17.8.2007 | 16:29
Fremur lítið berjablá
Ég elska að fara í berjamó. Alveg frá því ég var barn og fékk í fyrsta skipti að henda mér niður á þúfu sem var krökk af berjum hef ég dýrkað ber. Það höfðaði strax til hóglífisseggsins í mér að sjá þessa ofgnótt af sætukoppum og vita að ég gæti tínt og borðað eins mikið og ég mögulega kæmi niður. Þess vegna hef ég hlakkað til þess í allt sumar að komast í ber í haust. Ég var viss um að eftir þetta mikla hlýindasumar myndu bíða mín stór og safarík ber um alla móa í stórum hrúgum. Annað hefur komið á daginn eða að minnsta kosti hér í nágrenni Reykjvíkur. Ég ætlaði að veltast rymjandi um móana meðan tíkin hlypi laus og frjáls í kringum mig en í Heiðmörk, við Hvaleyrarvatn, í hrauninu á Álftanesi og við Hafnarfjörð er sáralítið af berjum. Vissulega má finna nokkur ber á sumum þúfum en þetta er ekkert miðað við það magn sem ég átti von á og berin eru lítil. Í gönguferðinni í gær rakst ég á nokkrar sæmilegar þúfur og át af þeim en þetta var ekkert til að rýta af ánægju yfir.
Athugasemdir
Hahahahah, rýta af ánægju yfir! Kannski er fullt af berjum rétt hjá Akranesi og þá fæ ég þig kannski í heimsókn!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 17.8.2007 kl. 17:06
Við Hreðavatn var nóg af berjum, nanananananana. Bláber í tonnatali og slatti af krækiberjum. Við þyrftum að bregða okkur að Selatöngum aftur, þar var nóg af krækiberjum, slurp slurp.
Svava S. Steinars, 18.8.2007 kl. 01:19
Hér norðan heiða er víst nóg af berjum, allavega liggur pabbi í þúfunum og kemur heim með marga lítra í einu. Það hefur nú sennilega vantað vætuna í kringum Reykjavík til að beri næðu stærð og þroska
Aðalheiður Magnúsdóttir, 18.8.2007 kl. 10:53
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 19.8.2007 kl. 02:13
Svo er eitthvað af berjum í garðinum hjá mér. Þau eru rauð, en til að gleðja þig mætti alveg spreyja þau blá! Þú ættir kannski að fara með þulun a"Kónguló, kónguló vísaður mér á berjamó" Mig minnir að hún hafi dugað vel!
Valgerður Halldórsdóttir, 20.8.2007 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.