"Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“

 

Draumurinn um Babýlon eftir Richard Brautigan er engu lík, í senn skopstæling af sakamálasögum höfunda á borð við Dashiell Hammett og Raymond Chandler og vísindaskáldsögu. C. Card er hins vegar hvergi nærri eins skarpur og Sam Spade eða eins kaldur og klár og Philip Marlowe. Hann svarar ekki síðustu tuttugu spurningunum á lokaprófi í lögregluskólanum því hann gleymir sér í draumum um Babýlon. Í fyrstu er ekki alveg ljóst hvað Babýlon er en svo fær lesandinn að ferðast þangað með Card en þar er hann hetja og hin undurfagra Nana-dirat er ástfanginn af honum. Kannski ekki undarlegt að skítblankur draumóramaður flýji þangað reglulega. Draumurinn um Babýlon er áhugaverð, einkum vegna þess hvernig hún er skrifuð. Stuttir hnitmiðaðir kaflar og hvergi orði ofaukið. Hann fangar ágætlega andrúmsloft sakamálasagnanna sem hann gerir um leið grín að en skyldi hinn harði, kaldi og skarpi spæjari aðeins vera mömmustrákur þegar allt kemur til alls?babylon-1 

Richard Brautigan fæddist 30. Janúar árið 1935. Hann ólst upp hjá móður sem glímdi við fíkn og faðir hans vissi ekki að hann væri til fyrr tæpri hálfri öld síðar. Mary Lou, móðir hans, yfirgaf barnsföður sinn Ben, átta mánuðum áður en Richard fæddist. Hún flæktist um eftir það, tók saman við marga misjafnlega ofbeldisfulla menn og eignaðist þrjú önnur börn. Þau voru fátæk og Richard sagði dóttur sinni eitt sinn þá sögu að hann hefði horft á móður sína tína rottuskít úr hveitinu áður en hún steikti handa þeim pönnukökur eingöngu gerðar úr vatni og hveiti. Drengurinn var hins vegar afburðagreindur og efnilegur íþróttamaður. Hann var hávaxinn og stundaði körfubolta og var ritstjóri skólablaðsins í menntaskóla. Fyrstu ljóðin birti hann á þeim árum. Hann skrifaði og flutti ljóð alla ævi en einnig smásögur, skáldsögur og greinar. Hann glímdi við fíkn og andleg veikindi og svipti sig lífi árið 1984. Bækur hans eru hins vegar áhugaverðar og áhrifamiklar og Trout Fishing in America er sjálfsævisöguleg að einhverju leyti. Sú bók hlaut metsölu um allan heim þykir enn í dag tímamótaverk. Richard Brautigan er meðal höfunda sem Haruki Murakami telur meðal áhrifvalda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Þekki ekki þessa bók en las Brautigan svo lítið á mínum yngri árum. Skemtilegur höfundur og hugkvæmur en virtist ekki mjög djúpur. 

Stefán Valdemar Snævarr, 16.6.2023 kl. 15:14

2 identicon

Sammála en skrifar skemmtilegan stíl

Steingerdur Steinarsdottir (IP-tala skráð) 16.6.2023 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband