Rebbarnir samir við sig

Ég er nýkomin af ættarmóti austur á Vopnafirði en móðir mín var fædd og uppalin að Refstað í þeim firði. Þetta var óskaplega skemmtilegt, enda skildist mér að margir hefðu haft orð á því í byggðarlaginu að þeir vildu vera fluga á vegg þar sem nokkrir rebbar kæmu saman, þar væri gaman. Á þessu sögulega móti bar það helst til tíðinda að maður nokkur var formlega ættleiddur en hann hefur árum saman öfundað bróður sinn af því að vera giftur inn í þessa merku ætt. Rebbar eru almennt hlýlegt fólk sem hrærist auðveldlega til meðlíðunar þannig að látið var að óskum mannsins og nú hefur hann sem sé öðlast rétt til að sitja ættarmót framtíðarinnar. Skorað var á mig að segja söguna af því þegar ég kom í mína fyrstu heimsókn til tengdaforeldra minna og varð ég við því. Sunginn var bragur sem einn frábær frændi minn hafði ort um ættina og þar sem afi minn var tvígiftur flutti Svava systir erindi um ömmu okkar og nöfnu sína en systursonur mömmu talaði um sína ömmu. Já, þetta er yndislegt fólk og ég hef oft verið ánægð með hvað ég er heppin að stórfjölskylda mín er þetta náin og þetta skemmtileg. Rebbar tala óskaplega mikið en eru almennt orðheppið og skemmtilegt fólk sem bjargar því að sárasjaldan drepast viðmælendur þeirra úr leiðindum. Rebbar eru líka tilfinningaríkir og ákafamanneskjur á flestum sviðum og mér skilst að sögur séu sagðar af sumum frænda minna í sjö sýslum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Alveg væri ég til í að fá söguna af því þegar þú heimsóttir tengdaforeldra þína í fyrsta sinn!!! Er það blogghæft? 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.7.2007 kl. 17:17

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Já, þú ert af austfirzkum ættum - og það Rebbaættinni; ekki skrýtið að bloggið þitt sé ekki mjög leiðinlegt.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.7.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband