12.5.2023 | 17:55
Skyldulesning fyrir kverúlanta
Hafi þér einhvern tíma orðið það á að kvarta undan heilbrigðiskerfinu er bókin Læknir verður til eftir Henrik Geir Garcia skyldulesning. Hér er sagan sögð frá sjónarhóli þeirra sem starfa innan þessa kerfis og þurfa að takast á við misgáfulega og miskröfuharða sjúklinga. Sagan frá hinum endanum. Vinnuaðstaðan er léleg, alltaf mikið meira en nóg að gera og tólin til að sinna viðfangsefninu iðulega ekki til staðar. Það er nefnilega ekki einfalt mál að sjúkdómsgreina. Einkennin eru oft óljós eða geta átt við um ansi margt og blóðprufur, skimanir, sneiðmyndir og röntgenmyndir bæta stundum engu við. En fyrir framan þig er manneskja sem kvelst. Manneskja sem í einhverjum tilfellum er búin að sjúkdómsgreina sig sjálf eða þykist vita að tiltekið lyf muni virka, einmitt í hennar tilfelli. Og þau eru mörg tilfellin og sum einfaldlega utan og ofan við það sem vísindin ráða við. Læknar eru settir á stall í okkar samfélagi. Þeir eiga vita allt og hafa svör við öllu. Þeir eiga að ávísa pillum svo okkur líði betur og skera upp dugi þær ekki til. En læknar eru bara menn og það verður svo augljóst og satt í þessari frábæru bók. Þótt Henrik Geir segist skálda í eyðurnar eru persónur og tilvik að hans eigin sögn innblásin af raunverulegum manneskjum og atburðum. Hann hlífir engu, hvorki kerfinu sem hann vinnur fyrir né sjálfum sér. Við þetta bætist svo að hann skrifar einstaklega lipran og skemmtilegan texta. Lifandi og blæbrigðaríkt mál sem gerir sögurnar frábærar og svo skemmir ekki hvað hann er fyndinn. Já, ég mun hér eftir fara varlega í að gagnrýna heilbrigðiskerfið og æfa mig vandlega í hnitmiðuðu og skilmerkilegu orðalagi fyrir næstu læknisheimsókn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.