Ævintýri í Elliðaárdal

Ég er einstaklega lagin við það að koma mér í vandræði. Einkum og sér í lagi eru það gönguferðir mínar sem enda með ósköpum og það oftast vegna þess að ég fæ þá stórgóðu hugmynd að stytta mér leið. Ein slík för var farin í Elliðaárdal fyrir tveimur árum en ég ætlaði að ganga heim úr vinnunni. Ég vann þá hjá Fróða uppi á höfða og þegar komið var að Árbæjarsafni var mér ljóst að heim kæmist ég ekki lifandi þar sem ég var mannbroddalaus og hálka mikil á vegum um þetta leyti. Ég hringdi því í manninn minn og bað hann að sækja mig. Ég sagði honum að bíða á bílastæði ofan við Elliðaárnar hinum megin í dalnum vegna þess að ég taldi lítið mál að vippa mér yfir göngubrýr á ánum og á þennan áfangastað. Til að stytta mér leið hélt ég sem leið lá gegnum Árbæjarsafnið sem var opið og algerlega mannlaust. Fljótlega gerði ég mér þó ljóst að safnið var afgirt og engin leið út önnur en sú sem ég hafði notað til að koma mér inn. Þá var ég búin að ganga svo langt að ég nennti ómögulega að snúa við og ákvað því að klifra yfir grindverkið. Hvað Hraunbæjarbúar hafa hugsað þegar þeir sáu konu á virðulegum aldri í draktarjakka og penum leðurskóm vega salt efst á girðingunni umhverfis safnið þeirra veit ég ekki. Hitt veit ég að förin yfir grindverkið var hvorki þægileg né sérlega auðveld og dáist ég hér eftir mjög af föngum sem leggja það á sig að strjúka úr fangavist hvort sem er á Litla Hrauni eða Alcatraz. Ég komst upp og reyndar niður hinum megin án meiriháttar óhappa en þá beið mín það sem verra var; nefnilega gersamlega ófær Elliðaárdalur. Glæra svell var yfir öllu og það svo slétt að ekki möguleiki var að standa á því til lengdar og leið mín lá niður á við. Ég reyndi þetta samt og skreið nánast á fjórum fótum með hjálp vingjarnlegra trjágreina sem slúttu út yfir stíginn niður að brúnni. Yfir hana komst ég, út í hólmann og yfir hinum megin. Þar beið maðurinn minn á bílastæðinu og þegar ég hafði skreiðst við illan leik upp brekkuna og inn í bílinn til hans spurði hann í einlægri undrun: „Hvers vegna í ósköpunum baðst mig ekki um að sækja þig á bílastæði Árbæjarsafns?“ Stundum er ofbeldi gagnvart maka sínum næstum því réttlætanlegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða  Þórðar

Takk fyrir frábæra lesningu.

Heiða Þórðar, 2.8.2007 kl. 02:00

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Ég séð þig alveg fyrir mér Steinka mín, klöngrast yfir girðinguna. Veistu, þetta gerist bara hjá snillingum! Mér finnst þessi frásögn alveg óborganleg sem og frásögnin um fyrstu kynnin.  Þú segir svo skemmtilega frá. Ég segi eins og Guðný Anna, áttu ekki meira til af svona skemmtilegum atvikum?

Sigurlaug B. Gröndal, 2.8.2007 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband