Hvert orð skiptir máli

Urta_72_TilnÍslendingar eru ljóðelskt fólk og enn hendir það af og til að ljóðabækur rata á metsölulista bókaverslana. Það sýnir sig einnig að þegar eitthvað bjátar á og sorgin gerir sig heimankomna á leitar fólk ljóða til að tjá tilfinningar sínar, finna huggun og sýna samúð.

Ljóðalestur veitir mörgum mikið yndi en sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að hrynjandi þeirra, rím og orðanotkun hefur áhrif á önnur svæði heilans en annar lestur. Flestir menn eiga auðveldara með að leggja ljóð á minnið en aðra texta og myndmál örvar ímyndunarafl og óhlutbundna hugsun. Það er því full ástæða til að leyfa börnum að njóta ljóða og sömuleiðis ættu fullorðnir að taka oftar fram ljóðabækur heimilisins.

Til að lesa ljóð þarf ekki að tileinka sér neina sérstaka tækni heldur fyrst og fremst að leyfa tilfinningunum að ráða för en ekki sakar að hafa í huga nokkra gullna leiðarsteina þegar flett er ljóðabókum. Forvitni er einstaklega góður förunautur um lendur ljóða. Menn ættu hins vegar að skilja eftir allar fyrirfram gefnar hugmyndir um hvernig ljóð eigi að vera eða hvað sé ljóð. Við fyrsta lestur er gott að láta tungumálið tala til sín og kveikja hugmyndir. Forvitnin vekur hins vegar ævinlega spurningar og þá er komið að næsta skrefi.

Hvers vegna valdið skáldið einmitt þetta orð á þessum stað? Er einhver tilgangur með forminu? Segir takturinn eða hrynjandinn í ljóðinu eitthvað? Notar hann ljóðstafi? Rímar þetta? Og þá er komið að því að rýna. Markmið rýninnar er að skilja og túlka.

Leitin að merkingu

Þegar menn telja sig hafa fundið kjarnann í ljóðinu er kominn tími til að spyrja sig hvort form ljóðsins, tækni eða aðferðir sem skáldið notar bæti einhverju við. Falla áherslurnar þannig að verið sé að leiða lesandann að tilteknu svari eða er þetta allt opið? Einmitt þetta gerir ljóðið svo fjölhæft. Það þarf að þjálfa og rækta upp ljóðeyra líkt og tóneyra. Í hverju kvæði leynist tónlist og þegar menn hafa gripið taktinn er auðvelt að dansa.

Einn helsti óvinur þeirra sem eru að byrja að lesa ljóð eru þær fyrirfram gefnu hugmyndir sem þeir hafa um ljóðagerð, skáldskap og túlkanir. Lesendur sem eru vanastir því að lesa óbundið mál og samfelldan langan texta finnst oft ljóðið skorta dýpt. Það vanti frekari útlistun og þeir verða pirraðir ef þeir skilja ekki strax meininguna. Ljóðið verður nokkurs konar dulmálsskilaboð sem þeir leitast við að ráða, enda sé það alveg óskiljanlegt án lykilsins. Og vissulega geta ljóð verið erfið. Merkingin liggur ekki alltaf ljós fyrir og sum er mögulegt að túlka á marga mismunandi vegu. Lesandinn þarf ætíð að leggja eitthvað til svo hnýta megi endahnútinn á það sem skáldið byrjaði.

downloadHver og einn kemur með eigin reynslu, upplifanir og tungumálaskilning að borðinu og skapar þar með nýja vídd. Stundum er talað um skáldskaparíþrótt og þá má líta á skáldið sem þjálfara en lesandinn hnykklar sína sterkustu vöðva og treystir á að þeir skili honum að markinu. Það er ávallt gaman að reyna sig við eitthvað, leggja sig fram og finna að lokum þá ánægju sem fylgir því að hafa sigrað og náð markmiði sínu. Auðvitað þjálfast fólk svo í því að lesa ljóð og verður þaulvanir leikmenn á leikvanginum eftir vissan tíma og þá opnast orðið flest ljóð auðveldlega við fyrsta lestur. 

Bókmenntir af hvaða toga sem er hafa ætíð verið eitthvað sem fólk nýtur saman. Í baðstofunni las húsbóndinn og hinir hlustuðu og án efa hafa skapast fjörugar umræður eftir að lestri lauk. Menn og konur hafa mátað sig við söguhetjur, lifað sig inn í atburði og eftir atvikum dáðst að eða gagnrýnt höfundinn. Góð ljóð opinbera manni einhvern sannleik eða kveikja hugmyndir sem hafa legið sofandi langa stund. Bestu ljóðin hafa að auki einhvern töframátt. Þau draga mann til sín og orðin festast í huganum, hljóma þar aftur og aftur og vekja sömu tilfinningar.

Ljóð lesin upphátt

Sumir kjósa ævinlega að lesa ljóð upphátt. Það hjálpar vissulega. Hrynjandinn verður skýrari og hvernig línurnar skiptast getur eftir atvikum runnið þægilega í lestri eða skapað brot mili setninga og orða sem er mikilvægt á leið lesandans til skilnings. Það er líka notalegt að lesa upp. Við heyrum of lítið af upplestri nú á dögum og mikil nánd felst í að lesa fyrir aðra. Foreldrar og börn njóta þess á hverju kvöldi og engin ástæða til að pör eða fullorðnir leyfi sér ekki að halda þeim sið áfram. 

Sterkt samband er milli ljóða og tónlistar. Þær heilastöðvar sem kveikja tilfinningaleg viðbrögð þegar menn hlusta á tónlist verða einnig virkar þegar menn lesa ljóð. Sömuleiðis þær stöðvar sem stjórna hugarró eða hvíld þ.e. þær stöðvar sem fólk nærir í hugleiðslu. Mörg skáld hafa líka sagt að tónlist sé þeim innblástur og þeir lagi ljóð sín að ákveðinni tegund tónlistar þannig var bandaríska skáldið Langston Hughes til dæmis áhugamaður um djass og hlustaði þekkta músíkkanta þegar hann var að vinna. Í sumum tilfellum eru ljóð einnig sett upp til að minna á ákveðna tegund hjóðfæra og hvernig leikið er á þau. Stuttar línur, jafnvel eitt orð sem hljóma líkt og þegar blásið er stutt í horn, trompet eða önnur blásturhljóðfæri. Þagnir milli lína eða orða gegna einnig svipuðu hlutverki og þagnir í tónlist.

Ákveðin tegund nútímaljóða hefur einnig leitast við að brúa bilið milli ljóðlistar og myndlistar. Þá myndar formið mynstur eða lögun sem getur verið lykillinn að túlkuninni. Þessi aðferð hefur einnig mikið notuð meðal japanskra ljóðskálda frá örófi alda. Þetta kann að virðast flókið og sumum finnst það kannski auka enn á erfiðleikana með að finna einhverja merkingu í ljóðum. En þá er augljósa og einfalda lausnin oft aðgengilegust. Er tilgangurinn að minna á nótur, tóna eða er þetta samtal? Er formið skýrt? Tákn á borð við þríhyrninga, trapísur eða ferhyrningar segja flestum eitthvað. Ferhyrningurinn er til að mynda tákn um íhaldssemi og ósveigjanleika meðan trapísan er uppreisnargjarnari mýkri og vinalegri.

Á bak við orðin 

Á bak við orðin í ljóðinu liggur boðskapurinn, tilfinninging og það sem hrífur. Þess vegna getur verið gott að lesa ljóð orð fyrir orð og velta fyrir sér hvað þau þýða ein og sér og einnig í þessu samhengi. Einhverjir kraftar eru ævinlega að verki og líkt og gott getur verið að taka í sundur bílvél og setja hana saman aftur til að skilja hvað knýr mótorinn getur verið áhugavert að skoða hvert orð jafnvel hvert atkvæði fyrir sig áður en ljóðið er endanlega túlkað. En að því sögðu er kannski best að velta hlutunum ekki of mikið fyrir sér og taka einfaldlega upp ljóðabók, lesa, upplifa, skoða og njóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband