16.1.2008 | 09:53
Þar lágu Danir í því
Ég er seinheppinn maður það sést best á því ... segir í texta gamals dægurlags og mér dettur þessi setning oft í hug einkum þó eftir reynslu eins og þá sem ég varð fyrir í morgun. Ég var á gangi í Kópavogsdalnum með tíkina í stilltu yndislegu veðri. Allt var svo hvítt og hljótt að mig greip einhver hundakæti og ég tók upp á því að valhoppa eftir göngustígnum. Í einni lendingunni lenti ég á svelli sem var vandlega hulið undir snjónum og rann á annað hnéð. Þetta hefði svo sem ekki talist stórmál í mínum gönguferðum ef ekki hefði birst fyrir framan mig einhver mannfýla sem ég get svarið að spratt upp úr jörðinni því hvergi sá ég honum bregða fyrir örskömmu áður. Tíkin greip auðvitað þetta tækifæri til að rykkja í tauminn með þeim afleiðingum að hnykkur kom á efri búk minn og hendurnar lyftust upp í einhverja biðjandi stöðu. Stellingin var þannig að það eina sem eftir var að stynja upp bónorðinu.
Þetta vakti upp sára minningu frá því ég var í landsprófi hérna í denn og tók strætó í skólann. Þrír sætustu strákarnir í skólanum tóku vagninn á sömu stoppistöð og ég. Þetta fannst mér mikill kostur þar til ég var fyrir því að stíga á hálkublett og detta. Ég lenti á hliðinni með hönd undir kinn og engu líkara en ég hefði einfaldlega lagst þarna. Ég hugsaði í örvæntingu: Þú segir eitthvað fyndið og snjallt og reddar þessu. Það eina sem kom upp úr mér var hins vegar: Ég datt. Eftir þetta hlógu töffararnir eins og hýenur í hvert skipti sem þeir sáu mér bregða fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2008 | 13:12
Eitt eða tvö augu
Vog: Fyrir meira en 400 árum síðan, sagði hinn vitri Erasmus: "Í blindra manna landi, er sá eineygði konungur". Varaðu þig á fólki með takmarkaða sýn sem leiðir þá með enga sýn.
Þetta er stjörnuspáin mín í dag. Þegar ég las þetta rifjaðist upp fyrir mér saga sem ég las í ensku í menntaskóla. Mig minnir að titillinn hafi einmitt verið þetta spakmæli en sagan fjallaði um mann sem lenti í flugslysi hátt uppi í afskekktum fjöllum og endaði í dal þar sem allir íbúarnir voru blindir. Í byrjun hugsaði hann sér gott til glóðarinnar og taldi að þar sem hann hefði sjónina fram yfir þá innfæddu myndi hann fljótt ná æðstu völdum á staðnum. Í ljós kom hins vegar að fólkið var vel aðlagað sjónleysinu og hinn sjáandi var í verstu vandræðum með að komast af. Hinir blindu leiddu því þann sjáandi. Mér fannst þetta mjög sláandi og skemmtileg saga og hún segir mér að þeir sem hafa takmarkaða sýn eða enga geta líka kennt okkur og eru sennilega bara alls ekkert varasamir. Óðinn var eineygður og sá þó um veröld alla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.1.2008 | 12:40
Andað djúpt
Bloggar | Breytt 13.1.2008 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2008 | 09:18
Af tímabærum og ótímabærum látum
![]() |
Edmund Hillary látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.1.2008 | 14:22
Erfiður biti að kyngja
Ég var ein af þeim sem át kertavax þegar ég var krakki. Bestu vinkonu minni þótti þetta ógeðslegur siður en öllu má venjast þannig að gott þyki og það kom að því að hún reyndi sjálf að smakka á þessu fæði" sem mér líkaði svo vel. Hún komst að því að þetta var ekki slæmt og það mátti tyggja þetta líkt og tyggigúmmí meðan vaxið hélst mjúkt og fyrr en varði var hún farin að taka mjúkt vax og stinga upp í sig hugsunarlaust og fleygja síðan þegar vaxið var orðið hart.
Einhverju sinni sat hún í efnafræðitíma í menntaskóla og verið var að gera tilraun með vökva. Tveimur tegundum vökva var blandað saman í tilraunaglasi og það hitað yfir kertaloga þar til efnahvarf varð í glasinu. Kertisstubburinn hennar var lítill og brann fljótlega niður og eftir var mjúk klessa í bakkanum. Hún taldi tilraunina búna svo hún tók klessuna og stakk henni upp í sig. Þá tilkynnti kennarinn að nú hæfist seinni hluti tilraunarinnar og nemendur voru beðnir að bæta einum vökva enn í samsullið og hita. Vesalings stúlkunni varð svo mikið um að hún gleypti vaxbitann sem hún var með uppi í sér og sat sótrauð í framan og aðgerðalaus meðan hinir unnu af kappi við að ljúka verkefninu.
Kennarinn kallaði að lokum til hennar og skipaði henni að fara að vinna. Hún bætti þá vökvanum í glasið en gat auðvitað ekki gert meira og hún þorði ekki, blessunin, fyrir sitt litla líf að biðja um annað kerti. Hann sá fljótlega að hún hafðist lítið að svo hann gekk yfir að borðinu til hennar og sá eins og skot að hana vantaði kerti til hitunarinnar. Hvar er kertið þitt?" spurði hann hvass.
Þegar þarna var komið sögu leið stúlkuræflinum svo illa að henni datt engin sennileg lygi í hug svo hún stundi eindaldlega: Ég át það." Bekkurinn sprakk úr hlátri og kennarinn horfði á hana gapandi af undrun. Þegar hann var búinn að jafna sig örlítið sagði hann: Vina mín, verðir þú aftur svona svöng biddu þá einfaldlega um leyfi til að bregða þér frá og borða." Hann rétti henni síðan þegjandi annað kerti en það sem eftir var af tímanum sat hún rjóð og skjálfhent og hefur sjaldan orðið jafnfegin um ævina og þegar bjallan hringdi út í frímínútur. Ég hló auðvitað miklum hrossahlátri þegar hún sagði mér söguna í frímínutunum en það sem eftir var vetrar voru bekkjarfélagar hennar jafnan brosleitir þegar þeir sáu hana og hún mátti þola ýmsar glósur tengdar kertum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.1.2008 | 17:31
Kveldúlfur er kominn í ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.1.2008 | 19:14
Efnafræði fyrir byrjendur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2008 | 11:23
Annálaðir annálar
Annálaritun er gamall og góður íslenskur siður. Þeir annálar sem ritaðir voru hér á fyrr á öldum hafa reynst nútímamönnum ómetanleg heimild um búskaparhætti, veðurfar og líf fólks sem nú er gengið. Margir Íslendingar hafa líka verið iðnir við að halda dagbækur þótt margir hverjir hafi verið duglegir að tíunda heyfeng, tíðarfar og skepnuhöld en aðeins getið í einni setningu eða svo dauða barna sinna eða eiginkvenna. Okkur nútímamönnum kann að þykja slíkt kaldranalegt en hafa ber í huga að þá þótti tal um tilfinningar ekki sérlega heppilegt eða heilbrigt. Öðru máli gegnir í dag þegar fólk skrifar sig frá vondri reynslu og hjálpar í leiðinni öðrum að yfirstíga erfiðleikana.
Árið 2007 var hins vegar gjöfult minni fjölskyldu. Evan okkar útskrifaðist stúdent frá Verzlunarskólanum í vor. Hún ákvað að taka sér frí í vetur og undirbúa inntökupróf í leiklistarskóla bæði hér heima og úti í Bretlandi. Hún er búin að sækja um LAMDA og Guildhall School of Music and Drama. Hún hefur enn ekki fengið svar frá Guildhall en LAMDA heldur inntökupróf hér í Reykjavík í mars. Hún er að æfa upp einræður úr verkum Ibsens, Shakespeare og eftir einhverja nútímahöfunda sem ég þekki ekki. Hún vinnur sem skólaliði í Ísaksskóla með þessu öllu og stundar nám í söng í tónlistarskóla Félags íslenskra tónlistarmanna. Þar er bróðir hennar líka við nám og hann hélt tónleika núna fyrir jólin sem ég komst því miður ekki á. Eva hins vegar fór og sagði mér að Andri hefði staðið sig langbest af öllum í hljómsveitinni. Maður spyr ekki að því. Mér finnst alveg óskaplega gaman hvað tónlist liggur vel fyrir þessum börnum mínum. Sjálf er ég vitalaglaus og held ekki takti eina einustu mínútu. Í móðurætt minni er hins vegar mikið tónlistarfólk.
Andri minn ætlar ekki að gera mig að ömmu neitt á næstunni en það hefur hent mig að benda honum á að ég hafi ekkert á móti því að rugga litlu ömmubarni. Hann ætlaði að klára MA-gráðuna í vor en hugsanlega verður ekki af því. Rannsóknirnar sem hann er að vinna að ganga hægt og hann hefur tæplega nóg efni í ritgerð ennþá. Á þessu stendur því hann er búinn með allt bóklegt tengt mastersnáminu. Í vetur og reyndar í fyrravetur var hann að kenna með vinnunni á rannsóknarstofunni og hann er að taka kennararéttindin núna. Hann er enn að reyna að byggja upp efni sem heitir taxól eða texól en það á víst að geta nýst mjög vel til að hefta vöxt krabbameinsfrumna. Gunnur, kærasta hans, vinnur hjá fyrirtæki sem heitir Nimblegen og er þar í nanórannsóknum, eitthvað tengt DNA og því að finna hvata til að fara með ýmislegt inn í frumur ef ég skil þetta rétt. Hún er óskaplega góður námsmaður og snjall vísindamaður. Hún vill gjarnan fara út og læra meira en þau hafa ekkert ákveðið enn í þeim efnum.
Hundurinn Freyja er ánægð með lífið og dregur mig á eftir sér í gönguferðum vítt og breytt um Kópavog. Mér finnst hún óskaplega skemmtileg og tel það ekkert eftir mér að endasendast á eftir henni í hvaða veðri sem er og talandi um veður. Að undanförnu hefur hver lægðin á fætur annarri gengið yfir landið okkar með tilheyrandi roki, rigningu og vandræðum. Þakplötur hafa fokið, trampólín flogið úr görðum eins risafuglar og endað mörgum kílómetrum frá heimili sínu og garðhúsgögn finnast í þúsund molum einhvers staðar í næstu görðum. Hjólhýsi, bátar og sumarbústaðir eru líka meðal þess sem tekist hefur á loft í hamaganginum og ljóst að margir hafa orðið fyrir tjóni. Ég hef sloppið blessunarlega við allt slíkt, enda garðhúsgögnin mín komin í skjól og ég laus við að eiga hjólhýsi og sumarbústað. Húsið mitt hefur hins vegar lekið hraustlega í öllum vatnaganginum og við hlaupið um með fötur og handklæði til að ná upp því mesta. Við ætluðum að selja húsið og fara að byggja en líklega verður ekkert úr því. Mitt fyrsta verk á nýju ári verður því væntanlega að þétta þakið og rífa burtu innréttingar á efri hæðinni. Já, það dregur til tíðinda strax í byrjun árs og þarna komið efni í annáll ársins 2008 en hann má bíða betri tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)