Hvatvísin lengi lifi

Nanna Rögnvaldar segir frá því á bloggsíðu sinni að hún hafi næstum því verið búin að senda út boð til fyrrum vinnufélaga sinna sem innihélt skilaboðin: Til í allt - með Villa. Á síðustu stundu tók hún í skottið á sjálfri sér og hætti við en ég hefði örugglega látið vaða. Hvatvísin hefur iðulega komið mér í koll eins og þegar ég átti von á símtali frá móður minni og svaraði því galvösk þegar hringt var: Líkhúsið niðursuðudeild! Bjarni Brynjólfsson þáverandi ritstjóri Mannlífs var á hinum endanum og til allrar guðs lukku var honum skemmt. Það átti hins vegar ekki við um skátaforingjann hennar Helenar systur sem hringdi einu sinni heim til okkar þegar ég var unglingur og ég svaraði: Náttúruleysingjafélagið góðan daginn, má bjóða þér stífelsi? Helen fannst þetta bara fyndið en fékk víst nokkrum sinnum hornauga á skátafundum frá þessum manni. Á tímabili fannst mér nefnilega, eins og sjá má af ofanskráðu, óskaplega fyndið að svara í símann með einhverri svona vitleysu. Meðal algengra tilkynninga hjá mér voru: Öfgasinnuð frelsissamtök Grímseyinga, Tjara og fiður góðan dag, og Landbúnaðarráðuneytið, lager. Eitt sinn datt þetta síðasttalda út úr mér þegar vinur sonar míns hringdi heim, tónlistarmaðurinn Benni HemmHemm. Sá var fljótur að hugsa því hann sagði umsvifalaust: Já, ég ætlaði panta hjá þér eina kú og eina belju.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband