20.3.2023 | 22:02
Skáldkona norsks hversdagslífs
Norska skáldkonan Anne B. Ragde er ólík flestum Norðurlandabúum að því leyti að hún þolir ekki sól og sumar. Hún segir að haustin séu sinn árstími, þá fyllist hún orku og taki til við að tína, taka upp, sulta og sjóða niður uppskeruna. Auk þess er hún oftar en ekki á fullu við að kynna og fylgja eftir nýrri bók.
Anne vakti fyrst heimsathygli þegar sagan Berlínaraspirnar kom út. Hún var fyrsta bók í áhrifamikilli fjölskyldusögu en bækurnar urðu á endanum sex. Þetta er fjölskyldusaga og gamla óðalssetrið Neshov verður að eins og persóna í bókinni. Torunn hefur alist upp hjá einstaæðri móður og í fyrstu bókinni Berlínaröspunum kemur hún til Neshov til að fylgja móður sinni til grafar og hitti þá föður sinn í fyrsta sinn frá því hún var lítið barn. Ákveðið fjölskylduleyndarmál hvílir eins og mara yfir eftirlifendum og litla hamingju að finna á þessum gamla bóndabæ. En eftir því sem sögunni vindur fram kviknar meiri von um að að þau nái að tengjast og styðja hvert annnað til betra lífs. Þrátt fyrir einangrun og einmanaleika þeirra hvers um sig er eitthvað við heillandi við þessar bækur og persónurnar sem laðar lesendur stöðugt að til að heyra meira.
Í raun má segja það sama um bækur Anne sem fjalla um hennar eigin fjölskyldusögu, Arsenikturninn og Ég á teppi í þúsund litum. Birte, móðir hennar, dó árið 2012 en Anne segir í viðtali við Dagsavisen að enn heyri hún rödd hennar hljóma í höfði sér og eigi í löngum samtölum við hana. Samband þeirra mæðgna var erfitt og litaðist mjög af því að móðirin bar djúp sár á sálinni vegna eigin uppvaxtar. Anne dáist þó að móður sinni og segir hana hafa verið nægjusemin og útsjónarsemin uppmáluð. Hún tók að sér að hekla, sauma og prjóna fyrir aðra auk vinnu sinnar í plastpokaverksmiðjunni. Iðulega sat hún heilu næturnar og vann til að ná að láta enda mæta saman í heimilisbókhaldinu.
Veisla úr engu
Hún gat einnig gert ótrúlega mikið úr litlu og í Ég á teppi í þúsund litum lýsir Anne því hvernig móður hennar tókst að gera veislumat úr engu aftur og aftur. Nýlega bað forleggjari Anne í Frakklandi hana að taka saman uppskriftir Birte á bók og hún hefur ákveðið að verða við því. Það verður spennandi að vita hvernig norskar fiskibollur og steikt síld falla í smekk Frakka en vonandi kemur sú bók einnig fyrir augu Íslendinga.
Þetta er einnig skemmtilega rökrétt framhald af skáldskap þessa höfundar. Hún er þekkt fyrir að lýsa hversdagslífi norsks alþýðufólks af mikilli næmni og hún hefur einstakt lag á að skrifa þannig að meira að segja það að hella upp á te í eldhúsi Neshov-býlisins verður áhugaverð athöfn.
Anne Birkefeldt Ragde fæddist í Odda í 3. desember árið 1957. Foreldrar hennar skildu og hún var alin upp af einstæðri móður í Þrándheimi í mikilli fátækt. Á sumrin dvaldi hún oft í sveitinni í Hordaland hjá föðurafa sínum og ömmu og þar lærði hún að nýta berin, jurtirnar og önnur landsins gæði. Hún hefur einnig gaman af að búa til lambarúllu og frysta til jólanna og baka enska jólaköku tímanlega. Hún er líka mjög heitfeng og þolir illa sumarhitann. Þess vegna eru haustin hennar árstíð. Anne sótti sér menntun og lauk cand. phil. prófi frá háskólanum í Þrándheimi. Fyrsta bókin hennar kom út árið 1986. Það var barnabókin, Hallo! Her er Jo. Hún hefur mikið skrifað fyrir börn og unglinga en einnig sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tuttugu og tvö tungumál m.a. suðurkóresku en vinsælust er hún á Norðurlöndunum, Frakklandi og Þýskalandi. Hún á eina systur, einn uppkominn son, tengdadóttur og barnabarn, Sverre, fjögurra ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2023 | 12:25
Vanmat á bókmenntum kvenna
Hlutur kvenna innan bókmenntaheimsins hefur ætíð verið rýrari en karla. Lengi þótti það ekki sæmandi konum að skrifa og þær sem gerðu það fengu iðulega ómaklega gagnrýni. Gert var lítið úr sögum þeirra, einkum þegar þær skrifuðu um reynsluheim sinn. Eitt skýrasta dæmi um þetta er án efa Guðrún frá Lundi en bækur hennar voru kallaðar kerlingabækur og sagðar snúast meira um kaffidrykkju en einhver þýðingarmikil viðfangsenfi.
Hið sama gilti þegar Þóru-bækur Ragnheiðar Jónsdóttur komu út. Gagnrýnendur blaðanna töluðu þær niður með föðurlegum umvöndunartóni. Algengt var þegar þeir skrifuðu um bækur kvenna að í öðru orðinu hrósuðu þeir, svona eins og menn gera þegar verið er að hvetja börn til dáða, og svo var bætt en ... í kjölfarið fylgdi svo vöntun á einhverju sem gerði þá bók sem var til umfjöllunar markverða. Hið sama má raunar segja um bækur Ingibjargar Jónsdóttur, Magneu frá Kleifum og Jakobínu Sigurðardóttur og fleiri. Meðan þær skrifuðu fyrir börn voru dómarnir lofsamlegir en ef þær sendu frá sér bækur fyrir fullorðna mættu þær almennt skilningsleysi og harðari dómum en karlarnir.
Af þessum ástæðum hefur oft verið litið framhjá framlagi mjög færra höfunda og þegar kemur að verðlaunaveitingum eru karlarnir mun oftar á palli en konur.
Víða hefur kveðið svo rammt að þessu að konur hafa stofnað til eigin verðlauna. Í þeim hópi eru íslensku Fjöruverðlaunin, BAYLAYS-verðlaunin í Bretlandi, Barbara Jefferies-verðlaunin í Ástralíu, Stella-verðlaunin í Ástralíu, Chommanard Book Prize í Tælandi, Janet Heidinger Kafka-verðlaunin í Bandaríkjunum, Rapallo Carige-verðlaunin á Ítalíu og Pat Lowther-verðlaunin í Kanada. Mismunandi er hvort þessi verðlaun bjóðast eingöngu innlendum höfundum eða hvort þau eru alþjóðleg.
Umdeilt hefur verið hvort virkilega sé nauðsynlegt að stofna til sérstakra verðlauna fyrir konur og sumir halda þvi fram að þær eigi jafnan aðgang að Nóbelsverðlaunum, Pulitzer og fleiri virtum listaverðlaunum. Ástæða þess að þær fái þau ekki sé einfaldlega sú að karlkynshöfundar eigi einfaldlega betri verk. Á móti hafa meðmælendur slíkra sérstakra verðlauna lagt fram rannsóknir máli sínu til stuðnings. Bent hefur verið á að bækur eftir konur nái metsölu, oft mun meiri sölu en bækur karlkyns kollega þeirra en samt séu þær mun sjaldnar á listum yfir tilnefnda til verðlauna og mun færri konur meðal verðlaunahafa.
Stundum skipti meira máli um hvað er skrifað en hvernig listræn hæfni manna sé. Karlar einbeiti sér oft að hetjusögum, stórum viðburðum, stundum sannsögulegum meðan konur skrifa um náin sambönd, stöðu kvenna í samfélaginu, barnauppeldi og önnur samskipti. Hvað sem veldur þá er víst að verðlaun fyrir listir breyta miklu fyrir þá sem hljóta þau. Verk þeirra fá meiri athygli og ýmsir möguleikar opnast sem áður voru lokaðir. Þetta á sannarlega einnig við um sérstök bókmenntaverðlaun kvenna.
Vanmetnar skáldkonur
Konur átti lengi ekki upp á pallborðið hjá bókaþjóðinni. Samt búum við að merkilegum bókmenntaarfi frá formæðrum okkar. Auk ofannefndar kvenna má nefna til viðbótar þessar þrjár.
Hulda eða Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist 1881 og dó1946. Hún var afkastamikil og fjölhæf. Sendi fá sér tuttugu skáldrit, nokkur smásagnasöfn, ævintýri og sjö ljóðabækur. Hulda giftist Sigurði Sigfússyni og eignaðist fjögur börn. Eitt þeirra fæddist andvana. Heimilið var stórt og annir margar yfir daginn. Líklega er Hulda þekktust fyrir þulur sínar og ljóð en hún tók sér skáldanafn vegna þess að verja sig, enda einkenndist fyrsta gagnrýni um verk hennar af yfirlæti og hroka. Meðal annars kallar Þorsteinn Erlingsson hana gáfað, góðlátlegt og óframfærið barn.
Guðfinna Þorsteinsdóttir fæddist árið 1891 og lést árið 1972. Hún tók sér skáldanafnið Erla. Áreiðanlega af sömu ástæðum og Hulda. Það var þægilegra fyrir konur að skapa sér fjarlægð frá harðneskjulegum dómum á þennan hátt. Árið 1917 giftist Guðfinna Pétri Valdimari Jóhannessyni. Þau hófu búskap á heiðarbýlinu Brunahvammi í Fossdal í Vopnafirði. Varla hefur verið auðvelt að skapa sér lífsviðurværi á slíkum stað og þau fluttu nokkrum sinnum. Lengst af bjuggu þau á Teigi í Vopnafiðri. Guðfinna og Valdimar áttu níu börn og í ljósi þess er eiginlega ótrúlegt að hún gaf út þrjár ljóðabækur, tvær bækur sem innihéldu þjóðlega sagnaþætti og þýddi skáldsöguna Slagur vindhörpunnar eftir William Heinesen. Nýlega tóku aðdáendur Erlu sig til og gáfu út ljóðasafn hennar.
Theodóra Thoroddsen fæddist á Kvennabrekku í Dölum árið 1863 og lést árið 1954. Hún náði mikilli leikni með þuluformið og fyrsta bók hennar var gefin út árið 1916 með myndum eftir Mugg, systurson hennar. Smásögur eftir hana, Eins og gengur, kom út árið 1920. Ritsafn hennar koom svo árið 1960. Kvæði, stökur og sagnir eftir hana birtust víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna. Theodóra þýddi einnig sögur og ljóð og safnaði þjóðsögum. Theodóra var gift Skúla Thoroddsen lögfræðingi og þau áttu þrettán börn.
Bloggar | Breytt 29.3.2023 kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2023 | 19:05
Hin óborganlega Precious Ramotswe
Hugmyndin að Precious Ramotswe og kvenspæjarastofu hennar í Botswana varð til þegar Alexander McCall Smith horfði á Botswana-konu með hefðbundið vaxtarlag elta hænu. Konan ætlaði hænuna í kvöldmatinn og sennilega hefur hún enga hugmynd um að tilburðir hennar hafi kveikt neistann að einni vinsælustu bókaseríu í heiminum í dag.
Alexander McCall Smith eða Sandy eins og hann er gjarnan kallaður fæddist í Ródesíu sem nú heitir Zimbabwe árið 1948. Hann ólst upp í Bulawayo og lauk þaðan framhaldsskólaprófi. Eftir það hélt hann til Skotlands og lauk lagaprófi frá Edinborgarháskóla en Afríka togaði í hann og því sneri hann aftur og kenndi við lagadeild háskólans í Botswana.
Allt frá því hann hóf laganám vöktu helst áhuga hjá honum þau lög og reglugerðir sem sneru að læknisfræði og siðfræðilegum álitamálum í lífræði og lífrænni efnafræði. Fljótlega varð hann einn fremsti sérfræðingur Breta á því sviði og hann hefur skrifað nokkrar fræðibækur um þetta efni. Hann var gerður að formanni the British Medical Journal Ethics Committee og sat í þeirri nefnd allt til ársins 2002. Eftir að hann sneri aftur til Skotlands kenndi við laga- og læknisfræðideildir háskólans í Edinborg eða þar til hann hætti til að helga sig alfarið ritstörfum.
Afkastamikill og fjölhæfur
Þessi einstaki rithöfundur er mjög fjölhæfur því hann hefur skrifaði fræðibækur, barnabækur, ferðabækur og skáldsögur. Hann er einnig mjög afkastamikill. Auk bókanna um Precious Ramotswe hefur hann þegar gefið út bókaröð um Isabel Dalhousie sem er kvenspæjari ekki ólíkur Ms. Marple, Agöthu Christie. Fyrsta bókin í þeim flokki Sunnudagsklúbbur heimspekinganna hefur komið út í íslenskri þýðingu. Höfundurinn segir þessar tvær bókaseríur allsendis óskyldar þótt ákveðið andrúmsloft notalegheita einkenni báðar. Það má vissulega til sanns vegar færa og bæði Isabel og Precious eiga stóran aðdáendahóp um allan heim.
Hann var einnig dálkahöfundur fyrir The Scotsman og hafa þrjú greinasöfn undir samheitinu 44 Scotland Street verið gefin út með þeim skrifum hans en seinni tvær bækurnar bera undirtitlana Espresso Tales og Love Over Scotland. Kvikmyndafyrirtækið Moving Title Films réttinn til að gera kvikmynd byggða á þessari bókaseríu en enn hefur myndin ekki litið dagsins ljós en BBC gerði skemmtilegar sjónvarpsþáttaseríur eftir bókunum um Precious Ramotswe.
Sennilega þætti öllum nóg að skrifa jafnmikið og Alexander McCall Smith gerir en hann lætur sér það ekki nægja. Meðfram ritstörfunum leikur hann á básúnu í The Really Terrible Orchestra, hljómsveit sem nýtur sívaxandi vinsælda. Alexander hefru verið veitt CBE orðan fyrir ritstörf sín en hann er enn við góða heilsu og hvergi nærri hættur. Þó nokkrar bækur um kvenspæjarann í Botswana hafa komið út á íslensku og einnig um Isabel Dalhousie. Þetta er áhugaverður rithöfundur og sjálfsagt að hafa augun opin og grípa bók eftir hann á bókasafninu eða næst þegar leitað er að einhverju að lesa í bókbúð.
Bloggar | Breytt 20.3.2023 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2023 | 09:16
Frábærar sakamálasögur
Bækurnar um Karen Eiken Hornby rannsóknarlögreglumann á Doggerland eru meðal skemmtilegustu sakamálasería sem rekið hafa á fjörur mínar. Maria Adolfsson er frábær höfundur, hugmyndarík og kann að byggja upp spennu fyrir svo utan að hafa búið til heilan eyjaklasa og íbúa á honum. Sú nýjasta, Að duga eða drepas, gefur hinum fyrri ekkert eftir, er eiginlega meira spennandi
Karen er kasólétt og komin í fæðingarorlof þegar sagan byrjar. Hún er stödd í miðbænum ásamt vinum sínum þegar skothríð hefst og sjö manneskjur liggja í valnum. Fjölmargir slasast og þar á meðal Eirik, vinur Karenar. Hún sér hins vegar hvaðan skotin koma og þar finnst skotmaðurinn látinn á vettvangi. Þetta verður til þess að Karen ákveður að mæta í vinnuna og taka þátt í rannsókninni á hvað manninum gekk til.
Það er eitthvað alveg sérstakt við að fylgja eftir óléttum rannsóknarlögreglumanni sem á erfitt með að keyra bíl og er sípissandi. Allt verður líka meira spennandi fyrir vikið því lesandinn óttast ekki bara að ill öfl nái til Karenar heldur er líf barnsins í húfi líka. Mig hefur lengi langað að sjá sjónvarpsseríur gerðar eftir þessum bókum en þær myndu henta einkar vel til þess. Vonandi verður einhver til að uppfylla þá ósk mína en þangað til leyfi ég mér að hlakka til næstu bókar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2023 | 11:20
,,Þetta liggur svo djúpt
Þetta liggur svo djúpt, segir Klara, besta vinkona Bergljótar og orðin eiga svo vel við. Í raun eru þau kjarninn í því sem bókin, Arfur og umhverfi, eftir Vigdisi Hjorth fjallar um. Fjögur systkini rífast um arf. Ekki óalgengt en ef einhver heldur að það snúist um peninga er það misskilningur. Undir niðri kraumar alltaf eitthvað annað, í þessu tilfelli ofbeldi og hunsun. Eldri systkinin tvö upplifðu annað en yngri systurnar tvær. Foreldrar þeirra voru annað fólk, í annarri stöðu, að berjast við annars konar tilfinningar þegar Bergljót og Bárður lifðu sín viðkvæmustu ár. Þær yngri geta ekki skilið það. Önnur ákveður að hafna alfarið eldri systkinum sínum en hin reynir að taka sér stöðu á miðlínunni, taka ekki afstöðu, skilja bæði sjónarmið. Er það hægt? Að mati Bergljótar felst í raun í því afstaða með foreldrunum á móti henni.
Líklega munu flestir þekkja sig eða eitthvert mynstur úr eigin fjölskyldu við lestur þessarar bókar. Einhver segir óþægilegan sannleika og aðrir fjölskyldumeðlimir vilja ekki heyra hann. Finnst að sá særði eigi að þegja, ekki draga þá inn í átökin, neyða þá til að taka afstöðu og hlusta á eitthvað sem þeir vilja ekki heyra. Og þarna erum við komin að akkúrat þeirri umræðu sem hefur átt sér stað undanfarin ár eða frá því að Metoo-byltingin fór af stað. Verðum við að hlusta á þessar konur? Taka afstöðu í málum þeirra og jafnvel hunsa eða hafna uppáhaldslistamanninum okkar? Hvað ef litlar eða engar sannanir eru til staðar megum við þá, eigum við þá að dæma brotamanninn? Þegar þetta er innan fjölskyldu þá er spurningin líka hversu lengi umræðan á að standa og hvenær á að hefja hana og hvar? Bergljót vill að á hana sé hlustað, Bárður vill að á hann sé hlustað og bæði að mark sé tekið á orðum þeirra. Þau upplifa mikla höfnun þegar hinir í fjölskyldunni víkja sér undan, hlaupa í það skjól að þarna sé hvorki staður né stund, að þetta skipti ekki máli, að ekki sé verið að ræða þetta núna og það skipti ekki máli í þessu samhengi.
En Bergljót er í tuttugu og þrjú ár búin að reyna að slíta sig frá fjölskyldunni. Standa utan hennar og lifa með sínum sársauka og það gengur ágætlega þangað til móðir hennar eða Astrid hringja enn og aftur með tilboð um samband, löngun til að laga fjölskylduna en skilyrðin eru þau að Bergljót ruggi ekki bátnum, ræði ekki það sem kom fyrir hana og gangi inn á æskuheimilið á Bråteveien eins og ekkert hafi ískorist. Hún getur það ekki. Í hvert sinn sem þetta gerist rennur hún í gamla farið, kemst í uppnám, hættir að geta sofið og finnur sársaukann hellast yfir sig á ný.
Arfur og umhverfi er erfið lesning en ákaflega vel unnin bók. Þráin eftir ást og viðurkenningu foreldra sinna hverfur aldrei og sársauki úr æsku hann liggur djúpt, svo djúpt að aldrei er hægt að rífa ræturnar fullkomlega burtu sama hversu lengi og ákaft er reynt. Sagan er að einhverju leyti sjálfsævisöguleg og vakti mikla athygli í Noregi þegar hún kom út, enda fjölskylda Vigdisar þekkt þar í landi. Ein systra hennar, Helga Hjorth mannréttindalögfræðingur, var reið og taldi að röng mynd væri dregin upp af foreldrum þeirra. Hún skrifaði eigin bók, Fri vilje, sem varð líka metsölusölbók. Mér fannst ég finna það við lesturinn að Vigdis nauðaþekkir tilfinningarnar. Textinn var svo næmur og magnaður, togstreitan og sársaukinn svo raunsönn. Hér eru endurtekningar, stuttir kaflar og ákveðinn taktur í tungumálinu notuð til að koma þessu til skila. Bergljót drekkur mikið og textinn endurspeglar það líka. Sömuleiðis fer frásögnin stundum í hringi en þannig er það líka þegar fólk er fast í tilfinningalegum vítahring. Spólar í hjólförunum og finnur enga leið til að losa sig. Allar góðar bækur auka manni skilning á sjálfum sér og þessi opnaði augu mín fyrir ýmsu sem mér finnst gott að hafa áttað mig á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2023 | 21:25
Síkvik sál
Margir vinir mínir höfðu talað um þessa bók við mig og bent mér á hana en einhvern veginn hafði alltaf farist fyrir að ná í hana og lesa. Þegar Gullveig, dóttir Sigurveigar, minnti mig á hana hitti svo undarlega á að hún poppaði upp til sölu í auglýsingu frá Bókinni á facebook síðunni minni. Ég leit á það sem tákn og keypti bókina. Þegar sálin fer á kreik eru minningar Sigurveigar Guðmundsdóttur, kennara, trúkonu, heimspekings, kvenréttindakonu og bókmenntaunnanda í skrásetningu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Í einu orði sagt er þessi bók ævintýri. Hugarheimur Sigurveigar er svo áhugaverður og hún talar af svo aðdáunarverðri hreinskiptni um alla hluti. Hún fegrar ekki nokkra manneskju, talar engan heldur niður en lýsir öllum á raunsannan hátt. Þetta er eins og ferskur andblær því nú á dögum hættir okkur ansi mikið til að ýmist að upphefja fólk eða fordæma það. Sigurveig gerir hvorugt. Í hennar frásögnum spretta einfaldlega fram manneskjur, breyskar en með sínar góðu hliðar. Lífshlaup þessarar konu eru líka einstakt. Fimmtán ára gömul fær hún berkla og þarf að leggjast inn á Vífilstaði. Seinna taka þeir sig upp aftur, í það sinn í bakinu, og í tvö ár liggur hún í gifsi á Kópavogshælinu og getur sig lítið sem ekkert hreyft. Þá fer sálin á kreik, að hennar sögn, hjá rúmliggjandi unglingstúlku með einn handspegil sem gerir henni kleift að horfa út um lítinn glugga á Kópavoginn og fjöruna. Það, herbergisfélaginn, sárafáir gestir og bækur eru eina afþreyingin þennan tíma. Að lokum gengst Sigurveig undir uppskurð og liggur lengi á Landakoti að jafna sig. Þar kynnist hún kaþólskri trú og skírist til hennar. Hún eignast sjö börn þótt henni hafi verið sagt að ekki væri æskilegt heilsu hennar vegna að ganga með barn og allt blessast þetta þrátt fyrir berklarnir hafi sannarlega veikt líkama hennar. Hún verður sömuleiðis fyrir þeirri sorg að missa tvö barnabörn og son sinn, ungan mann, sem fellur frá konu og börnum og einnig dóttur sína þá enn á besta aldri. Sigurveig varð háöldruð og bjó síðustu ár sín á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hún var stálminnug og fylgdist ævinlega vel með. Mér finnst hollt að lesa bækur eins og þessa. Þær segja okkur að hún er mörg mannsævin og hugarfarið skiptir öllu hvað varðar úrvinnslu erfiðleika. Svo verð ég að nefna hversu einstaklega fallegt mál er á þessari bók. Hún er svo vel skrifuð og Sigurveig hefur gríðarlegan orðaforða. Uppáhaldsskáld hennar var Einar Benediktsson. Í kvæði sem hann orti um móður sína, Katrínu Einarsdóttur, kemst hann þannig að orði: Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu. Mér finnst þetta eiga eins vel við um Sigurveigu og Katrínu.
Bloggar | Breytt 12.3.2023 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2023 | 18:27
Hvað segir bókhillan þín um þig?
Á flestum heimilum eru bókasöfn, misstór og fjölbreytt, en engu að síður kjósa flestir að hafa í kringum sig bækur. Þetta eru uppflettirit, uppáhaldsskáldsögur, fallega innbundin ritsöfn, bækur tengdar áhugamálum og ótal margt fleira. En hvernig fólk kýs að raða í bókahilluna er mjög misjafnt og segir margt um viðkomandi.
Sumir raða eftir lit. Allar rauðar bækur saman, þær svörtu á öðrum stað og þannig koll af koll. Ef marka má netið er það skapandi fólk með gott auga fyrir formi og litum. Það hefur einnig gaman af að prófa sig áfram og skoða hlutina frá öllum hliðum.
Þeir sem raða eftir tegundum það er leyfa ljóðabókunum að vera saman, ævisögunum við hlið þeirra og koma svo uppflettiritunum í sérhillu og þar fram eftir götum er fólk með góða rökhugsun, skipulagt og nokkuð formfast.
Þriðja týpan raðar eftir höfundum. Hver og einn fær sitt pláss og stöku höfundarnir raðast saman. Þetta er félagslynt fólk með góða tilfinningagreind. Helst vill það hafa félagsskap í kringum sig og ræða efni bóka sinna við aðra.
Fjórði hópurinn kýs að raða bókum eftir stærð. Þetta er íhaldssamt fólk sem heldur fast í gamlar venjur og siði. Það er almennt ekki tilbúið til að breyta miklu og vill helst hafa hvern dag í föstum skorðum og sína rútínu á hreinu.
Að lokum eru það svo þeir sme raða alla vega. Bækurnar liggja ýmist láréttar eða látnar standa upp á rönd. Hér eru uppreisnarseggir á ferð. Þeir láta ekki segja sér fyrir verkum né hvernig hafa á hlutina. Þeir njóta þess að breyta og upplifa ævintýri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2023 | 18:58
Frægir af endemum
Í framtíðinni verða allir heimsfrægir í fimmtán mínútur, sagði Andy Warhol í viðtali árið 1968. Á meðal okkar eru og verða einstaklingar sem eiga erfitt með að bíða eftir að korterið þeirra renni upp og gera nánast hvað sem er til að tryggja að það lengist nokkuð í annan endann. Ísland er lítið land og þeir sem vilja slá um sig með gífuryrðum eða ganga þvert gegn viðteknum viðhorfum á hverjum tíma geta auðveldlega tryggt sér ekki bara fimmtán mínútna fjölmiðlaathygli heldur hvern hálftímann af öðrum. Gallinn á slíkri frægð er hins vegar sá að hvenær sem er getur hún komið í bakið á manni og bitið illa.
Yfirlýsingar litaðar öfgum og óvenjulegum skoðunum eru oftar en ekki settar fram í þeim tilgangi að ögra og vekja viðbrögð en endurspegla ekki endilega raunverulegar tilfinningar þess sem setur þær fram. Fólk slengir einnig iðulega fram einhverjum staðhæfingum í þeim tilgangi einum að ganga fram af öðrum en hugsa ekki út í að þeir sem á hlýða eiga erfitt með greina hvort hér á ferð bláköld alvara eða yfirdrifin gamanmál.
Í heilræðakafla Hávamála er mönnum ráðlagt að gæta orða sinna. Leggja lítið til málanna ef vitneskja þeirra er takmörkuð um efnið en tjá sig ef þekking þeirra er næg. Þetta eru góð ráð. Þótt mannsævin sé ekki löng breytast aðstæður stundum skjótt og að sama skapi lífsviðhorf, draumar og langanir. Orð og gerðir í hita augnabliksins geta þá orðið að myllusteini um háls manna, steini sem ekki er létt að losna við.
Nektarmyndir, bjórdrykkja og grófyrði
Ungfrú Ameríka mátti til að mynda afsala sér titlinum þegar í ljós kom að hún hafði setið fyrir á nektarmyndum og Herra Ísland var sviptur sínum titli fyrir að hafa í frammi í sjónvarpsþætti hegðun sem ekki þótti til fyrirmyndar. Og þótt himinn og haf séu milli orða og athafna fer ekki hjá því að flestir trúi fremur illu upp á þann sem grófyrtur er og yfirlýsingaglaður en hinn sem fer sér hægar. Allmargir Íslendingar hafa haslað sér völl í fjölmiðlum út á það eitt að skella fram yfirlýsingum. Sumir komast aldrei undan þeirri ímynd jafnvel þótt þeir skipti fullkomlega um gír.
Hugmyndafræðin að baki hegðun af þessu tagi er amerísk að uppruna og er best lýst í slagorði smiðanna sem byggðu hana eða að ekkert umtal sé illt umtal og öll athygli af hinu góða sama að hverju hún beinist. Vandséð hvort Lindsey Lohan, Britney Spears eða Hugh Grant taki undir þá staðhæfingu eftir að hafa reynt hvoru tveggja að vera hampað í fjölmiðlum og vera skotspónar hæðni, vorkunnar og hneykslunar þeirra sömu blaðamanna.
En hvað með þá sem ekki virðast hafa sér neitt annað til ágætis en að vera stórir í kjaftinum og kunna að koma því á framfæri? Það er næsta víst að slæm hegðun fær athygli, þeir félagar í Jackass lifðu á henni en nutu sennilega lítillar virðingar þótt frægir væru. Hið sama má segja um Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann sló gjarnan um sig með yfirdrifnum yfirlýsingum, hrósaði sjálfum sér í hástert en fordæmdi gjarnan þá sem ekki voru á sömu skoðun og hann. Þótt Trump hafi haft fylgi meðal eigin þjóðar naut hann lítillar virðingar þar fyrir utan. Hann var oft borinn saman vð fyrirrennara sinn, Obama, en fágun hans, kurteisi og yfirvegun var viðbrugðið. Það var sama hversu hart var gengið að Obama, hversu óprúttnum meðölum andstæðingar hans beittu, (þar á meðal Trump) hann svaraði ævinlega virðulega en ákveðið. Orð hans höfðu því meira vægi fyrir vikið og það má alveg velta fyrir sér í hvorn muni oftar og lengur vera vitnað og hvor komi betur út þegar mannkynssaga 21 aldar verður rituð.
Það er auðvelt að baða sig í kastljósi fjölmiðlanna um stund ef mönnum er sama hvort þeir klæðist þar dökkum litum eða ljósum. Er athyglin þess virði? Hver og einn einstaklingur verður sennilega að svara því fyrir sig en dæmin sanna að vopnin geta auðveldlega snúist í höndum manna. Ef við víkjum aftur að fornri lífspeki Hávamála þá erum við þar minnt á að orðstír lifir lengur en meðalmaður. Guðinn hái sem þar mælir talar reyndar eingöngu um góðan orðstír en nefnir ekki þann alræmda. Hugsanlega hafa menn ekki verið búnir að uppgötva þá speki bandarísku auglýsingamannanna og þess vegna ekki talið eftirsóknarvert að vera umtalaður fyrir lítið annað en heimsku og oflæti. En þótt ekki sé beinlínis rætt um hið lakara orðspor í þessu gamla kvæði er líklegt að slíkt umtal eigi sér ekki styttri líftíma. Einhvern veginn hefur lesandinn á tilfinningunni við lestur Hávamála að það taki ævina alla að vinna sér inn þann orðstír sem lifa mun manninn. Þeir sem ekki hafa þolinmæði til að byggja hægt og hægt geta farið hina leiðina en þá er líka gott að hafa í huga að það að vera frægur af endemum á sér skuggahlið og enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2023 | 13:53
Brosað út í annað og stundum bæði
Kvíðastráið Hjalti er í leit að friði og huggun. Kærastan er farinn frá honum, hann nær engu sambandi við vini sína lengur og Covid hefur rænt hann lyktar- og bragðskyni. Þegar hann kynnist nágranna sínum Ingimar og í gegnum hann Kakófylkingunni fer loks að rofa til. Rjúkandi kakóbollinn færir Hjalta kærkomna slökun og loksins getur hann sofið. Það er svo mikill léttir að hann tekur skyndiákvörðun um að segja upp íbúðinni, losa sig við allt sitt dót og halda í ferðalag með þessum nýfundnu vinum.
Þetta er í stuttu máli sögurþráðurinn skáldsögurnnar Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur. Guðrún er góður höfundur, stíllinn er léttur og sagan virkilega fyndin á köflum. Henni er einnig lagið að skapa sérstæðar og skemmtilegar persónur og þær eru auðvitað driffjöðurin í atburðarásinni. Hin stjórnsama Hildigunnur, kakógúrúinn, sem veit hvað er lærisveinum sínum fyrir bestu. Ingimar fylgir henni trúfastur en er með eigin ásetning á hreinu. Hán Lára þarfnast þess að vera hluti af einhverju og Sigríður er eins og alfræðiorðabók og hefur þörf fyrir að kenna öðrum. Og svo er það Ragnheiður ofurlítið týnd unglingsstúlka sem þarf hjálp. Saman tjaldar þetta fólk í Skaftafelli í Öræfum og segja má að hver og einn finni sinn sannleika á óvæntan hátt í íslenskri náttúru.
Hér er kaldhæðnin vissulega ráðandi og þótt brugðið sé upp grátbroslegum myndum af ýmsu sem fram fer meðal andlega leitandi fólks í sjálfshjálparhópum er höfundur ekki að dæma. Hún gerir ekki lítið úr viðfangsefninu eða persónum sínum þótt hún vissulega hæðist ofurlítið að þeim á stundum. Enginn skyldi gera of lítið úr áhrifum heitra drykkja. Bretar eiga sinn tebolla, Íslendingar kaffið og hví skyldi hið Suður-Ameríska kakó ekki búa yfir þeim mætti að vísa mönnum veginn.
Guðrún er áhugaverður höfundur og eiginlega aðdáunarvert að hún skuli hafa tíma til að skrifa. Hún er í meistaranámi í íslenskum fræðum, kennir forn-íslensku við Cornell-háskóla og er söngkona. Í Kiljunni nýlega sagðist hún sjálf hafa kynnt sér starfsemi kakóhópa svo hún þekkir bæði bragðið og óbragðið sem Hjalti finnur í bókinni. En ef þið eruð í leit að fyrirtaksafþreyingu og langar að brosa út í annað og stundum bæði er þetta fín bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2023 | 20:02
Þarf að gæta orða sinna?
Mér finnst orðræða í samfélaginu hafa breyst. Allir eru svo meðvitaðir um tjáningarfrelsið og rétt sinn til að hafa skoðanir að það gleymist að með þeim rétti fylgir sú ábyrgð að velja orð sín af kostgæfni og gæta þess að þau særi ekki eða ýti undir hatur og illsku í samfélaginu. Enskt orðtak segir að enginn geti fyllilega skilið annan fyrr en hann hefur gengið mílu í skónum hans. Þetta er góð speki vegna þess að í raun og veru er aldrei hægt að dæma nokkurt líf sé horft á það utan frá.
Þetta er líka svo skynsamlegt að allir finna að það er satt en samt gleymum við þessu reglulega og setjumst í dómarasæti yfir öðrum. Við þykjumst vita betur og skynja hinn eina stóra sannleika eða innstu rök tilverunnar. Auðvitað á þetta að vera svona og engan veginn öðruvísi. Það er sjálfsagt að fólk felli sig í það mót sem okkur finnst hentugast, enda passar það okkur og ætti því að vera fullgott fyrir alla aðra.
En einmitt þar liggur vandinn því þótt hjörtum mannanna svipi saman í Súdan og Grímsnesinu ber samt hvert hjarta einstaklingseinkenni. Þess vegna erum við öll jafnólík og fingraför okkar. Við getum því aldrei fullkomlega verið viss um að við höfum allar forsendur til að dæma aðra. Við getum dæmt en aðeins fyrir okkur sjálf, valið og hafnað eingöngu því sem snertir okkar líf. Þær tilfinningar sem bærast innra með hverjum einum eru einstakar og hver einasta manneskja á rétt á að velja sér stað í lífinu, gera upp við sig hvaða kyni hún, hann, kvár eða stálp tilheyrir. hvert hugur hennar hneigist í ástarmálum og hvernig hún kýs að nota líkama sinn og hugarafl. Hið sama gildir um val á lífsstíl, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum eða mataræði.
Hverju skiptir það hvort strákur kyssir strák, kvár eða stálp ef það veitir báðum hamingju? Er ekki nógu erfitt að höndla hamingjuna svona almennt til að við getum fagnað því innilega þegar einhverjum tekst það? Hvers vegna í ósköpunum látum við það ergja okkur að einhver kýs annars konar ástarsælu? Er ekki fjölbreytileikinn einmitt stærsta gæfa mannkynsins?
Umburðarlyndi verður að rækta. Það þarf að sá fræjum og vökva þau reglulega til að tryggja viðgang þessa þáttar í eðlinu. Helsti óvinur umburðarlyndisins er dramb. Sú tilfinning að þú hafir einhvers konar yfirburðastöðu og vitir því betur en samborgarnir. Þegar hrokinn nær yfirhöndinni er ekki von á góðu vegna þess að þá sest einstaklingurinn ekki bara í dómarasætið heldur telur sig þess umkominn að predika og neyða aðra inn á tiltekna braut. Ég hef aldrei getað skilið þá löngun. Frá barnæsku hefur efinn fylgt mér hvert fótspor. Efinn um að ég viti nákvæmlega hvað hentugast er hverju sinni, hafi rétt fyrir mér þegar ég fullyrði eitthvað, að ég sé að vinna verkin á besta mögulega hátt og oft efi um að ég sé að gera mitt besta. Vegna þessa hef ég aldrei verið fyllilega sannfærð um að mínar skoðanir séu þær einu réttu og að aðrir eigi að tileinka sér þær. Mér nægir að vita svona nokkurn veginn frá degi til dags að ég sé að gera það sem ég tel best fyrir sjálfa mig.
Ég leitast líka við að rækta með mér þolinmæði og skilning gagnvart mínum nánustu og vinna að því að styðja þá fremur en að kúga þá til að fara þær leiðir sem ég myndi kjósa þeim til handa. Vegna þess að þetta er heilmikið starf hef ég aldrei hafi tíma til að elta ólar við vandamál konunnar í næsta húsi eða hennar athafnir. Thomas Jefferson sagði að það skipti hann engu hvort nágranni hans héldi einn guð í heiðri eða tuttugu svo lengi sem enginn þeirri tæki upp á að stela frá honum eða fótbrjóta hann. Ég er eiginlega alveg sammála honum. En þótt ég myndi aldrei leggjast jafnlágt og þeir sem kjósa að dreifa hatursáróðri hvort sem það er undir yfirskini skoðana eða húmors verð ég að viðurkenna og senda það héðan út í kosmosið að mín skoðun er sú að gífuryrði skili aldrei árangri. Að forsmá kurteisi og virðingu í mannlegum samskiptum og kalla aðra öllum illum nöfnum sé ekki líklegt til að fá þá á þitt band eða skila þér því sem þú helst vilt ná fram. Þegar sturluðum vitfirringum og fávitum fer að fjölga í kringum þig er held ég komin ástæða til að líta í eigin barm. Who died and made you king? Er annað gott enskt máltæki. Hver skipaði þig í hlutverk siðgæðisvarðar, dómara eða hrópandans í eyðimörkinni sem einn sér hið rétta? Því er vandsvarað í öllum tilfellum. Nelson Mandela og Ghandhi sýndu heiminum fram á að ekki þarf að grípa til vopna eða þess að svívirða andstæðinginn til að ná sigri. Þeir eru að mínu mati fyrirmyndir sem fleiri mættu líta til.
Bloggar | Breytt 2.3.2023 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)