Fyrstu kynni

Já, Gurrí mín var að biðja um söguna af því þegar ég heimsótti tengdaforeldra mína í fyrsta skipti. Ég var nítján ára unglingur, feimin og uppburðarlítil og eiginlega sannfærð um að þeim myndi ekkert lítast á þessa stúlku sem sonurinn var í slagtogi við. Ég sárkveið því fyrir og bað Gumma með reglulegu millibili að snúa við en tengdaforeldrar mínir bjuggu á Akureyri og tengdamamma býr þar enn en hún er nú ekkja. Jæja, ekki fékkst kærastinn til að snúa við þannig að við enduðum á tröppunum heima hjá tengdó þar sem heilsast var með handabandi. Útidyrahurðin var opin og ég ætlaði að koma í veg fyrir að hún skelltist þegar Gummi var að bera töskurnar inn og greip í húninn en ekki tókst betur til en svo að hann losnaði og ég hélt á honum í hendinni. Ég rétti tengdapabba hann vandræðaleg og sagði: „Hann datt af.“ „Já, já, hann var laus,“ sagði tengdapabbi heitinn glaðlega en ég hafði á tilfinningunni að það væri bara sagt til að mér liði betur. Ég var nú á því að varla hefði verið hægt að byrja verr en þegar við settumst að borðum seinna um kvöldið tóku hlutirnir stefnu niður á við og það hratt. Ég settist við borðstofuborðið þar sem mér var vísað til sætis og um var varla búin að snerta hnífapörin þegar stóllinn gaf sig og ég sat í brotunum á góflinu. „Hafðu engar áhyggjur, hann var brotinn fyrir,“ sagði tengdapabbi og núna trúði ég honum alls ekki. Tengdamamma kom með annan stól og þegar ég ætlaði að setjast í hann reyndi ég að fara eins varlega og hægt var. Ég var í gallabuxum með járnbólum á vösunum og án skyndilega heyrðist leiðinlegt skraphljóð. Bólurnar höfðu skrapað leðrið á stólbakinu og stóllinn ber þess merki enn í dag en tvær djúpar renndur liggja niður eftir öllu bakinu. Tengdapabbi hafði ekki orð á því að stóllinn hefði verið skrapaður fyrir en ég átti ekki von á að mér yrði nokkru sinni boðið heim til þeirra aftur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Ég get svo svarið það, manneskjan var nánast búin að gera húsið fokhellt, kom hún með kúbein og slaghamar næst.

Aumingjans fólkið

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 24.7.2007 kl. 21:16

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Yndislegt, hreint alveg yndislegt! Áttu fleira svona í handraðanum?

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.7.2007 kl. 22:49

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hhahahahah, þvílík snilldarsaga! Ég argaði úr hlátri!!! Vonandi áttu fleiri svona dýrðarsögur. Knús frá Skaganum!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.7.2007 kl. 23:33

4 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Ég get nú bara séð þau fyrir mér í þessu brölti. Meira að segja glottið á Bárði heitnum

Aðalheiður Magnúsdóttir, 25.7.2007 kl. 09:35

5 identicon

sæl kæra vinkona ég var greinilega búin að gleyma þessum uppá komum en ég er búin að vera í hláturs kasti yfir þessari lesningu.

Stína Magnad. (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 22:17

6 identicon

Æ, takk Heiða og Stína. Þið eruð frábærar. Alveg ómetanlegt að fá komment frá ykkur af og til. Og Guðný Anna mín ég á fullt af svona í handraðanum og skal koma þeim á bloggið um leið og tími gefst til. Gurrí mín hefur sennilega heyrt þær allar en hún verður þá bara að þola að heyra sömu söguna aftur.

Steingerður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 22:37

7 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Meiriháttar sögur...minnir mig á svipað þegar ég gisti í fyrsta skipti hjá mínum heittelskaða heima hjá honum og rúmið brotnaði!!! Mamma hans og pabbi komu hlaupandi inn og ég stóð á naríunum á bak við hurð meðan pabbi hans negldi saman rúmið aftur.... Það skal tekið fram að rúmið brotnaði ekki vegna hamagangs heldur vegna þess að það var orðið gamalt og lúið og oldi ekki tvo.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.7.2007 kl. 16:18

8 identicon

Þessi saga er alveg hrikalega fyndin. Það er ekki oft sem ég hlæ fyrir framan tölvuskjáinn en það gerist núna. Sé þetta alveg í anda.

Sigríður Inga (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband