4.9.2007 | 09:30
Enn meiri orðhengilsháttur
Ég elska orð og hefur alltaf fundist yndislega gaman að skoða þá fjölmörgu og mismunandi vegu til að raða þeim saman. Orðin eru legókubbar sem við getum öll notað. Hins vegar finnst mér alltaf svolítið sorglegt að sumir virðast hengja alltof mikið á og við orðin. Líkt og ég kom að í fyrri færslu um fötlun þá hefur á undanförnum áratugum ríkt einhver pólitísk rétthugsun sem segir að við þurfum að ritskoða gömul og gild orð og breyta þeim til að þau móðgi nú engan. Til að mynda varð þroskaheftur að þroskahamlaður og ef ég man rétt þá eru fatlaðir nú orðin hreyfihamlaðir eða ferlihamlaðir. Um tíma máttu konur ekki vera menn þannig að blaðamaður varð blaðakona, ritstjóri ritstýra, forstjóri, forstýra og þannig mætti lengi telja. Sjálfri er mér alveg sama hvort ég er blaðamaður eða blaðakona, ritstjóri eða ritstýra. Hvoru tveggja er að mínu mati gott og gilt. Mér hefur heldur aldrei fundist hjúkrunarfræðingur eitthvað merkilegri en hjúkrunarkona en skilst á þeim sem til þekkja að þar skilji að himinn og haf. Hið sama gildir víst um blessaðar fóstrurnar sem urðu að leikskólakennurum vegna þess að enginn gat borið virðingu fyrir fóstru og strákar gátu ekki borið það starfsheiti. Um leið og nafnbreytingin varð skilst mér að launabaráttan hafi tekið stökk fram á við. En mikið sakna ég fóstrunnar. Hún var nefnilega sú sem tók á móti barninu mínu með hlýju og beið tilbúin að umvefja það umhyggju meðan leikskólakennarinn stendur strangur með kladdann og skammar litla hnoðra sem leyfa sér að mæta of seint í leikskólann. Mikið lifandis býsn er þetta óaðlaðandi orð og af hverju þurfa svona leiðindaorð alltaf að vera miklu lengri og óþjálli en hin sem þau koma í staðinn fyrir? Ég sé ekki að nokkur karlmaður þurfi að skammast sín fyrir að vera fóstri ekki frekar en flugþjónn. Undarlegt að flugfreyjurnar hafi ekki þurft að skipta um nafn og heita flugöryggisþjónar til að njóta virðingar samborgaranna. En þetta er orðhengilsháttur og ég verð að viðurkenna að hann á einstaklega vel við mig.
Athugasemdir
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 4.9.2007 kl. 21:04
ég er alveg sammála þér mamma mín... það er alveg ótrúlegt hvað fólk tekur titla alvarlega. Persónulega finnst mér að fólk ætti frekar að láta verkin tala sem það gerir heldur en titla því það eru góðir starfskraftar sem fólk ber virðingu fyrir en ekki titlum.
Eva Halldóra (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 14:27
Mæl þú manna heilust Eva Halldóra.
Steingerður (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.