Hinn athyglisverði Colson Whitehead

Nickel_strakarnir_kapa_FRONT-1249x2048Í Kiljunni á miðvikudag bárust fréttir af því að Colson Whitehead væri væntanlegur til Íslands á bókmenntahátið í Reykjavík. Ég kynntist verkum hans fyrst þegar ég las Nickel-strákana þegar sú bók kom út á íslensku. Það varð til þess að ég náði mér í The Underground Railway en hún hefur líka komið út í íslenskri þýðingu. Báðar þessar bækur eru afburða vel skrifaðar og efni þeirra svo áleitið að það lætur mann ekki í friði lengi eftir að maður leggur frá sér bókina. 

Colson Whitehead er fæddur í New York árið 1969 og ólst upp á Manhattan. Foreldrar hans nutu velgengni og hann lauk námi frá Harvard-háskóla. Fyrsta bók hans The Intuitionist kom út árið 1999 og vakti mikla athygli. Hann hefur síðan gefið út bæði skáldsögur og verk almenns eðlis en stórvirki hans eru talin Nickel-strákarnir og Neðanjarðarjárnbrautin en fyrir Nickel-strákana fékk hann Pulitzer-verðlaunin árið 2019. Sú áhrifamikla saga fangar kjarna þeirrar ólgu og spennu sem ríkir milli þeldökkra og hvítra Bandaríkjamanna. Innblástur að skrifunum fékk Colson þegar hann las frétt í The Tampa Bay Times um uppgröft fornleifafræðinema á fjöldagröfum drengja af afrískum uppruna. Þeir höfðu verið nemendur í ríkisreknu unglingaheimili, Dozier School for Boys, í bænum Marianna. Þar voru vistaðir unglingsdrengir sem höfðu brotið af sér þannig að þótt þetta væri kallað skóli var þarna í raun um fangelsi að ræða. Margir fanganna voru þeldökkir sem oft höfðu ekki gert neitt alvarlegra en að hafa ekki vikið fyrir hvítri konu á götu. Í heila öld komumst óþokkarnir sem réðu lögum og lofum þarna upp með að misþyrma, nauðga og drepa börnin sem þeim var trúað fyrir. Talið er að fórnarlömbin hafi verið yfir áttatíu. Aldrei verður hægt að upplýsa þetta mál að fullu fremur en morð og níðingsskap nunnanna í Magdalene-þvottahúsunum á Írlandi.

Grimmdarverk mega ekki gleymast

Þessi hræðilegu grimmdarverk eiga eigi að síður erindi við okkur í dag. Þau eru meðal þess sem aldrei má gleymast. Hér á landi eru því miður margar sambærilegar stofnanir sem flett hefur verið ofan af undanfarin ár, Breiðavík, Silungapollur, vöggustofa Thorvaldssen-félagsins, Laugaland og fleiri koma í hugann. Í bók Colsons heitir hryllingsstaðurinn the Nickel Academy of Eleanor og fyrstu grafirnar finnast þegar byggingafyrirtæki er að grafa fyrir nýrri skrifstofubyggingu, fyrir ríkislögmanninn sem hafði hafið rannsókn á ofbeldinu í skólanum og hélt að öll kurl væru komin til grafar í málinu. Með því að rífa húsið og byggja nýtt á lóðinni átti að eyða þessum ömurlega hryllingi úr sögu bæjarins en draugar fortíðar hafa lag á að skjóta upp kollinum og minna á sig þegar síst er búist við þeim.

En hvorki Bandaríkjamenn né aðrar þjóðir eiga eða mega gleyma ofbeldisverkum í fortíð sinni og það er aldrei of seint að biðjast afsökunar og viðurkenna glæpina. Tyrkir eru fyrst nú að viðurkenna fjöldamorð á Armenum á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar en Ísraelsmenn eiga eftir að horfast í augu við glæpi sína gegn Palestínumönnum. Bandaríkin eru nú að átta sig á og reyna að bæta fyrir þrælahaldið og þjóðarmorð á indíánum. Bók Colsons talar in í þann veruleika. Mikilvægi þess verður seint vanmetið sérstaklega í ljósi nýliðinna atburða í Bandaríkjunum þar sem kerfislægt ofbeldi gegn blökkumönnum innan lögreglunnar virðist svo innbyggt að ómögulegt virðist að uppræta það. Nú síðast voru það þeldökkir lögreglumenn sem níddust á öðrum blökkumanni og börðu hann til bana.

Alsaklaus í fangelsi

Ofbeldið á sér einnig enn stað í öðrum myndum og innan annarra stofnana og fær að líðast í þögninni rétt eins og innan veggja the Nickel Academy. Aðalpersónan í bókinni Elwood Curtis var yfirgefinn af foreldrum sínum þegar hann var barn. Þau lögðuá flótta frá ömurlegum aðstæðum sínum og skilja barnið eftir hjá ömmu sinni. Flestir fjölskyldumeðlimir þeirra hafa látist fyrir aldur fram af völdum ofbeldis. Hann er góður námsmaður og vonast til að komast í háskóla en þá er hann sendur saklaus í the Nickel Academy. Hann húkkar sér far með manni sem hafði stolið bíl og enginn trúir honum þegar hann segist hvergi nærri hafa komið og aðeins verið tekinn upp í bílinn fyrir tilviljun. Innandyra í the Nickel Academy ríkir ofbeldismenning og enginn kemst óskemmdur þaðan út. Elwood flýr ásamt vini sínum og það hefur afdrifaríkar afleiðingar. 

downloadNeðanjarðarjárnbrautin á sér einnig rætur í sögu þeldökkra í Bandaríkjunum. Sagan hefst á plantekru í Georgíu á tímum þrælahalds. Þar tíðkast viðbjóðslegt ofbeldi gegn þrælunum og Ajarry, á erfitt með að þola það. Sjálf þarf hún að þola margvíslegar sorgir og missi bæði af völdum þrælahaldaranna en einnig vegna þess harðneskjulega lífs sem henni er búið. Mabel er sú eina af fimm börnum hennar sem lifir af uppvöxtinn og hún nær að flýja og ætlar leita aðstoðar Neðanjarðarjárnbrautarinnar. Dóttur sína, Coru, verður hún að skilja eftir hjá móður sinni. Síðan heyrist ekki meira frá Mabel. Neðanjarðarjárnbrautin var tengslanet hugrakks og góðs fólks sem sá hversu óréttlátt og andstyggilegt þrælahald var og tók sig því saman og hjálpaði þrælum að flýja frá Suður- til Norðurríkjanna eftir að þrælahald var afnumið þar. Í bók Colson er lestin raungerð, þ.e. um alvöru lest er að ræða fremur en fólk. 

Þegar Cora fylgir í fótspor móður sinnar eltir hana þrælaveiðarinn Ridgeway en Mabel er sú eina sem hefur sloppið í gegnum net hans og hann því staðráðinn í að ná dóttur hennar. Þetta minnir óneitanlega á Jean Valjean og Javert í Vesalingunum eins og auðvitað er ætlun höfundar. Cora fer út á nokkrum stoppustöðvum lestarinnar, kynnist frelsinu á margvíslegan hátt en þarf ævinlega að flýja aftur. Hún þarf að takast á við og sigrast á margvíslegum ógnum og líka horfast í augu við sjálfa sig og eigin bresti og auðvitað er uppgjör milli hennar og Ridgeways óhjákvæmilegt. Í bókinni leikur höfundur sér einnig með tímann á spennandi og nýstárlegan hátt. Nýlega var gerð mjög áhugaverð sjónvarpsþáttaröð eftir þessari bók.

Colson Whitehead er hins vegar stórmerkilegur rithöfundur og hefur lag á að hrífa lesendur með mögnuðum lýsingum og flóknum persónum. Ímyndunarafl hans er einstaklega ríkulegt og hann skrifar myndrænan og afskaplega fallegan texta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband