Sérvitur einfari

imagesEinn athyglisverðasti rithöfundur samtímans Cormac McCarthy er einn þeirra er kjósa að halda sig fjarri sviðsljósinu. Hann skaust óvænt upp á metsölulista allra bókaverslana þegar Oprah valdi bók hans The Road til lestrar í bókaklúbbi sínum árið 2006. Í kjölfarið kom hann í viðtal í þætti Opruh og rétt áður en frumsýna átti kvikmynd gerða eftir bókinni kom hann fram ásamt Coen-bræðrum sem framleiddu hana. Síðast komst Cormac í opinbera umræðu eftir að einhver lak á netið hluta úr óútgefinni bók eftir hann árið 2016.

Bókin heitir The Passenger og Cormac las upp úr henni á uppákomu á síðasta ári. Einhver tók upp upplesturinn og setti á YouTube og þá tók annar við keflinu og hafði fyrir að skrifa upp allt sem hann las og senda áfram. Höfundurinn hefur biðlað til allra er nota netið að deila ekki áfram þessum köflum því bókinni er ekki lokið og hann segir ekki einu sinni víst að hann muni nokkru sinni senda hana áfram til útgáfu. Hann biður því alla að virða rétt sinn til eigin verka.

Bækur hans falla alls ekki að smekk meirihluta lesenda. Heimssýn hans er dökk og þótt flestir geti verið sammála um að hann er mikill meistari orða og stíls er efnið einfadlega stundum og þungt og hægt til að það sé líklegt til höfða til almennra lesenda. Hins vegar brá svo við að þegar Oprah valdi On the Road sem lesefni að fólk sem aldrei hafði látið sér detta í hug að lesa þennan höfund hreifst af textanum og eldri bækur hans selldust í kjölfarið eins og heitar lummur. 

Býr fjarri skarkala heimsins 

Cormac er sérvitur einfari, ekki ólíkur þeim J.D. Salinger og Harper Lee. Þau kusu öll að draga sig í hlé frá skarkala heimsins og veita sjaldan viðtöl og koma ákaflega sjaldan fram opinberlega. Charles McCarthy fæddist 20 júlí árið 1933 í Providence á Rhode Island. Hann var þriðji í röð sex systkina. Nafni hans var breytt í Cormac, sumir segja eftir írska fornaldarkonunginum en aðrir halda því fram að fjölskylda hans hafi frekar kosið gelísku útgáfuna af nafni hans og þess vegna kosið að hafa það þannig. Cormac hóf háskólanám árið 1951 en hætti og gekk í flugherinn. Hann sneri aftur til að ljúka námi árið 1957 en hvarf frá námi án þess að útskrifast árið 1959. Þótt ekki fengi hann prófskírteini fór hann ekki alveg tómhentur úr skólanum því hann vann Merrill-Ingram ritlistarverðlaunin árið 1959 og 1960 fyrir sögur sínar A Drowning Incident og Wake for Susan.

08Cormac2-superJumboEftir að hann hætti í skólanum fluttist hann til Chicago og vann fyrir sér sem bifvélavirki. Hann giftist Lee Holleman sem hafði verið honum samtíða í háskólanum og þau eignuðust saman soninn Cullen. Hann skildi við hana áður en fyrsta skáldsaga hans The Orchard Keeper kom út árið 1965. Þá hafði hann gert útgáfusamning við Random House og ritstjóri hans þar var Albert Erskine sem árum saman hafði unnið með William Faulkner. Það er skemmtileg tilviljun sérstaklega í ljósi þess að Faulkner og Herman Melville eru þeir tveir höfundar sem Cormac segir að hafi haft mest áhrif á skrif sín. 

Um svipað leyti fékk hann styrk til að ferðast til Evrópu og hugðist hann m.a. heimsækja Írland og Blarney-kastala þar sem nafni hans Cormac réð ríkjum á þriðju öld eftir Krist. Um borð í skipinu á leið yfir Atlantshafið tókust ástir með honum og söngkonunni og dansaranum Anne DeLisle sem ráðin hafði verið til að skemmta farþegum. Þau giftust á Englandi árið 1966. 

downloadÞau sneru aftur til Bandaríkjanna árið 1967 og Outer Dark var gefin út um svipað leyti. Þau settust að í gamalli hlöðu rétt fyrir utan Louisville í Tennesse árið 1969 og Cormac hellti sér út í endurbygginguna, m.a. lagði hann steinvegg í húsinu einn og sjálfur og sömuleiðis hjó hann og þurrkaði í viðarofni mikið af timbrinu sem fór í bygginguna. Hjónabandið entist ekki og árið 1976 skildi hann við Anne og flutti til El Paso í Texas þar sem hann býr enn. Vinsælustu bækur hans til þessa eru landamæratrílógían en fyrsta bókin í þeirri röð er All the Pretty Horses sem gerð var kvikmynd eftir árið 2000. Í dag er Cormac giftur Jennifer Winkley og á með henni soninn John. Drengurinn er átta ára og sagt er að hann hafi verið föður sínum innblástur að sögunni The Road. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir pistilinn. Svo skrifaði Cormac McCarthy líka No Country for Old Men, sem Coen bræður kvikmynduðu.

Wilhelm Emilsson, 27.3.2023 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband