhver hefði spurt mig í gær hvort ég teldi það góða hugmynd að setja upp óperusýningu í litlum sal í kjallara þar sem lágt er undir loft hefði ég hnussað og spurt viðkomandi hvort hann væri búin að tapa því litla viti sem guð gaf honum. Í dag myndi ég hins vegar svara: „Ef þú færð rétta fólkið eru þér allir vegir færir.“ Og rétta fólkið myndar Sviðslistahópinn Óð. Þau eru í einu orði sagt, stórkostleg og Don Pasquale í Þjóðleikhúskjallaranum ein besta skemmtun sem ég hef upplifað í leikhúsi. Ég sá Ástardrykkinn í uppfærslu þeirra í fyrra og hann einkenndi þessi sama leikgleði og færni en núna gera þau enn betur þótt ég hafi ekki trúað að það væri hægt.

Ég elska óperur en hef alltaf tengt þær við stór svið og leikhús þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja og þannig hef ég yfirleitt notið þeirra. Þjóðleikhúsið er minnst þeirra húsa sem ég hef séð óperu sviðsetta í. Skrautlegir búningar, stórar hljómsveitir og viðamikil leiktjöld hafa svo búið tónlistinni umgjörð við hæfi. Það kom því verulega á óvart að Þjóðleikhúskjallarinn lifnaði við og varð að höll hins forríka Don Pasquale og garðurinn í kring bæði stór og skrautlegur þótt leikmyndin væri ekki annað en upphækkaður pallur, stóll og grænn brúskur. Það er með ólíkindum hversu hugvitsamlega hópnum tókst að nýta salinn og stækka hann svo um munaði í hugum áhorfenda. 

download-2Sviðslistahópurinn hefur það á stefnuskrá sinni að færa okkur óperur á íslensku, færa þær þar með nær og opna okkur leið til að skilja þær til fulls. Þessi einstaki leikstíll sem einkennir óperuverkin og melódramað talar til mín á einhvern hátt sem ég á erfitt með að útskýra og nú veit ég að dásamleg tónlistin og frábærar raddir þurfa ekkert skraut til að koma þessu tvennu til skila.

Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að Don Pasquale ætlar að neyða Ernesto frænda sinn og einkaerfingja til að giftast ríkri konu en hann þverneitar því hin glæsilega en fátæka Norina á hug hans og hjarta. Malatesta, læknir Don Pasquales og vinur Ernesto, semur hins vegar flókna og lævísa áætlun sem ætlað er að kenna þeim gamla lexíu og sameina elskendurnar að lokum. Þórhallur Auður Helgason leikur Ernesto af mikilli list og rödd hans er óskaplega falleg. Áslákur Ingvarsson er Malatesta og er engu síðri. Hann hefur líka svo einstaklega lipran limaburð og það sópar að honum á sviðinu. Ragnar Pétur Jóhannsson er Don Pasquale og kemur karlfausknum frábærlega til skila. Þar sem ég er alltaf veik fyrir bassaröddum náði hann líka að vekja með mér ákveðna samúð og löngum til að hugga þann gamla. Að hinum söngvurunum ólöstuðum var Sólveig Sigurðardóttir í hlutverki Norinu samt uppáhaldið mitt. Hún hefur magnaða rödd og syngur af svo miklu listfengi að um leið og hún opnaði munninn sat ég andaktug og varla þorði að anda af ótta við að missa af einhverju. Hún á líka mikið hrós skilið fyrir þýðinguna á verkinu því hún lipur og bráðfyndin og sérlega vel unnin.

downloadNú og svo á Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari sérstakan stað í hjarta mínu og hann er þarna í hlutverki heillar hljómsveitar og fer létt með það. Tónlist Donizettis er svo falleg að mig skortir lýsingarorð sem hæfir henni og Sigurður Helgi nær að túlka hana einn á píanóinu óstuddur af öðrum hljóðfærum. Það þarf sérstaka hæfileika til trúiði mér.

Ég er enn uppnumin og glöð eftir þessa kvöldskemmtun og skora á ykkur að láta þetta ekki framhjá ykkur fara. Ég var að auki svo heppin að fá að sitja við borð með einni okkar skærustu óperustjörnu fyrr og síðar, Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Það var einmitt hún sem vígði mig inn í hinn yndislega heim óperunnar þegar ég sá hana syngja Carmen í Þjóðleikhúsinu árið 1975. Hún var þarna ásamt manni sínum bassabaritonsöngvaranum Simon Vaughan. Sú skemmtilega tilviljun gaf svo kvöldinu og enn ævintýralegri blæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband