Bók sem breytir viðhorfum og skilningi

downloadLíkaminn geymir allt, er stórmerkileg bók um hvernig áföll breyta lífeðlisfræði líkamans og þótt flestir jafni sig eftir að hafa upplifað eitthvað slæmt, geta síendurtekin og alvarleg áföll orðið til þess að fólk þróar með sér áfallastreituröskun en það ástand er ekki síður líkamlegt en andlegt og heftir fólk á margvíslegan máta. Segja má að í byrjun bókar fari Bessel van der Kolk á handahlaupum gegnum sögu geðlæknisfræðinnar allt frá Freud til vísindarannsókna vorra daga. Hann tengir allar uppgötvanir vísindamanna á starfsemi heilans og hlutverki taugaboðefna við sögur fólks sem glímir við andlegar áskoranir og útskýrir hvers vegna sumum gengur verr en öðrum að lifa lífinu, höndla hamingju, mynda tengsl og skapa sér tilgang. Vanlíðan rekur marga út í vímuefnavanda, ofneyslu matar, áhættusækni eða skapar hvatvísi og dómgreindarleysi. Hingað til höfum við álasað mörgu þessu fólki fyrir skort á sjálfsstjórn, sjálfsbjargarviðleitni, góðmennsku og dugnaði en allt bendir til að flókið samspil heilastöðva og hormóna geri það einfaldlega að verkum að fólk með áfallastreitu hafi ekki aðgang að þeim úrræðum skynseminnar sem þarf til að breyta lífi sínu á uppbyggilegan máta vegna boðefnabrenglunar í líkamanum.

Það er hrein upplifun að lesa þessa bók. Erfitt en óskaplega fróðlegt og lesandanum opnast alveg ný sýn á svo ótal mörg vandamál mannlegrar tilveru og á viðbrögð sjálfs sín í ýmsum aðstæðum. Bessel útskýrir mjög vel og á mannamáli hvað gerist í líkamanum við áföll og þegar áfallastreituröskun hefur myndast. Hann segir einnig frá umdeildum rannsóknum og meðferðaraðferðum. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson eiga miklar þakkir skildar fyrir að ráðast í að þýða þetta áhugaverða verk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband