Ekkert jafnast á við glæpasögu í rigningu

adskotadEitt af því sem er ómissandi á sumrin eru góðar spennubækur. Ekkert jafnast á við það á rigningardögum að liggja inni með spennandi sakamálasögu og hlusta öðru hvoru á regnið dynja á þakinu. Sólskinsdagana finnst flestum þeir verða að nýta í útivist, enda yfirleitt færri en hinir. Tíðarfarið undanfarið hefur svo sannarlega gefið tilefni til að sanka að sér góðum glæpasögum og það hef ég gert af eldmóði og ákafa. Sú fyrsta sem ég lauk við var Aðskotadýr eftir Unni Lindell. Fléttan er góð, mátulega flókin og vel uppbyggð. Undir lokin eru spennandi kaflar og allt fer á besta veg fyrir aðalpersónunum og þá er hægt að loka bókinni með feginsandvarpi. Unni Lindell er norsk og hefur auk sakamálasagna skrifað barnabækur og ljóð. Hún var blaðamaður áður en hún byrjaði rithöfundaferilinn en eftir að bækur hennar um Cato Isaksen slógu í gegn hefur hún eingöngu helgað sig bókarskrifum. Gerðar hafa verið sjónvarpsmyndir eftir sumum bóka hennar og nokkrar þeirra verið sýndar á RÚV. Unni hefur líka fengið Riverton-verðlaunin fyrir bækur sínar.

vodaskotNæst greip ég Voðaskot eftir Katrine Engberg. Hún er ótrúlega hæfileikarík, konan sú, og á að baki farsælan feril sem leikkona, dansari og danshöfundur. Bækur hennar um Jeppe Kørner og Annette Werner í Kaupmannahafnarlögreglunni eru vel skrifaðar og fínustu sakamálasögur. Þar er líka alltaf að finna ákveðinn fróðleik sem er alltaf bónus. Í Voðskot er atriðið þar sem ein persónan, leiðsögumaður á Thorvaldsen-safninu, veltir fyrir sér nokkrum að verkunum þar slíkur fróðleiksmoli. Rigning og umtalsvert rok verður fullkomlega ásættanlegt þegar svona bækur eru við höndina. 

beinaslod-1Beinaslóð eftir Johan Theorin er frumleg og skemmtilega uppsett. Johan er sænskur, fyrrum blaðamaður eins og Unni og hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar. Meðal annars Glerlykilinn og CWA International Dagger. Bókin hefst á því að við fylgjum manni að nafni Gerlof inn á skrifstofu annars manns sem lesandanum er sagt að hingað til hefur verið óstöðvandi. Við fáum að vita að fjórar manneskjur hafa reynt og goldið fyrir með lífi sínu. Mun Gerlof takast það sem þeim misheppnaðist og hver er þessi samviskulausi maður? Johan kann að byggja upp spennu og tekst einkar vel upp í þessari bók.  


Óhamingjusamar fjölskyldur

LUNGU_coverFjölskyldan og ættartengsl eru helstu umfjöllunarefni Pedros Gunnlaugs Garcia í bókinni Lungu. Stefán reynir að byggja brú og sættast við Jóhönnu dóttur sína en sagan gerist einhvern tíma í framtíðinni. Jóhanna hefur notfært sér nýjustu tækni til að klæðskerasníða dóttur sína, ef svo má segja, þ.e. breyta genamengi hennar til að hún verði sem fullkomnastur. Stefán hafði látið orð falla um þá fyrirætlun sem Jóhanna getur ekki fyrirgefið. Hún fer að lesa handrit að fjölskyldusögunni eftir föður sinn og hugsanlega getur það fært þau nær hvort öðru.

Þetta er fjörlega skrifuð og að mörgu leyti vel unnin saga. Þarna eru áhugaverðar persónur en einnig nokkrar ógeðfelldar. Jóhanna er einstæð móðir, fráskilin, með eitt barn sem skiptist á að dvelja já henni og barnsföðurnum, hún er forritari að leikjum sem nýta sér sýndarveruleika. Fjölskylda hennar er fámenn en því fjölbreyttari. Jóhanna á ættar að rekja til Ítalíu og Víetnam. Fólkið hennar hefur lagt á flótta undan erfiðum lífskjörum, stríði og kúgun og stjórnsemi og leiðindum. Margt er forfeðrum hennar til lista lagt en þau eru gölluð líka.

Helst stendur þeim fyrir þrifum erfiðleikar við að tengjast öðrum og gefa sig alla í samskiptum. Hér eru einbirni kynslóð fram af kynslóð og ekkert þeirra á í góðu sambandi við foreldra sína. Það er eins og enginn geti rofið einangrun hinna fullorðnu. Hér er ýjað að því að erfðir ráði miklu og alls konar genabreytingar koma við sögu en einnig dýr sem eru algeng fórnarlömb vísindamanna í leit að svörum m.a. hamstur, hundur og froskur. En þarna er líka stökkbreyttur hani, fyrsti náni vinur einnar sögupersónunnar, vinur sem viðkomandi svíkur. Hér eru stórar spurningar undir. Fyrir utan þessar klassísku um erfðir og umhverfi, spurningar um hvort rétt sé að létta foreldrum og börnum lífið með hjálp vísindanna og hvaða máli fjölskyldur skipti? Er barni nauðsyn að lifa fjölskyldulífi og veldur vangeta foreldranna til að mynda sambönd barninu óhjákvæmilega skaða? Þegar stórt er spurt verður jafnan fátt um svör en þessi bók vekur mann sannarlega til umhugsunar.


Undiröldur í mannlegum samskiptum

ArmannJakobs_Prestsetrid_FRONTSjötta bók Ármanns Jakobssonar um lögregluteymið, Kristínu, Bjarna, Njál, Margréti g Martein er komin út. Prestsetrið er bráðskemmtileg og vel uppbyggð sakamálasaga, eins og þær fyrri drifin áfram af flókinni gátu fremur spennu. Ármann hefur frábært vald á íslenskri tungu og flott orðtök og litríkt myndmál er áberandi í öllum hans bókum. Honum er líka lagið að skapa áhugaverðar persónur og sá hæfileiki nýtur sín vel í þessari sögu. Hann er líka óvenjulega hispurslaus og ekki hræddur við að koma inn á skuggahliðar mannlegra samskipta.

Að þessu sinni hverfist sagan um arf sem Kristín fær óvænt eftir afasystur sína. Um er að ræða gamalt prestsetur á jörðinni Stóru-Hlíð. Þar eru þrjú önnur íbúðarhús og gistiheimili.  Kristín kemur þangað í frí en fljótlega verður henni ljóst að mikil spenna ríkir undir niðri í samskiptum íbúa á svæðinu og þegar einn þeirra finnst látinn reynir á ályktunarhæfni og innsýn Kristínar í mannlegt eðli.

 


Skyldulesning fyrir kverúlanta

downloadHafi þér einhvern tíma orðið það á að kvarta undan heilbrigðiskerfinu er bókin Læknir verður til eftir Henrik Geir Garcia skyldulesning. Hér er sagan sögð frá sjónarhóli þeirra sem starfa innan þessa kerfis og þurfa að takast á við misgáfulega og miskröfuharða sjúklinga. Sagan frá hinum endanum. Vinnuaðstaðan er léleg, alltaf mikið meira en nóg að gera og tólin til að sinna viðfangsefninu iðulega ekki til staðar. Það er nefnilega ekki einfalt mál að sjúkdómsgreina. Einkennin eru oft óljós eða geta átt við um ansi margt og blóðprufur, skimanir, sneiðmyndir og röntgenmyndir bæta stundum engu við. En fyrir framan þig er manneskja sem kvelst. Manneskja sem í einhverjum tilfellum er búin að sjúkdómsgreina sig sjálf eða þykist vita að tiltekið lyf muni virka, einmitt í hennar tilfelli. Og þau eru mörg tilfellin og sum einfaldlega utan og ofan við það sem vísindin ráða við. Læknar eru settir á stall í okkar samfélagi. Þeir eiga vita allt og hafa svör við öllu. Þeir eiga að ávísa pillum svo okkur líði betur og skera upp dugi þær ekki til. En læknar eru bara menn og það verður svo augljóst og satt í þessari frábæru bók. Þótt Henrik Geir segist skálda í eyðurnar eru persónur og tilvik að hans eigin sögn innblásin af raunverulegum manneskjum og atburðum. Hann hlífir engu, hvorki kerfinu sem hann vinnur fyrir né sjálfum sér. Við þetta bætist svo að hann skrifar einstaklega lipran og skemmtilegan texta. Lifandi og blæbrigðaríkt mál sem gerir sögurnar frábærar og svo skemmir ekki hvað hann er fyndinn. Já, ég mun hér eftir fara varlega í að gagnrýna heilbrigðiskerfið og æfa mig vandlega í hnitmiðuðu og skilmerkilegu orðalagi fyrir næstu læknisheimsókn.


Íslensk kona tekst á við ítalskt sakamál

Gratvidir_72Grátvíðir eftir Fífu Larsen er létt og skemmtileg afþreying. Þetta er góð blanda sakamála- og ástarsögu. Þegar ung kona finnst látin á akri í nágrenni heimilis hinnar íslensku Jóhönnu dregst hún inn í rannsókn málsins því símanúmerið hennar finnst á hinni látnu Jóhanna er ekkja og býr með tengdaföður sínum og syni og gamli maðurinn opnar sig fyrir henni um fjölskylduleyndarmál sem hefur hvílt þungt á honum og gæti tengst konunni. Það er ekki síst fyrir hann sem hún samþykkir að halda í ferðalag með Roberto Farro lögreglumanni í leit að frekari svörum. Fífa er sjálf búsett í Friuli á Norður-Ítalíu og hún blandar inni í frásögnina bæði dökkum og ljósum þáttum í ítalskri menningu og samskiptum. Þetta er kjörin bók að grípa með í bústaðinn eða í flugið.

 


Bók er best vina

DanskvaediOft talar fólk um að góð bók sé eins vinur, hana sé hægt að heimsækja aftur og aftur og líða alltaf jafnvel að loknum lestri. Það er vissulega margt til í þessu en stundum veldur vinurinn reyndar vonbrigðum og er bragðdaufari í seinna skiptið en hann var í það fyrra. Auðvitað segir það meira um lesandann en bókina, hann hefur breyst og horfir öðrum augum á lífið. En margar snilldarbækur hafa verið skrifaðar um vináttu og hvernig hún breytir lífi fólks.

The_Fault_in_Our_StarsLíklega kannast flestir við The Fault in Our Stars. Mjög margir lásu bókina og enn fleiri sáu myndina. John Green tókst að skapa eftirminnilega og áhrifaríka sögu af vináttu tveggja unglinga á nöturlegasta stað sem hugsast getur, krabbameinsdeild á barnaspítala. Þetta er ein af þeim bókum sem taka má upp þegar menn þurfa að skæla svolítið en finna líka hlýjuna streyma um hjartað.

Hvað eru Harry Potter-bækurnar annað en óður til vináttu? Svarið er einfalt ekkert annað. J.K. Rowling færir börnum heim sanninn um að með því að læra að elska vini sína af heilum hug og vera tilbúinn að leggja ýmislegt á sig fyrir þá kemur hamingjan. Hún er ekki fólgin í vinsældum og aðdáun margra heldur miklu frekar tryggð og ást fárra. Harry Potter er töfrabarnið, móðurástin bjargaði honum ungum og vináttan þegar hann eldri og þroskaðri þarf að takast á við höfuðóvininn, Voldemort.

Flugdrekahlaupinn eftir Kahled Hosseini segir sögu af vináttu þvert á stéttir samfélagsins en einnig hvernig ill öfl ná að sundra vinum og eyðileggja það sem fagurt er.

Hungurleikaþríleikurinn eftir Suzanne Collins er ekki bara saga af vináttu og ást heldur einnig frásögn af því hvernig miskunnsemi, góðgirni og traust getur veikt stoðir valdastéttarinnar, já, beinlínis umbylt heilu þjóðfélagi. Fyrir svo utan hversu spennandi og skemmtilegar þessar bækur eru.

