Ísland, vettvangur glæps

refsiengillÞað er alltaf gaman að rekast á umfjöllun um Ísland í erlendum bókum og sjá landið með augum gestsins. Nokkrir erlendir höfundar hafa hins vegar gert Ísland að sögusviði og tveir vinsælir glæpasagnahöfundar eru þar á meðal. Annar er Heine Bakkeid. Aðalsöguhetja hans Thorkild Aske er hálfíslenskur og í fyrstu sögunni um hann, Við skulum ekki vaka, kemur hann til Íslands ásamt systur sinni til að vera við dánarbeð föður þeirra. Hér á landi flækist hann í sakamál og leysir það. Í næstu bók, Hittumst í paradís, ræður hann sig í vinnu hjá vinsælum glæpasagnahöfundi til að skoða gamalt sakamál sem hún ætlar að byggja næstu bók sína á. Auðvitað leynist þar fiskur undir steini og Thorkild fyrr en varir farinn að takast á við hættulegan morðingja. Þriðja bókin er svo Refsiengill. Í henni heldur Thorkild aftur til Stafangurs. Fimm árum fyrr hafði hann verið yfirmaður í innra eftirliti norsku lögreglunnar og verið sendur þangað til að rannsaka spilltan lögreglumann Simon Bergeland. Rannsóknin þá fór gersamlega úr böndunum og endaði með að Thorkild lendir í bílslysi undir áhrifum ofskynjunarlyfja og farþeginn í bílnum lést. Í kjölfarið missir Thorkild starfið og æru sína sem lögreglumaður.

Allir töldu að Simon Bergeland hefði flúið til að forðast réttvísina en þegar lík hans finnst verður ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu gamla máli og í raun mikið í húfi fyrir Thorkild að það leysist. Kannski nær hann að sýna fram á að hann hafi verið fórnarlamb samsæris og hugsanlega fær hann þá starf sitt aftur. Fléttan í bókinni er góð en hún er dálítið langdregin á köflum. Heine nær hins vegar að skapa ákveðið andrúmsloft og lesandinn hefur samúð með Thorkild og óskar honum velfarnaðar í leit sinni að svörum.

Helköld illska

downloadQuentin Bates hefur sterkt tengsl við Ísland og bjó hér í áratug. Hann vann ýmis störf og þegar hann hóf að skrifa ákvað hann að staðsetja sögur sínar á Íslandi. Gunnhildur Gísladóttir rannsóknarlögreglufulltrúi er aðalsöguhetja hans og hún hreinskiptin, jarðbundin og ákveðin. Í Helköld illska, rannsakar Gunna sjálfsvíg en kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist varðandi andlát eiginkonu hins látna fimm árum fyrr. Á meðan kannar Helgi, samstarfsmaður hennar, hvernig stendur á því að hann mætir á flugvellinum í Amsterdam Íslending sem á að vera löngu látinn. Nú og svo dúkka innbrot, íkveikjur og margvísleg önnur svikamál upp á borðum lögreglunnar.

Hér njóta sín einkar vel þrjóska og þrautseigja þeirra Helga og Gunnu því hvorugt þeirra gefst upp fyrr en þau hafa leitt sannleikann í ljós. En þrátt fyrir það tekst þeim ekki alltaf að ná sínum manni. Quentin hefur sagt að hann hafi ætlað að hætta að skrifa um rannsóknarteymið íslenska en þessi saga hafi sótt á hann og hann verið farinn að hamra lyklaborðið áður en hann vissi af. Lesendur gleðjast yfir því þótt ýmsir endar séu hér lauslega hnýttir og án efa ekki allir sáttir við endalokin. Engu að síður fín sakamálasaga og tengingin við Ísland skemmtileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband