21.6.2007 | 23:10
Velst um með Gretti sterka
Ég veit að það er að æra óstöðugan nú á dögum að kvarta undan málfari. En mikið skelfing finnst mér alltaf hallærislegt þegar menn rugla saman tveimur orðatiltækjum. Mér finnst svo sem alveg hægt að virða unglingum það til vorkunnar nú til dags þótt þeir skilji ekki myndmál sem á rætur að rekja til atvinnuhátta fyrir alda en mér finnst erfitt að fyrirgefa kollegum mínum í blaðamannastétt, sérstaklega þeim sem eru jafnvel eldri en ég að kunna ekki með orðtök að fara. Ég rakst á grein eftir Pál Baldvin Baldvinsson á Netinu núna áðan sem hann hafði skrifað 19. júní. Þar sagði í fyrirsögn að íslenskar konur hefðu velt Grettistaki. Hingað til hafa menn nú lyft Grettistaki en velt þungu hlassi, enda var Grettir sterki ekki í vandræðum með að hefja steina á loft. Hann þurfti ekki að velta þeim til að færa þá úr stað.
Athugasemdir
Hann hefur kannski velt einhverju þegar hann var í glasi, og Páll verið að vísa í það. Heyrði um daginn stelpu segja að einhver hefði skelft skollaeyru yfir því sem hún sagði. Aumingja hræddu eyrun.
Svava S. Steinars, 21.6.2007 kl. 23:46
Híhí og ég á frænku sem kemur aldrei fyrr en eftir djúpan disk! Annars eru málvillur og röng orðatiltæki ansi algeng í fjölmiðlum núorðið.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.6.2007 kl. 01:02
Þetta eru alveg ótrúlegar "ambögur" sem koma út á prenti. Var ekki "Bibba á Brávallagötunni" einmitt snillingur í slíku ........eða þannig.
Sigurlaug B. Gröndal, 22.6.2007 kl. 09:30
Innlitskvitt
Heiða Þórðar, 22.6.2007 kl. 23:35
Og ég held að í Fréttablaðinu í dag tali einhver um að einhver hafi ekki í önnur hús að „vernda“. Í guðs bænum, Steingerður, ekki hætta að æra óstöðugan með skemmtilegum athugasemdum um málfar. Aðhalds er þörf (og ekki má vanmeta skemmtanagildið).
Berglind Steinsdóttir, 22.6.2007 kl. 23:42
Plís, vertu á vaktinni!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.6.2007 kl. 19:48
Það er ekki sopinn aurinn þó í baukinn sé kominn, og ekki bitið úr sleggjunni, ó, guðsvorslands, þetta getur drepið mann .... úr hlátri. Svona hrokafullum "besserwisser"hlátri, en samt... við sem þykjumst tala heiðarlega, íslenska íslensku höfum okkar rétt....
....(Það er svo gaman að vera sjálfum sér samkvæmur, eða þannig, ég þoli rétt mátulega fólk sem alltaf er að tönnlast á rétti sínum til þessa og hins...yfirleitt tengdum svokölluðu velferðarsamfélagi)
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.6.2007 kl. 21:00
OK;
ég er nýlega búinn að fatta að "Skattinn kom úr sauðaleggnum"
---- Hélt alltaf að kall garmurinn hafi komið úr læknum = "Eins og Skrattinn úr Sauðalæknum".
Sorry Steina: mér bara datt ekki í hug að Skrattinn gæti komið úr beini (=hafði ekki lesið þjóðsöguna). Fannst hinsvegar ekkert athugavert við að sá gamli hoppaði uppúr læk.
Ásgeir Rúnar Helgason, 24.6.2007 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.