6.4.2023 | 13:09
Bretadrottning og bækur
Elísabet II Bretadrottning lést þann 8. september 2022. Hún var af kynslóð sem ólst upp við mikinn bóklestur og margar myndir eru til af henni frá í æsku og á unglingsárum með bók í hönd. Hún las líka mikið fyrir sín börn og falleg ljósmynd Anthony Armstrong-Jones af henni að lesa fyrir Önnu, dóttur sína var meðal þeirra sem birtust í blöðum eftir lát hennar.
Elísabet er þrettán ára þegar stríð brýst út í Evrópu. Hún átti sér þá uppáhaldsbók Moorland Mousie, safn smásagna er rekja líf hests frá því hann fæðist í Exmoor og greip hana reglulega og las meðan á stríðinu stóð. Á fullorðinsárum las hún til að slaka á, þá bæði skáldsögur, ljóð og leikrit en ógrynni ríkisskjala, lagafrumvarpa og annarra pappíra beið hennar í rauða boxinu á skrifstofunni á degi hverjum. Og Elísabet las þau öll í gegn. Hún var þekkt fyrir að undirbúa sig vel fyrir alla fundi með forsætisráðherrum sínum.
Hún elskaði hesta og las mjög gjarnan bækur sem fjölluðu um þá á einhvern hátt en var líka mjög hrifin af PD James um Adam Dalgliesh. Auk þess fannst henni mjög skemmtilegt þegar hún sjálf var gerð að persónu í barnabókum, m.a. Paddington eftir Michael Bond og BGF eftir Roald Dahl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2023 | 10:07
Fimm skemmtilegar staðreyndir um bækur
Dýrasta bók sem sögur fara af var seld á 30.8 milljón dollara. Það var dagbók Leonardo Da Vinci með teikningum af ýmsum uppgötvunum hans og enginn annar en Bill Gates keypti.
Á ensku er til orð yfir að elska lyktina af gömlum bókum. Orðið er vellichor og við þurfum að fá íslenskt nýyrði yfir þetta mjög svo áhugaverða hugtak, enda er mjög líklegt að fólk eigi eftir að nota það í miklum mæli í daglegu tali.
Lengsta setning sem vitað er til að hafi verið rituð í nokkra bók er 823 orð. Hún er í Vesalingunum eftir Victor Hugo, auðvitað.
Þegar bókaútgáfa byrjaði óttuðust menn að sögur og annað ritað mál myndi draga ungdóminn frá vinnu og ala upp ónytjunga. Reynt var að takmarka aðgang manna að rituðu efni og fleira til að draga úr hættunni á þessu. Ef einhverjum finnst umræðan kunnugleg þá má nefna hið sama var uppi þegar útvarpið kom, svo sjónvarpið, næst tölvurnar og nú snjalltæki.
Það er líka áhugavert að þegar bókaútgáfa var að stíga fyrstu skrefin voru nöfn höfunda almennt ekki höfð á bókakápum. Menn töldu það aukaatriði en áttuðu sig svo fljótt á að lesendur voru líklegri til að kaupa ef þeir þekktu höfundinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2023 | 09:50
Listavel samin texti um stjórnsaman mann
Morgans Passing eftir Anne Tyler er einstaklega vel skrifuð skáldsaga, rétt eins og aðrar bækur hennar. Eins og venjulega eru persónurnar sérstakar í meira lagi, karlarnir hálfgerðir vinglar og kvenhetjurnar jarðbundnar, hæfileikaríkar og duglegar konur sem einhvern veginn sætta sig við það hlutskipti að halda þessum körlum sínum gangandi.
Sagan hefst þar sem ungt par er að sýna brúðuleik á svæði þar sem farandskemmtigarður hefur komið sér fyrir. Hætta þarf leiknum vegna þess að Emily Meredith er komin með hríðar og maður hennar Leon hleypur fram fyrir sviðið og spyr hvort læknir sé á staðnum. Morgan Gower gefur sig fram og býðst til að keyra þau á næsta sjúkrahús. Á leið þangað verður hann að stoppa og taka á móti barninu sem ætlar ekki að láta bíða eftir sér lengur. Ungu hjónin reyna síðar að hafa upp á þessari hjálparhellu en enginn læknir með þessu nafni finnst.
Næst fær lesandinn að kynnast Morgan betur. Hann er alls ekki læknir og mjög óánægður með líf sitt. Hann hefur ekki fengið tækifæri til að finna þann starfsvettvang sem hann vill sinna og er neyddur til að vinna í byggingarvöruverslun tengdaföður síns. Eiginkona hans og dætur eru sjálfum sér nægar og hafa lítinn áhuga á honum. Þess vegna villir Morgan reglulega á sér heimildir þegar hann er utan heimilis. Hann fer að fylgjast með ungu hjónunum og dóttur þeirra og í byrjun verður hann vinur beggja. Smátt og smátt þróast samband hans við Emily og þau verða ástfangin.
Fleira er ekki vert að segja lesandanum en bæði Leon og Morgan eru því marki brenndir að kunna vel við sig í hlutverkum. Leon er nefnilega leikari en gekk ekki vel að fá hlutverk og það er þess vegna sem hann og Emily stofnuðu brúðuleikhúsið. Emily á hinn bóginn þráir tengingu og fjölskyldu. Hún virðist hins vegar ekki hafa góðan smekk á karlmönnum fremur en aðrar kvenpersónur Anne Tyler. Þær nota sköpunarkraft sinn og útsjónarsemi til að sjá fyrir börnum sínum og ráðvilltum körlum sem flestir eru í leit að einhvers konar sjálfsmynd eða tilgangi; finna hann hins vegar ekki.
Samt eru þessir karlar ýtnir og stjórnsamir. Þeir taka yfir líf kvennanna og einhvern veginn láta þær reka á reiðann, gangast inn í umönnunarhlutverk sitt meðan þeir vafra um ráðvilltir og taka aðallega rangar ákvarðanir. Stundum er þetta óskaplega pirrandi og líklega myndi enginn endast til að lesa nokkra Anne Tyler-bók til enda ef ekki væri fyrir frábæran textann. Hún er líka snillingur í að byggja upp og lýsa persónum. Auk þess hefur hún lag á að skoða hlutina frá óvæntum og áhugaverðum sjónarhornum. Staða Morgans er til að mynda mjög sérstök. Hann er undir hælnum á eiginkonunni sem stjórnar heimilinu og lífi hans. Þau eiga eingöngu stelpur og nóg af þeim og þær líkt og móðirin hafa engan áhuga á föðurnum. Þeim nægir að hafa hver aðra og að á heimilinu gangi allt sinn vanagang. Kannski ekki undarlegt að Morgan hafi þörf fyrir að láta að sér kveða annars staðar og verða einhver annar en hann er.
Svo er alltaf þessi tenging og samskipti kynslóða í hverri einustu bók. Þarna eru afar og ömmur inni á gafli og áhrifamikil í lífi barnanna. Stór, gömul hús mismunandi vel við haldið þar sem allir búa saman og iðulega eru húsin líkt og persónur í sögunni. Fyrrum unnustur, unnustar, eiginmenn, eiginkonur og elskhugar sem birtast oft óvænt eða hverfa. Systkini sem setja mark sitt á alla fjölskylduna og koma og fara. Hver og einn hefur svo sína sérvisku, sérstæð áhugamál, skrýtið tómstundagaman, óvenjulega hæfileika eða afar sérstæðan persónuleika. Þessi ringulreið fær einhvern veginn form og líkama í bókum Anne Tyler og fjölskyldur lifna við. Vissulega nokkuð einkennilegar þegar á allt er litið en engu að síður að berjast við að ná og viðhalda raunverulegum tengslum og um það fjalla bækur hennar, samskipti, tengingar, umburðarlyndi og kærleika milli manna. Velgengni eða nýting mikilla hæfileika verður aukaatriði og þrátt fyrir góðar gáfur og allar forsendur til að lifa innihaldsríku lífi ná persónur hennar sjaldnast flugi á veraldlegan mælikvarða en mikið lifandis, skelfing eru þær áhugaverðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)