10.9.2007 | 09:45
Annasöm helgi
Helgin var óvenjulega viðburðarík og ætli það sannist ekki enn og aftur að þegar ein báran rís er önnur stök. Við Freyja heimsóttum Sivvu vinkonu okkar á laugardaginn og þessi elska bauð mér í mat. Hundurinn var of blautur eftir göngutúrinn okkar til að vera húsum hæfur svo hann var sendur heim. Dóttir Sivvu var líka í heimsókn með mánaðargamlan son sinn. Barnið er svo sjúklega fallegt að við lá að ég tapaði glórunni. Maður gleymir alveg hvað þau eru lítil og ótrúlega fullkomin. Nú verð ég að drífa mig til að sjá barnabarnið hennar Helen áður en það nær fermingaraldri. Maturinn hjá Sivvu var líka þvílíkur draumur að ég get ekki hætt að hugsa um hann. Þau voru með lambakjöt, kjúklingabringur og svínalundir sem Sivva maríneraði á mjög einfaldan hátt. Kjötið var svo meyrt og gott að það hreinlega bráðnaði á tungu. Hún er snillingur í matseld þessi kona, eins og reyndar mörgu öðru. Í sumar var hún að læra tækni við grafíkmyndagerð úti í Cornwall og kom heim með ótrúlega flottar myndir. Það er líka alveg með ólíkindum hvað henni tókst að afkasta á einni viku.
Í gær gekk ég svo um Laugarnesið með Freyju í svölu veðri og hafgolu. Þessi skemmtilega perla hefur alveg farið framhjá mér hingað til og ég heillaðist alveg af sérstæðum móbergskletti sem stendur einn og sér á gulri skeljasandsströnd. Hann er bæði sérkennilegur í laginu og merkilegt að sjá hann þarna því allt í kring er venjulegt grágrýti. Við systur hittumst svo vestur í bæ og fluttum það sem eftir var að flytja fyrir Gullí frænku og fengum góða líkamsrækt við það. Í gærkvöldi fór ég svo á fyrsta upplestur höfunda á bókmenntahátið í Iðnó. Þetta var óskaplega gaman. Sjón opnaði kvöldið með því að lesa Zimbawíst ljóð en skáld í Pen-klúbbnum gerðu þetta í tuttugu löndum til að mótmæla ógnarstjórn Mugawbes. Guðrún Helgadóttir og Steinunn Sigurðardóttir voru fulltrúar Íslands en ítalska ljóðskáldið Claudio Pozzani heillaði mig alveg. Hann las upp verk sín með tilþrifum því hann söng, rappaði, sönglaði, sló taktinn og bjó til undarleg hljóð til að auka áhrif ljóðanna. Hann var stórkostlegur. Ástæða þess að ég dreif mig þarna niður eftir þrátt fyrir flutningsþreytuna var hins vegar J.M. Coetzee og hann brást ekki. Hann las úr nýjustu bók sinni Diary of a Bad Year sem ég hlakka til að lesa. Kvöldið í heild var svo frábært að ég er að hugsa um að fara á fleiri upplestra í Iðnó í þessari viku. Meðal gesta á þessari hátíð eru Roddy Doyle sem mér finnst einstaklega skemmtilegur höfundur, Jung Chang sem sannarleg vakti mann til umhugsunar um ástandið í Kína með bók sinni Villtir svanir, Tracy Chevalier sú sem skrifaði um stúlkuna með perlueyrnalokkinn sem Vermeer málaði og Yasmin Crowther en Saffran-eldhúsið kom út hjá JPV nýlega og er frábær bók. Ég verð svo að nefna Marinu Lewycka sem ég held óskaplega upp á en þeir sem ekki hafa lesið Stutt ágrip af sögu traktorsins í Úkraínu ættu að gera það strax.
Athugasemdir
oooo takk verð að bjóða þér oftar í mat , það er svo gaman að fá hrós
Sigurveig Eysteins (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.