2.5.2023 | 17:05
Að finna taktinn
Sjáið okkur dansa eftir Leïlu Slimani er framhald bókarinnar, Í landi annarra, en þar kynntumst við Amin og Mathilde, marrakóskum hermanni og franskri konu sem verða ástfangin og giftast. Hún fylgir manni sínum, eins venjan var og er oft enn með konur, til heimalands hans. Þau setjast að á föðurleifð Amins og hefja búskap. Hann er metnaðarfullur og með skýra sýn á hvernig hann hyggst gera smábýli að stórum og velmegandi búgarði.
Sagan hefst árið 1968, Marrokkó er orðið sjálfstætt ríki með eigin kóng Hassan II. Hann virðist hliðhollur bændum, einkum þeim sem vel gengur og Amin hengir upp mynd af honum á skrifstofu sinni. Aisha, dóttir hans er í læknanámi og Selim, sonurinn, að klára stúdentspróf. Amin byggir sundlaug til þess að ganga í augun á dóttur sinni, sýna henni hversu vel honum hefur gengið. En ekkert fer eins og hann væntir og enginn reynist sú persóna sem hann ætlar að hún sé. Leïla byggir á eigin ættarsögu og í þessari miðjubók, sú þriðja og síðasta er væntanleg, má segja að allir taki út þroska, bæði fólk og landið sem er stundum eins og ein af persónunum.
Hér er tekið á stórum málum, viðleitni innflytjandans til að koma sér fyrir, finna hlutverk og passa inn í samfélagið. Tilraunum hins stjórnsama fjölskylduföður til að móta alla í þeirri mynd sem hann hefur skapað þeim í huganum og hans tilburðir í þá átt endurspeglast í valdabrölti kóngsins og báðum mistekst hraplega að koma áformum sínum í framkvæmd. Unga fólkið í fjölskyldunni, Selim og Aisha, reikul og í leit að sjálfi. Þau vita hvorugt hvað þau vilja, hafa látið leiðast fram að þessu en þurfa að taka afstöðu til stórra mála og á endanum ákveða hvað þau vilja.
Mathilde er óskaplega áhugaverð persóna. Sterk kona, greind og hæfileikarík en þarf að beygja sig undir kúgun samfélagsins sem hún hefur flust til þótt hún geri einnig uppreisn á sinn hátt og nái að skapa sér vettvang. Hjónaband hennar er ekki gott. Eiginmaðurinn heldur stöðugt framhjá og ber litla virðingu fyrir konu sinni. Hún nær heldur ekki fyllilega sambandi við börn sín. Finnst dóttirin komin mun lengra en hún sjálf og sonurinn fjarlægur. Hún veltir fyrir sér hvort hún hafi sóað lífi sínu í umhyggju fyrir fólki sem ekki kann að meta hana.
Aisha og Selim dragast hins vegar hvort á sinn hátt inn í uppreisnaranda hippaáranna, enda Marrokkó um tíma fyrirheitna landið hjá ungu frelsiselskandi fólki frá Vesturlöndum. Selim endar í Essaouira innan um hassreykjandi hipp að neyta hugbreytandi efna. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók og þótt hoppað sé frá einum fjölskyldumeðlim til annars og sagan sögð frá þeirra sjónarhóli nær Leïla að draga upp heildstæða og áhugaverða mynd af fjölskyldu og landi í ímyndarkreppu, fólki í leit að sjálfi og tilgangi og stjórnvöldum sem vita ekki hvernig á að ríkja, ráða og byggja upp þjóðfélag. Það verður spennandi að sjá hvernig sagan endar þegar þriðja bókin kemur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.