HisDarkMaterials1stEditionAnnar þríleikur sem vert er að lesa og njóta hafi menn áhuga á að eignast vini fyrir lífstíð er His Dark Materials, Gyllti áttavitinn og Lúmski hnífurinn og Skuggasjónaukinn hafa allar verið þýddar á íslensku. En þetta eru óviðjafnanlegar bækur um pólitískar flækjur, kúgun og hvernig frelsisþráin og sönn vinátta munu alltaf standa í vegi fyrir illu öflunum. Heimur Lýru í Jórdanarháskóla er öruggur og hlýr að því er hún heldur en undir niðri eru ill öfl að verki. Vinur hennar hverfur og hún leggur upp í hættuför til að bjarga honum.


Að finna taktinn

Sjaid_okkur_dansa_72ptSjáið okkur dansa eftir Leïlu Slimani er framhald bókarinnar, Í landi annarra, en þar kynntumst við Amin og Mathilde, marrakóskum hermanni og franskri konu sem verða ástfangin og giftast. Hún fylgir manni sínum, eins venjan var og er oft enn með konur, til heimalands hans. Þau setjast að á föðurleifð Amins og hefja búskap. Hann er metnaðarfullur og með skýra sýn á hvernig hann hyggst gera smábýli að stórum og velmegandi búgarði.

Sagan hefst árið 1968, Marrokkó er orðið sjálfstætt ríki með eigin kóng Hassan II. Hann virðist hliðhollur bændum, einkum þeim sem vel gengur og Amin hengir upp mynd af honum á skrifstofu sinni. Aisha, dóttir hans er í læknanámi og Selim, sonurinn, að klára stúdentspróf. Amin byggir sundlaug til þess að ganga í augun á dóttur sinni, sýna henni hversu vel honum hefur gengið. En ekkert fer eins og hann væntir og enginn reynist sú persóna sem hann ætlar að hún sé. Leïla byggir á eigin ættarsögu og í þessari miðjubók, sú þriðja og síðasta er væntanleg, má segja að allir taki út þroska, bæði fólk og landið sem er stundum eins og ein af persónunum.

Hér er tekið á stórum málum, viðleitni innflytjandans til að koma sér fyrir, finna hlutverk og passa inn í samfélagið. Tilraunum hins stjórnsama fjölskylduföður til að móta alla í þeirri mynd sem hann hefur skapað þeim í huganum og hans tilburðir í þá átt endurspeglast í valdabrölti kóngsins og báðum mistekst hraplega að koma áformum sínum í framkvæmd. Unga fólkið í fjölskyldunni, Selim og Aisha, reikul og í leit að sjálfi. Þau vita hvorugt hvað þau vilja, hafa látið leiðast fram að þessu en þurfa að taka afstöðu til stórra mála og á endanum ákveða hvað þau vilja. 

Mathilde er óskaplega áhugaverð persóna. Sterk kona, greind og hæfileikarík en þarf að beygja sig undir kúgun samfélagsins sem hún hefur flust til þótt hún geri einnig uppreisn á sinn hátt og nái að skapa sér vettvang. Hjónaband hennar er ekki gott. Eiginmaðurinn heldur stöðugt framhjá og ber litla virðingu fyrir konu sinni. Hún nær heldur ekki fyllilega sambandi við börn sín. Finnst dóttirin komin mun lengra en hún sjálf og sonurinn fjarlægur. Hún veltir fyrir sér hvort hún hafi sóað lífi sínu í umhyggju fyrir fólki sem ekki kann að meta hana.

Aisha og Selim dragast hins vegar hvort á sinn hátt inn í uppreisnaranda hippaáranna, enda Marrokkó um tíma fyrirheitna landið hjá ungu frelsiselskandi fólki frá Vesturlöndum. Selim endar í Essaouira innan um hassreykjandi hipp að neyta hugbreytandi efna. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók og þótt hoppað sé frá einum fjölskyldumeðlim til annars og sagan sögð frá þeirra sjónarhóli nær Leïla að draga upp heildstæða og áhugaverða mynd af fjölskyldu og landi í ímyndarkreppu, fólki í leit að sjálfi og tilgangi og stjórnvöldum sem vita ekki hvernig á að ríkja, ráða og byggja upp þjóðfélag. Það verður spennandi að sjá hvernig sagan endar þegar þriðja bókin kemur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband