Eðlilegt að óttast óvissuna

TilHamingjuMedAdVeraTil_72-1Sigríður Soffía Níelsdóttir dansari og listamaður greindist með brjóstakrabbamein fyrir um það bil þremur árum. Hún nýtti veikindin sem innblástur í listaverk og gleðigjafa fyrir aðra. Meðal annars má nefna að hún hannaði ilmvatn og líkkjör úr blómum sem ræktuð eru á Íslandi og heitir það verkefni Eldblóm. Nýlega kom síðan út áhrifamikil ljóðbók, Til hamingju með að vera mannleg, og 19. apríl verður frumsýnt dansverk í Þjóðleikhúsinu með sama titli. Hann er tilvitnun í lækni sem Sigríður Soffía hitti á spítalanum á leið í meðferð. Ljóðin eru beinskeytt, lýsandi og stundum beinlínis upptalning á staðreyndum. Hún vísar einnig í orð annarra sem hafa veitt henni huggun og styrk og leikur sem með uppsetningu orðanna á síðunni. Allt þetta ber vott um svo skapandi og skemmtilegan huga að ekki er hægt annað en að hrífast með. Sigríður Soffía er þekkt fyrir eldverk sín, í formi flugeldasýninga á menningarnótt og hér er að finna sömu leikgleði, löngun til að hreyfa við og opna á nýjar túlkunarleiðir og form og skynja mátti í þeim. Ég naut þess að lesa þessa bók og harðákveðin í að skella mér í Þjóðleikhúsið. 


Matreiðslubók með fróðleiksmolum

downloadNýlega var mér bent á skemmtilega matreiðslubók. Uppskriftir Valerios frá Napólí. Ég hef alltaf verið hrifin af ítölskum mat og svo ég sló til og keypti eintak. Ég vissi hver Valerio Garigiulo var því bók hans Ótrúlegt ferðalag lunda frá Napólí hafði komið inn á borð hjá mér og það fallið í minn hlut að skrifa um hana. Sú saga var athyglisverð og hélt lesandanum allt til enda. Hið sama á við uppskriftirnar. Inn á milli eru áhugaverðir punktar um matarhefðir Napólíbúa, hráefnin sem þeir nota og þá hugmyndafræði sem býr að baki réttunum. Við kynnumst einnig sögu borgarinnar og persónu kokksins sem skrifar. Ég er þegar búin að prófa tvo rétti, rjómapasta með rækjum og hvítlauk og Caprese-salat sem ég hef reyndar gert áður. Bókin er ekki á fullkominni íslensku en það skipti mig litlu og ég átti auðvelt með að fylgja höfundi. Ef menn vilja prufa sig áfram í einfaldri, hollri og skemmtilegri matargerð gefur þessi bók fínt tækifæri til þess.


Hver var Roald Dahl

1397780-1Nýlega bárust fregnir af því að breskir bókaútgefendur hefðu farið í gegnum bækur Roald Dahl og hreinsað úr þeim ýmis orð og setningar sem ekki þykja passa við hugsunarhátt nútímans. Miklar umræður um réttmæti þess spunnust í kjölfarið en hver var þessi fyndni og skemmtilegi höfundur sem hafði lag á að þurrka út mörkin milli veruleika og ævintýra. 

Roald Dahl fæddist 13. september 1916 i Llandaff, Wales. Foreldrar hans Harald og Sofie fluttust frá Sarpsborg í Noregi til Bretlands árið 1880. Harald var ekkill og tveggja barna faðir þegar hann kynntist Sofie en eftir að þau gengu í hjónaband bættust þrjú börn í hópinn. Roald fékk gælunafnið „eplið“ af því að hann var augasteinn móður sinnar þ.e. the apple of her eye eins og Bretar segja enda eini strákurinn. Eigi að síður er undarlegt að segja þetta því móðir hans var fjarlæg og sýndi börnunum ekki mikla hlýju.

Alin upp við norskar þjóðsögur

Fyrsta mál Roalds og systkra hans var norska en faðir hans hafði mikla trú á bresku skólakerfi og vildi að börnin menntuðust í nýja landinu. Mikil áföll riðu yfir fjölskylduna árið 1920, en þá lést Astri systir Roalds aðeins sjö ára að aldri.  Banamein hennar var botnlangabólga og tveimur mánuðum seinna dó Harald úr lungnabólgu, en sagan segir að hann hafi dáið úr sorg yfir að missa Astri. Heimilið var efnhagslega vel statt og það hefur ábyggilega hjálpaði ekkjunni ungu en hún tók þá ákvörðun að snúa ekki aftur heim til Noregs.

Sumarfríum varði fjölskyldan hins vegar í gamla landinu og þar hlustuðu börnin á þjóðsögur um tröll og aðrar furðuverur. Glögg merki þessa má sjá í bókum Roalds þar sem ævinlega er stutt í hið óvænta, ótrúlega og yfirskilvitlega. Hann las mikið skáldsögur sem barn, en þótti ekki sérlega góður námsmaður, þrátt fyrir miklar væntingar móður hans til einkasonarins. Hann var sendur í heimavistarskóla, Repton í Derbyshire, til að undirbúa hann undir háskólanám. Skólum var stjórnað af hörku og jafnvel mætti tala um sadistískar hvatir hjá stjórnendum hans.

Roald hafði alltaf verið uppátækjasamur og honum var refsað harðlega fyrir skammarstrik sín. Hann fékk að finna fyrir staf skólameistarans og átti erfitt með að fyrirgefa hýðingarnar. Í sumum tilfellum virðast refsingarnar hafa verið með öllu tilhæfulausar og það átti drengurinn erfitt með að skilja, sérstaklega í ljósi þess að áhersla varð lögð í skólanum á kristna trú og bænir. Undanfarna áratugi hafa æ fleiri nemendur breska heimavistarskólakerfisins stigið fram og líst því ofbeldi sem þar var ríkjandi. Nemendurnir víða beittu hvern annan ofbeldi og oft voru ýmsar óskráðar reglur sem nýnemar fengu að finna fyrir. Roald slapp við ofbeldi af hálfu samnemenda, enda var hann rúmir 2 metrar á hæð og afar góður í íþróttum. Hann var kappsamur og keppti í nokkrum íþróttagreinum á vegum skólans, ásamt því að spila golf.

Vildi ekki fara í háskóla

RoaldDahl_Matthildur_Kapa-600x921Móðir Roalds vildi að hann héldi áfram námi og færi í háskóla en hann hafði ekki áhuga á því. Hann réð sig í vinnu til olíufyrirtækisins Shell í þeirri vona að vera sendur til Afríku en af því varð ekki fyrr en fjórum árum seinna en þá fór hann til Dar es Salaam í Tanzaníu. Seinni heimstyrjöldin braust út um um þetta leyti og Roald sótti um að komast í flugherinn. Hann varð einn af hinu þekktu bresku flugásum og styrjöldin varð vendipunktur í lífi hans. Eftir þjálfun var hann sendur til Egyptalands en þar var honum gert að fljúga flugvél af gerðinni Gloster Gladiator langa vegalengd og taka eldsneyti tvisvar. Þegar hann átti að lenda á áfangastað fann hann ekki flugvöllinn, varð eldsneytislaus og brotlenti í eyðimörkinni nálægt Alexandríu. Hann slasaðist illa í andliti, baki og mjöðm, en náði að skríða út úr vélinni áður en eldurinn læstist í bensíntankinn og sprengdi flugvélina.

Roald þurfti að gangast undir margvíslegar skurðaðgerðir og langan tíma tók að ná heilsu. Rannsókn leiddi síðar í ljós að honum hafði verið gefin upp röng staðsetning og í stað þess að senda hann á flugvöllinn var hann sendur út í eyðimörkina út í svokallað einskismannsland mitt á milli víglína bandamanna og ítölsku og þýsku hersveitanna. Ári síðar var hann útskrifaður og hann tók þátt í mörgum loftbardögum í Evrópu meðal annars þegar Aþena var frelsuð. Aftur var hann sendur til Afríku en þar fór hann að fá alvarlega höfuðverki og að lokum var hann leystur frá herþjónustu af heilsufarsástæðum. 

Hann var staðsettur í London árið 1942 þegar hann hitti utanríkisráðherra landsins á götu og sá sendi hann til Washington og sagt er að þar hafi hann starfað sem njósnari, ásamt félaga sínum Ian Fleming, höfundi James Bond. Lífið í Washington var ævintýralegt, en þar umgekkst hann fólk eins og Roosevelt forsetahjónin, Ernest Hemingway, Walt Disney og rithöfundinn C.S. Forrester, sem einmitt hvatti Roald til að skrifa. Roald fór að ráðum hans og fljótlega fóru sögur hans að birtast í virtum tímaritum. Hann þótti ekki góður penni í skóla en frá barnæsku hafði hann skrifað minningar sínar um ferðir fjölskyldunnar til Noregs og fleira. Roald skrifaði fyrstu barnabók sína The Gremlins árið 1942 fyrir Walt Disney. Bókin gekk ekki sérlega vel og Roald einbeitti sér að bókum fyrir fullorðna lesendur, hann skrifaði meðal annars metsölubækurnar Someone Like You árið 1953 og Kiss, Kiss árið 1959. Hann hafði einnig mikinn áhuga á ljósmyndun og var mjög góður ljósmyndari og afar sterkur bridds-spilari.

Hjónaband og barneignir

kalli-og-saelgaetisgerdinÁrið 1953 giftist Roald Hollywood-leikkonunni Patriciu Neal. Hún var virt leikkona og hafði meðal annars leikið aðalhlutverk í myndinni The Day the Earth Stood Still. Síðar sýndi hún tilþrif í aukahlutverki í Breakfast at Tiffany’s og árið 1964 vann hún Óskarsverðlaun fyrir hlutverk Ölmu Brown í Hud. Hún og Roald eignuðust fimm börn en þeim mættu miklir erfiðleikar og sorg. Árið 1960 lenti sonur þeirra Theo Matthew, þá fjögurra mánaða, í bílslysi í New York, þegar leigubíll keyrði á barnavagn sem hann var í. Theo varð fyrir áverka á heila sem olli þrýstingi, en tæknin sem læknavísindin höfðu þá yfir að ráða var afar áhættusöm. Í samráði við taugasérfræðing og vökvafræðisérfræðing, fann Roald upp ventil sem tekur þrýsting af heilanum. Þessi ventill heitir Wade-Dahl-Till (WDT) ventillinn. Theo litli hafði ekki þörf fyrir ventilinn þegar hann var tilbúinn en hann bjargaði ótalmörgum börnum allt þar til til önnur tegund kom fram. Þremenningarnir þáðu aldrei þóknun fyrir uppfinningu sína.

Annað alvarlegt áfall reið yfir fjölskylduna árið 1962 þegar elsta dóttir þeirra, Olivia Twenty fékk mislinga og lést. Roald varð talsmaður bólusetninga, enda hefði bólusetning bjargað lífi dóttur hans, ef hún hefði verið á boðstólum. Bóluefni gegn mislingum kom fyrst á markað í Bandaríkjunum ári seinna. Þetta var ekki allt því árið  1965 fékk Patricia alvarlegt heilablóðfall, þá ólétt af yngstu dóttur sinni, Lucy. Hún var í dái í þrjár vikur. Hún þurfti að læra að ganga og tala á nýjan leik. Roald studdi hana með ráðum og dáð og að lokum fór hún aftur að leika og lék allt fram til ársins 2009. Eftir þetta breytti Roald áherslum sínum og fór að sinna heimilinu meðfram ritstörfunum. Þau Patricia skildu árið 1983. Roald giftist Felicity Ann Crosland stuttu eftir skilnaðinn, en hún var góð vinkona Patriciu. Felicity stjórnar dánarbúi Roalds á myndarlegan hátt og hefur vakið athygli fyrir að vera fylgin sér gagnvart framkvæmdastjórum í Hollywood.

Fjölhæfur snillingur

9789935941961Þótt fyrsta barnabókin, Gremlins hafi ekki gengið vel gerði Roald aðra tilraun árið 1961 þegar Jói og risaferskjan kom út. Hún varð metsölubók og höfundurinn fylgdi henni eftir með Kalla og súkkulaðiverksmiðjunni. Hann var afkastamikill og á næstu árum bættust við ótal frábærar bækur meðal annars Georg og magnaða mixtúran, Matthildur, Refurinn frábæri og Nornirnar. Alls liggja eftir hann nítján barnabækur en hann skrifaði einnig handrit að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, ljóð og bækur fyrir fullorðna. Hann þótti einkar snjall smásagnahöfundur og margar sögur hans hafa ratað á hvíta tjaldið. Þar ber meðal annars að telja Charlie and the Chocolate Factory, Matilda og The BFG. Skammstöfunin stendur fyrir The Big Friendly Giant útleggst á íslensku Bergrisinn frómi góði. Leikarinn áststæli Ólafur Darri Ólafsson fer einmitt með hlutverk eins risans í myndinni, en þeir eru alls níu, vondu risarnir og gaman verður að sjá hvaða risa Ólafur Darri mun leika. The BFG mun verða sýnd í Sambíóunum og íslensk þýðing bókarinnar er væntanleg í sumar, útgefandi er bókaútgáfan Kver.

Roald Dahl lést í Oxford, 23. nóvember 1990, 74 ára að aldri, eftir stutt veikindi. Hann var aðdáendum sínum harmdauði, en sífellt bætast fleiri í þann hóp, enda eru töfrar ævintýranna slíkir að þau ná ávallt ákveðinni prósentu af hverri kynslóð á sitt vald.

 


Bretadrottning og bækur

Queen-books_Hero-Desktop_PenguinElísabet II Bretadrottning lést þann 8. september 2022. Hún var af kynslóð sem ólst upp við mikinn bóklestur og margar myndir eru til af henni frá í æsku og á unglingsárum með bók í hönd. Hún las líka mikið fyrir sín börn og falleg ljósmynd Anthony Armstrong-Jones af henni að lesa fyrir Önnu, dóttur sína var meðal þeirra sem birtust í blöðum eftir lát hennar.

Elísabet er þrettán ára þegar stríð brýst út í Evrópu. Hún átti sér þá uppáhaldsbók Moorland Mousie, safn smásagna er rekja líf hests frá því hann fæðist í Exmoor og greip hana reglulega og las meðan á stríðinu stóð. Á fullorðinsárum las hún til að slaka á, þá bæði skáldsögur, ljóð og leikrit en ógrynni ríkisskjala, lagafrumvarpa og annarra pappíra beið hennar í rauða boxinu á skrifstofunni á degi hverjum. Og Elísabet las þau öll í gegn. Hún var þekkt fyrir að undirbúa sig vel fyrir alla fundi með forsætisráðherrum sínum.

284346492ccd9e74734c68f925ef1641--queen-elizabeth-ii-english-royaltyHún elskaði hesta og las mjög gjarnan bækur sem fjölluðu um þá á einhvern hátt en var líka mjög hrifin af PD James um Adam Dalgliesh. Auk þess fannst henni mjög skemmtilegt þegar hún sjálf var gerð að persónu í barnabókum, m.a. Paddington eftir Michael Bond og BGF eftir Roald Dahl.


Fimm skemmtilegar staðreyndir um bækur

paul-melki-bByhWydZLW0-unsplashDýrasta bók sem sögur fara af var seld á 30.8 milljón dollara. Það var dagbók Leonardo Da  Vinci með teikningum af ýmsum uppgötvunum hans og enginn annar en Bill Gates keypti.

Á ensku er til orð yfir að elska lyktina af gömlum bókum. Orðið er vellichor og við þurfum að fá íslenskt nýyrði yfir þetta mjög svo áhugaverða hugtak, enda er mjög líklegt að fólk eigi eftir að nota það í miklum mæli í daglegu tali.

Lengsta setning sem vitað er til að hafi verið rituð í nokkra bók er 823 orð. Hún er í Vesalingunum eftir Victor Hugo, auðvitað.

Þegar bókaútgáfa byrjaði óttuðust menn að sögur og annað ritað mál myndi draga ungdóminn frá vinnu og ala upp ónytjunga. Reynt var að takmarka aðgang manna að rituðu efni og fleira til að draga úr hættunni á þessu. Ef einhverjum finnst umræðan kunnugleg þá má nefna hið sama var uppi þegar útvarpið kom, svo sjónvarpið, næst tölvurnar og nú snjalltæki.

Það er líka áhugavert að þegar bókaútgáfa var að stíga fyrstu skrefin voru nöfn höfunda almennt ekki höfð á bókakápum. Menn töldu það aukaatriði en áttuðu sig svo fljótt á að lesendur voru líklegri til að kaupa ef þeir þekktu höfundinn.


Listavel samin texti um stjórnsaman mann

AnneTyler-MorgansPassing2Morgan‘s Passing eftir Anne Tyler er einstaklega vel skrifuð skáldsaga, rétt eins og aðrar bækur hennar. Eins og venjulega eru persónurnar sérstakar í meira lagi, karlarnir hálfgerðir vinglar og kvenhetjurnar jarðbundnar, hæfileikaríkar og duglegar konur sem einhvern veginn sætta sig við það hlutskipti að halda þessum körlum sínum gangandi.

Sagan hefst þar sem ungt par er að sýna brúðuleik á svæði þar sem farandskemmtigarður hefur komið sér fyrir. Hætta þarf leiknum vegna þess að Emily Meredith er komin með hríðar og maður hennar Leon hleypur fram fyrir sviðið og spyr hvort læknir sé á staðnum. Morgan Gower gefur sig fram og býðst til að keyra þau á næsta sjúkrahús. Á leið þangað verður hann að stoppa og taka á móti barninu sem ætlar ekki að láta bíða eftir sér lengur. Ungu hjónin reyna síðar að hafa upp á þessari hjálparhellu en enginn læknir með þessu nafni finnst.

Næst fær lesandinn að kynnast Morgan betur. Hann er alls ekki læknir og mjög óánægður með líf sitt. Hann hefur ekki fengið tækifæri til að finna þann starfsvettvang sem hann vill sinna og er neyddur til að vinna í byggingarvöruverslun tengdaföður síns. Eiginkona hans og dætur eru sjálfum sér nægar og hafa lítinn áhuga á honum. Þess vegna villir Morgan reglulega á sér heimildir þegar hann er utan heimilis. Hann fer að fylgjast með ungu hjónunum og dóttur þeirra og í byrjun verður hann vinur beggja. Smátt og smátt þróast samband hans við Emily og þau verða ástfangin.

Fleira er ekki vert að segja lesandanum en bæði Leon og Morgan eru því marki brenndir að kunna vel við sig í hlutverkum. Leon er nefnilega leikari en gekk ekki vel að fá hlutverk og það er þess vegna sem hann og Emily stofnuðu brúðuleikhúsið. Emily á hinn bóginn þráir tengingu og fjölskyldu. Hún virðist hins vegar ekki hafa góðan smekk á karlmönnum fremur en aðrar kvenpersónur Anne Tyler. Þær nota sköpunarkraft sinn og útsjónarsemi til að sjá fyrir börnum sínum og ráðvilltum körlum sem flestir eru í leit að einhvers konar sjálfsmynd eða tilgangi; finna hann hins vegar ekki.

Samt eru þessir karlar ýtnir og stjórnsamir. Þeir taka yfir líf kvennanna og einhvern veginn láta þær reka á reiðann, gangast inn í umönnunarhlutverk sitt meðan þeir vafra um ráðvilltir og taka aðallega rangar ákvarðanir. Stundum er þetta óskaplega pirrandi og líklega myndi enginn endast til að lesa nokkra Anne Tyler-bók til enda ef ekki væri fyrir frábæran textann. Hún er líka snillingur í að byggja upp og lýsa persónum. Auk þess hefur hún lag á að skoða hlutina frá óvæntum og áhugaverðum sjónarhornum. Staða Morgans er til að mynda mjög sérstök. Hann er undir hælnum á eiginkonunni sem stjórnar heimilinu og lífi hans. Þau eiga eingöngu stelpur og nóg af þeim og þær líkt og móðirin hafa engan áhuga á föðurnum. Þeim nægir að hafa hver aðra og að á heimilinu gangi allt sinn vanagang. Kannski ekki undarlegt að Morgan hafi þörf fyrir að láta að sér kveða annars staðar og verða einhver annar en hann er. 

Svo er alltaf þessi tenging og samskipti kynslóða í hverri einustu bók. Þarna eru afar og ömmur inni á gafli og áhrifamikil í lífi barnanna. Stór, gömul hús mismunandi vel við haldið þar sem allir búa saman og iðulega eru húsin líkt og persónur í sögunni. Fyrrum unnustur, unnustar, eiginmenn, eiginkonur og elskhugar sem birtast oft óvænt eða hverfa. Systkini sem setja mark sitt á alla fjölskylduna og koma og fara. Hver og einn hefur svo sína sérvisku, sérstæð áhugamál, skrýtið tómstundagaman, óvenjulega hæfileika eða afar sérstæðan persónuleika. Þessi ringulreið fær einhvern veginn form og líkama í bókum Anne Tyler og fjölskyldur lifna við. Vissulega nokkuð einkennilegar þegar á allt er litið en engu að síður að berjast við að ná og viðhalda raunverulegum tengslum og um það fjalla bækur hennar, samskipti, tengingar, umburðarlyndi og kærleika milli manna. Velgengni eða nýting mikilla hæfileika verður aukaatriði og þrátt fyrir góðar gáfur og allar forsendur til að lifa innihaldsríku lífi ná persónur hennar sjaldnast flugi á veraldlegan mælikvarða en mikið lifandis, skelfing eru þær áhugaverðar.


Hvert orð skiptir máli

Urta_72_TilnÍslendingar eru ljóðelskt fólk og enn hendir það af og til að ljóðabækur rata á metsölulista bókaverslana. Það sýnir sig einnig að þegar eitthvað bjátar á og sorgin gerir sig heimankomna á leitar fólk ljóða til að tjá tilfinningar sínar, finna huggun og sýna samúð.

Ljóðalestur veitir mörgum mikið yndi en sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að hrynjandi þeirra, rím og orðanotkun hefur áhrif á önnur svæði heilans en annar lestur. Flestir menn eiga auðveldara með að leggja ljóð á minnið en aðra texta og myndmál örvar ímyndunarafl og óhlutbundna hugsun. Það er því full ástæða til að leyfa börnum að njóta ljóða og sömuleiðis ættu fullorðnir að taka oftar fram ljóðabækur heimilisins.

Til að lesa ljóð þarf ekki að tileinka sér neina sérstaka tækni heldur fyrst og fremst að leyfa tilfinningunum að ráða för en ekki sakar að hafa í huga nokkra gullna leiðarsteina þegar flett er ljóðabókum. Forvitni er einstaklega góður förunautur um lendur ljóða. Menn ættu hins vegar að skilja eftir allar fyrirfram gefnar hugmyndir um hvernig ljóð eigi að vera eða hvað sé ljóð. Við fyrsta lestur er gott að láta tungumálið tala til sín og kveikja hugmyndir. Forvitnin vekur hins vegar ævinlega spurningar og þá er komið að næsta skrefi.

Hvers vegna valdið skáldið einmitt þetta orð á þessum stað? Er einhver tilgangur með forminu? Segir takturinn eða hrynjandinn í ljóðinu eitthvað? Notar hann ljóðstafi? Rímar þetta? Og þá er komið að því að rýna. Markmið rýninnar er að skilja og túlka.

Leitin að merkingu

Þegar menn telja sig hafa fundið kjarnann í ljóðinu er kominn tími til að spyrja sig hvort form ljóðsins, tækni eða aðferðir sem skáldið notar bæti einhverju við. Falla áherslurnar þannig að verið sé að leiða lesandann að tilteknu svari eða er þetta allt opið? Einmitt þetta gerir ljóðið svo fjölhæft. Það þarf að þjálfa og rækta upp ljóðeyra líkt og tóneyra. Í hverju kvæði leynist tónlist og þegar menn hafa gripið taktinn er auðvelt að dansa.

Einn helsti óvinur þeirra sem eru að byrja að lesa ljóð eru þær fyrirfram gefnu hugmyndir sem þeir hafa um ljóðagerð, skáldskap og túlkanir. Lesendur sem eru vanastir því að lesa óbundið mál og samfelldan langan texta finnst oft ljóðið skorta dýpt. Það vanti frekari útlistun og þeir verða pirraðir ef þeir skilja ekki strax meininguna. Ljóðið verður nokkurs konar dulmálsskilaboð sem þeir leitast við að ráða, enda sé það alveg óskiljanlegt án lykilsins. Og vissulega geta ljóð verið erfið. Merkingin liggur ekki alltaf ljós fyrir og sum er mögulegt að túlka á marga mismunandi vegu. Lesandinn þarf ætíð að leggja eitthvað til svo hnýta megi endahnútinn á það sem skáldið byrjaði.

downloadHver og einn kemur með eigin reynslu, upplifanir og tungumálaskilning að borðinu og skapar þar með nýja vídd. Stundum er talað um skáldskaparíþrótt og þá má líta á skáldið sem þjálfara en lesandinn hnykklar sína sterkustu vöðva og treystir á að þeir skili honum að markinu. Það er ávallt gaman að reyna sig við eitthvað, leggja sig fram og finna að lokum þá ánægju sem fylgir því að hafa sigrað og náð markmiði sínu. Auðvitað þjálfast fólk svo í því að lesa ljóð og verður þaulvanir leikmenn á leikvanginum eftir vissan tíma og þá opnast orðið flest ljóð auðveldlega við fyrsta lestur. 

Bókmenntir af hvaða toga sem er hafa ætíð verið eitthvað sem fólk nýtur saman. Í baðstofunni las húsbóndinn og hinir hlustuðu og án efa hafa skapast fjörugar umræður eftir að lestri lauk. Menn og konur hafa mátað sig við söguhetjur, lifað sig inn í atburði og eftir atvikum dáðst að eða gagnrýnt höfundinn. Góð ljóð opinbera manni einhvern sannleik eða kveikja hugmyndir sem hafa legið sofandi langa stund. Bestu ljóðin hafa að auki einhvern töframátt. Þau draga mann til sín og orðin festast í huganum, hljóma þar aftur og aftur og vekja sömu tilfinningar.

Ljóð lesin upphátt

Sumir kjósa ævinlega að lesa ljóð upphátt. Það hjálpar vissulega. Hrynjandinn verður skýrari og hvernig línurnar skiptast getur eftir atvikum runnið þægilega í lestri eða skapað brot mili setninga og orða sem er mikilvægt á leið lesandans til skilnings. Það er líka notalegt að lesa upp. Við heyrum of lítið af upplestri nú á dögum og mikil nánd felst í að lesa fyrir aðra. Foreldrar og börn njóta þess á hverju kvöldi og engin ástæða til að pör eða fullorðnir leyfi sér ekki að halda þeim sið áfram. 

Sterkt samband er milli ljóða og tónlistar. Þær heilastöðvar sem kveikja tilfinningaleg viðbrögð þegar menn hlusta á tónlist verða einnig virkar þegar menn lesa ljóð. Sömuleiðis þær stöðvar sem stjórna hugarró eða hvíld þ.e. þær stöðvar sem fólk nærir í hugleiðslu. Mörg skáld hafa líka sagt að tónlist sé þeim innblástur og þeir lagi ljóð sín að ákveðinni tegund tónlistar þannig var bandaríska skáldið Langston Hughes til dæmis áhugamaður um djass og hlustaði þekkta músíkkanta þegar hann var að vinna. Í sumum tilfellum eru ljóð einnig sett upp til að minna á ákveðna tegund hjóðfæra og hvernig leikið er á þau. Stuttar línur, jafnvel eitt orð sem hljóma líkt og þegar blásið er stutt í horn, trompet eða önnur blásturhljóðfæri. Þagnir milli lína eða orða gegna einnig svipuðu hlutverki og þagnir í tónlist.

Ákveðin tegund nútímaljóða hefur einnig leitast við að brúa bilið milli ljóðlistar og myndlistar. Þá myndar formið mynstur eða lögun sem getur verið lykillinn að túlkuninni. Þessi aðferð hefur einnig mikið notuð meðal japanskra ljóðskálda frá örófi alda. Þetta kann að virðast flókið og sumum finnst það kannski auka enn á erfiðleikana með að finna einhverja merkingu í ljóðum. En þá er augljósa og einfalda lausnin oft aðgengilegust. Er tilgangurinn að minna á nótur, tóna eða er þetta samtal? Er formið skýrt? Tákn á borð við þríhyrninga, trapísur eða ferhyrningar segja flestum eitthvað. Ferhyrningurinn er til að mynda tákn um íhaldssemi og ósveigjanleika meðan trapísan er uppreisnargjarnari mýkri og vinalegri.

Á bak við orðin 

Á bak við orðin í ljóðinu liggur boðskapurinn, tilfinninging og það sem hrífur. Þess vegna getur verið gott að lesa ljóð orð fyrir orð og velta fyrir sér hvað þau þýða ein og sér og einnig í þessu samhengi. Einhverjir kraftar eru ævinlega að verki og líkt og gott getur verið að taka í sundur bílvél og setja hana saman aftur til að skilja hvað knýr mótorinn getur verið áhugavert að skoða hvert orð jafnvel hvert atkvæði fyrir sig áður en ljóðið er endanlega túlkað. En að því sögðu er kannski best að velta hlutunum ekki of mikið fyrir sér og taka einfaldlega upp ljóðabók, lesa, upplifa, skoða og njóta.


Sérvitur einfari

imagesEinn athyglisverðasti rithöfundur samtímans Cormac McCarthy er einn þeirra er kjósa að halda sig fjarri sviðsljósinu. Hann skaust óvænt upp á metsölulista allra bókaverslana þegar Oprah valdi bók hans The Road til lestrar í bókaklúbbi sínum árið 2006. Í kjölfarið kom hann í viðtal í þætti Opruh og rétt áður en frumsýna átti kvikmynd gerða eftir bókinni kom hann fram ásamt Coen-bræðrum sem framleiddu hana. Síðast komst Cormac í opinbera umræðu eftir að einhver lak á netið hluta úr óútgefinni bók eftir hann árið 2016.

Bókin heitir The Passenger og Cormac las upp úr henni á uppákomu á síðasta ári. Einhver tók upp upplesturinn og setti á YouTube og þá tók annar við keflinu og hafði fyrir að skrifa upp allt sem hann las og senda áfram. Höfundurinn hefur biðlað til allra er nota netið að deila ekki áfram þessum köflum því bókinni er ekki lokið og hann segir ekki einu sinni víst að hann muni nokkru sinni senda hana áfram til útgáfu. Hann biður því alla að virða rétt sinn til eigin verka.

Bækur hans falla alls ekki að smekk meirihluta lesenda. Heimssýn hans er dökk og þótt flestir geti verið sammála um að hann er mikill meistari orða og stíls er efnið einfadlega stundum og þungt og hægt til að það sé líklegt til höfða til almennra lesenda. Hins vegar brá svo við að þegar Oprah valdi On the Road sem lesefni að fólk sem aldrei hafði látið sér detta í hug að lesa þennan höfund hreifst af textanum og eldri bækur hans selldust í kjölfarið eins og heitar lummur. 

Býr fjarri skarkala heimsins 

Cormac er sérvitur einfari, ekki ólíkur þeim J.D. Salinger og Harper Lee. Þau kusu öll að draga sig í hlé frá skarkala heimsins og veita sjaldan viðtöl og koma ákaflega sjaldan fram opinberlega. Charles McCarthy fæddist 20 júlí árið 1933 í Providence á Rhode Island. Hann var þriðji í röð sex systkina. Nafni hans var breytt í Cormac, sumir segja eftir írska fornaldarkonunginum en aðrir halda því fram að fjölskylda hans hafi frekar kosið gelísku útgáfuna af nafni hans og þess vegna kosið að hafa það þannig. Cormac hóf háskólanám árið 1951 en hætti og gekk í flugherinn. Hann sneri aftur til að ljúka námi árið 1957 en hvarf frá námi án þess að útskrifast árið 1959. Þótt ekki fengi hann prófskírteini fór hann ekki alveg tómhentur úr skólanum því hann vann Merrill-Ingram ritlistarverðlaunin árið 1959 og 1960 fyrir sögur sínar A Drowning Incident og Wake for Susan.

08Cormac2-superJumboEftir að hann hætti í skólanum fluttist hann til Chicago og vann fyrir sér sem bifvélavirki. Hann giftist Lee Holleman sem hafði verið honum samtíða í háskólanum og þau eignuðust saman soninn Cullen. Hann skildi við hana áður en fyrsta skáldsaga hans The Orchard Keeper kom út árið 1965. Þá hafði hann gert útgáfusamning við Random House og ritstjóri hans þar var Albert Erskine sem árum saman hafði unnið með William Faulkner. Það er skemmtileg tilviljun sérstaklega í ljósi þess að Faulkner og Herman Melville eru þeir tveir höfundar sem Cormac segir að hafi haft mest áhrif á skrif sín. 

Um svipað leyti fékk hann styrk til að ferðast til Evrópu og hugðist hann m.a. heimsækja Írland og Blarney-kastala þar sem nafni hans Cormac réð ríkjum á þriðju öld eftir Krist. Um borð í skipinu á leið yfir Atlantshafið tókust ástir með honum og söngkonunni og dansaranum Anne DeLisle sem ráðin hafði verið til að skemmta farþegum. Þau giftust á Englandi árið 1966. 

downloadÞau sneru aftur til Bandaríkjanna árið 1967 og Outer Dark var gefin út um svipað leyti. Þau settust að í gamalli hlöðu rétt fyrir utan Louisville í Tennesse árið 1969 og Cormac hellti sér út í endurbygginguna, m.a. lagði hann steinvegg í húsinu einn og sjálfur og sömuleiðis hjó hann og þurrkaði í viðarofni mikið af timbrinu sem fór í bygginguna. Hjónabandið entist ekki og árið 1976 skildi hann við Anne og flutti til El Paso í Texas þar sem hann býr enn. Vinsælustu bækur hans til þessa eru landamæratrílógían en fyrsta bókin í þeirri röð er All the Pretty Horses sem gerð var kvikmynd eftir árið 2000. Í dag er Cormac giftur Jennifer Winkley og á með henni soninn John. Drengurinn er átta ára og sagt er að hann hafi verið föður sínum innblástur að sögunni The Road. 


Ráðvilltir karlmenn en bestu skinn

downloadNick Hornby er athyglisverður og bráðskemmtilegur rithöfundur. Hann skrifar um ofurlítið ráðvillt fólk sem á erfitt með að taka ábyrgð  en eru þó bestu skinn inn við beinið. Í flestum tilfellum átta söguhetjur hans sig á því að lífið er betra ef menn gefa af sér og taka þá áhættu að tengjast öðrum.

Nicolas Peter John Hornby fæddist 17. apríl 1957 í Redhill í Surrey. Hann er sonur Sir Derek Hornby stjórnarformanns Continental-járnbrautanna og Margaret Audrey Hornby, fæddri Withers. Foreldrar hans skildu þegar Nick var ellefu ára en hann ólst upp í Maidenhead og gekk þar í skóla. Hann lauk síðan gráðu í ensku frá Cambridge-háskóla. Nick er ákaflega fjölhæfur því auk skáldsagna skrifar hann handrit, ritgerðir, blaðagreinar og dægurlagatexta. Flestar ritgerða hans fjalla um popp- og rokktónlist en hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á dægurmenningu.

Sagt er sumar bækur hans séu að hluta til sjálfsævisögulegar en hann hefur ávallt neitað því nema að í Fever Pitch sé aðalsöguhetjan að einhverju leyti byggð á honum sjálfum, enda er þar á ferð fótboltafrík sem setur liðið sitt ofar nánast öllu í lífi sínu en þessi bók hlaut William Hill Sports Book of the Year-verðlaunin árið 1992. Nick er mikill áhugamaður um fótbolta og heldur með Arsenal. Tónlist er annað áhugamál og sjálfur safnar hann vinyl-plötum eins og Rob Gordon í High Fidelity

About a Boy er þekktasta bók hans til þessa og myndin sem gerð var eftir henni, með Hugh Grant í aðalhlutverki, fór sigurför um heiminn. Að segja að bókin sé betri er kannski erfitt en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir að lesa næmar og einstaklega fallegar lýsingar Nicks á sálarlífi tólf ára drengs. Bókin er í léttum dúr en sum atriðin eru svo falleg og skrifuð af svo mikilli snilld að það getur komið út tárunum á flestum konum og margir karlmenn þurfa áreiðanlega að ræskja sig. Kannski ekkert undarlegt að bókin hafi hlotið E.M. Forster-verðlaunin og verðlaun Amerísku akdemíunnar.

Henta vel sem kvikmyndahandrit

712FN95oP3LReyndar hafa verið gerðar kvikmyndir eftir flestum bókum hans, tvær eftir Fever Pitch, ensk útgáfa þar sem Colin Firth var í aðalhlutverki og svo amerísk þar sem Jim Fallon lék forfallinn Red Socks Fan en ekki þótti líklegt að amerískir áhorfendur gætu skilið ástríðufullan áhuga karlmanns á breska fótboltaliðinu Arsenal. Árið 2002 kom út smásagnasafnið Speaking With Angels en Nick ritstýrði því. Þar er að finna tólf smásögur eftir hann og vini hans og hluti ágóðans rann til TreeHouse-samtakanna, góðgerðafélags er vinnur að hagsmunum barna með einhverfu en Nick á einhverfan son.

A Long Way Down kom út þremur árum seinna en þar er tekist á við kvíða, þunglyndi og sjálfsvíg. Þótt þemað hljómi ekki beint glaðlega er bókin engu að síður mannleg, falleg og þar er nóg af þeirri skemmtilegu kímni sem Nick hefur til að bera í ríkum mæli. Sjálfur hefur Nick talað hreinskilnislega um glímu sína við þunglyndi en hann hefur af og til verið bitinn illa af svarta hundinum. Kvikmynd eftir sögunni var frumsýnd 2014 og léku Pierce Brosnan, Toni Collette, Imogen Potts og Aaron Paul aðalhlutverkin.

Unglingasagan Slam og kom næst og síðan Juliet Naked en þar fjallar hann um gleymdan popptónlistarmann sem neyðist til að stíga fram í sviðljósið aftur þegar tónlist hans er endurútgefin. Í flestum bókum Nick eru aðalpersónurnar hlédrægar manneskjur sem kunna best við einveruna. Nýjasta bókin er Dickens and Prince en hana hef ég ekki lesið. Funny Girl var sú síðasta sem kom fyrir mín augu en hún fjallar um fegurðardís frá sjöunda áratugnum sem ætlar sér stóra hluti í gamanþáttum í sjónvarpi.


Truman Capote og týnda handritið

Truman_Capote_by_Jack_MitchellUpp úr miðri síðustu öld var Truman Capote einn virtasti rithöfundur Bandaríkjanna. Hann var einnig vinsæll meðal elítunnar og hans bestu vinir voru ríkir, frægir, fallegir og dáðir. Þegar hann hóf að skrifa skáldsöguna Answered Prayers sneru þeir flestir við honum baki eftir að það hafði spurst út að bókin yrði byggð á lífi þeirra.

Truman var einmana allt sitt líf. Foreldrar hans skildu þegar hann var fjögurra ára og móðir hans sendi hann í fóstur til ættingja. Þar tengdist hann gamalli frænku sinni órjúfanlegum böndum. Hún hét, Nannie Rumbley Faulk en hann kallaði hana Sook. Hann kenndi sjálfum sér að lesa fjögurra ára gamall og var eftir það oftast með nefið ofan í bók. Átta ára ákvað hann að gerast rithöfundur en margir telja að besta vinkona hans í barnæsku og út lífið, Harper Lee, hafi byggt persónu Dill, besta vinar Jem og Scout, á honum. Hann hafði mjög skæra og bjarta rödd og hún einkenndi hann allt hans líf. Hann var samkynhneigður og fór ekki leynt með það. Elskhugi hans til margra ára Jack Dunphy skrifaði eftir lát hans bók um samband þeirra og lýsti þeim Truman sem hann einn þekkti. Þeir bjuggu hins vegar ekki alltaf saman aðallega vegna þess að Jack fannst erfitt að horfa upp á Truman neyta eiturlyfja og drekka svo ótæpilega að það ógnaði heilsu hans.  

 

En aftur að skáldsögunni sem týndist. Hún átti að verða svanasöngur Trumans sem höfundar og hann lagði sál sína í verkið. „Bókin heitir Answered Prayers (Bænheyrsla) og ef allt fer vel verður hún svarið við mínum bænum,“ skrifaði Truman í bréfi til útgáfustjóra síns hjá Random House. Þetta var sumarið 1958 og Truman dvaldi á Grikklandi við skriftir. Hann sagði einnig að bókin ætti að sín útgáfa af In Search of Lost Time eftir Marcel Proust og að stundirnar sem hann varði með vinum sínum við drykkju og skemmtanir væri hann við efnisöflun. Þegar hann lést tuttugu og sex árum síðar á heimili Joan Carson, vinkonu sinnar, fannst hins vegar hvorki tangur né tetur af handritinu.

Má rithöfundur skrifa um raunverulegt fólk?

imageÞað varð útgefendum hans dýrt því þeir höfðu þá greitt honum eina milljón dollara í fyrirframgreiðslu út á þessa væntanlegu metsölubók og enn í dag er mönnum hulin ráðgáta hvort handritið hafi nokkru sinni klárast eða almennt verið meira og stærra í sniðum en tveir kaflar. Þá hafði Truman birt í tímaritinu Esquire árið 1975 og 1976. Sá fyrri fékk yfirskriftina Mojave og var byggður á stormasömu hjónabandi vina hans, Williams S. Paley og Babe Paley. Hann lýsti framhjáhaldi, drykkju, tilfinningalegum uppþotum og fleiru en skrifin fengu lítil viðbrögð. Sá síðari, La Côte Basque, vakti hins vegar bæði umtal og hneykslan, enda snerist hann um líf og hegðun nokkurra ríkustu kvenna Bandaríkjanna. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um hvað höfundar gætu leyft sér að ganga langt í lýsingum á raunverulegum persónum og atburðum.

Sú deila er svo sem ekki ný af nálinni. Truman hafði áður skrifað skáldsöguna, In Cold Blood, byggða á raunverulegu morðmáli. Hann heimsótti bæinn Holcomb í Kansas þar sem fjölskylda hafði verið myrt á heimili sínu og talaði við lögreglustjórann og bæjarbúa áður en hann hóf að skrifa. Margir þeirra voru honum reiðir eftir á og sögðu að hann hefði farið mjög frjálslega með það sem hann upplifði og heyrði. Í La Côte Basque gekk hann enn lengra. Hann skrifaði margar vinkvenna sinna, miðaldra konur, inn í söguna, m.a. Jaqueline Kennedy Onassis, Lee Radziwill, Gloriu Vanderbilt, Slim Keith, Cloriu Guiness og Carol Matthau. Í mörgum tilfellum hafði hann ekki einu sinni fyrir því að breyta nöfnum þeirra og viðrar ýmsar beinagrindum úr lokuðum skápum. Þarna var talað um framhjáhald eiginmanna þeirra, morð á einum eiginmanni, mennina sem sluppu og eiginmennina sem þær voru búnar að gleyma, pilluát þeirra og skuldir.

38610552-0-image-m-28_1611873365449Þetta var í raun félagslegt sjálfsmorð. Allir vinir hans sneru við honum baki og Truman átti ekki annað svar en að drekkja sorgum sínum í aukinni áfengis- og eiturlyfjaneyslu. Hann lést 25. ágúst árið 1984 mánuði fyrir sextugsafmæli sitt. Að baki átti hann ótrúlega glæstan feril og flestar bækur hans og margar smásögur höfðu ratað á hvíta tjaldið. Breakfast at Tiffany‘s er flestum í fersku minni en einnig kvikmynd frá árinu 1967 gerð eftir In Cold Blood. Árið 1996 var svo gerð sjónvarpsþáttaröð byggð á bókinni. Truman var aðeins tuttugu og þriggja ára þegar hans fyrsta skáldsaga var gefin út, Other Voices, Other Rooms, en það er uppvaxtarsaga Joels Knoxs. Hann er þrettán ára og nýbúinn að missa móður sína. Hann er sendur til New Orleans til að búa hjá föður sínum sem hann hefur aldrei séð því sá stakk af þegar Joel fæddist. Þegar hann kemur kemst hann að því að faðir hans er lamaður. Lesandinn fær að kynnast tilfinningum hans og viðleitni til að lifa með nýjum erfiðum aðstæðum. Margir telja að í þessari bók geri Truman upp eigin æsku.

Ekki alltaf rétt með farið

Það var hins vegar bókin In Cold Blood sem færði höfundinum bæði frægð og auð. Árið 1959 skók morðið á Clutter-fjölskyldunni Bandaríkin. Hjónin, Herb og Bonnie Clutter bjuggu ásamt börnunum sínum, Nancy og Kenyon á bóndbæ rétt fyrir utan Holcomb. Tveir síbrotamenn, nýlega sloppnir úr fangelsi, Perry Smith og Richard Hickock voru fundnir sekir um morðin en ástæðan var sú að samfangi þeirra, Floyd Wells, hafði unnið fyrir Herb og sagt þeim að hann geymdi oft stórar upphæðir í lausafé á bænum. Þetta voru óhugnanleg og andstyggileg morð framin af græðgi eingöngu. Truman dvaldi í bænum ásamt Harper Lee og þau tóku viðtöl við marga bæjarbúa og fagfólk sem kom að málinu. Þegar bókin kom út varð hún strax umdeild og margir töldu að farið væri frjálslega með sannleikann og mikið skáldað í eyðurnar. Truman svaraði því til að að þetta væri skáldsaga byggð á raunverulegum atburðum.

downloadEn velgengni bókarinnar varð til þess að Truman átti greiðan aðgang að bandarísku elítunni. Hann kynntist eiginkonum verksmiðjueigenda og auðjöfra og var heimagangur hjá ameríska aðlinum en það eru fjölskyldur á borð við Kennedy, Vanderbilt, Rockefeller og fleiri kallaðar þótt enginn titill fylgi. Hann eignaðist margar vinkonur meðal þessar kvenna og kallaði þær svanina sína. Hann hélt þeim boð og fór með þeim í hádegisverð tvisvar í viku. Hann sagði þeim sögur og baðaði þær í aðdáun. Þetta voru konurnar sem hann síðar skrifaði svo um í La Côte Basque.

En hann var ekki bara besti vinur kvenna. Hann umgekkst stjórnmálamenn, listamenn og kvikmyndastjörnur. Það er þess vegna ekkert undarlegt að útgefendur hafi verið tilbúnir til að borga honum góða summu fyrirfram fyrir bók byggða á sögum af þessu fólki. Þessir tveir fyrstu kaflar bentu að minnsta kosti til þess að meira feitt kjöt væri á beinunum. En árin liðu og ekkert bólaði á handritinu. Tíu árum eftir að hann skrifaði bréfið um svanasöng sinn til útgefandans var mönnum tekið að lengja eftir að bókin kæmi fyrir almenningssjónir. Hann var þó alls ekki verklaus því hann skrifaði handrit að sjónvarpsþáttum og smásögur en hélt áfram að ýja að því að von væri á stórvirki. Í viðtali á bandarískri sjónvarpsstöð sagði hann: „Þetta er það sem ég er að skrifa um, elskan. Ég er að skrifa um alla sem ég hef hitt um ævina svo gætið ykkar.“

Úr þúsundum karaktera að velja

Árið 1969 var hann kallaður á fund hjá Random House og þeir sömdu við hann um að hann skilaði þeim þremur bókum fyrir lok september 1973 og þar á meðal hinni margumtöluðu Answered Prayers. Hann fékk 750.000 dollara greidda fyrirfram í höfundarlaun og þurfti því ekki að svelta. Hann ræddi um það leyti um Answered Prayers og kallaði bókina aðalverk sitt og sagði: „...nánast allt í henni er dagsatt. Ég hef úr þúsundum karaktera að velja. Bók mín á eftir að gera fyrir Ameríku það sem Proust gerði fyrir Frakkland.“ Þar var hann auðvitað að vísa í Leit að týndum tíma.

1129_capoteEn september 1973 leið án þess að Truman skilaði nokkru af sér. Hann skrifaði kvikmyndahandrit byggt á skáldsögu F. Scott Fitzgerald, The Great Gatsby en því var hafnað af kvikmyndaverinu. Út kom smásagnasafn sem fékk fremur blendnar viðtökur gagnrýnenda. Meðal efri stéttarinnar ríkti hins vegar fimbulkuldi og það að útiloka Truman Capote varð viðtekin venja og nokkuð sem þau öll gerðu. Þótt margt af því sem kom fram La Côte Basque, væri velþekkt og hefði áður komið fram í slúðurdálkum blaðanna litu menn samt almennt þannig á að Truman hefði brugðist trausti sinna allra nánustu vina og honum væri því ekki treystandi.

Hvers vegna hann gerði það hefur verið mönnum tilefni til vangaveltna síðan hann lést. Sumir segja að hann hafi skrifað á þennan illkvittna hátt um þessar konur vegna þess að hann hafi verið orðinn þreyttur á að vera leikfang þeirra eða hirðfífl. Aðrir vilja meina að hann hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir að skrifunum yrði tekið á þennan hátt. Hann hafi haldið að flestir vissu þetta þegar og því væri varla um neina goðgá að ræða. Kelleigh Greenberg-Jephcott höfundur Swan Song, skáldsögu um Truman Capote og útskúfun hans telur að alla ævi hafi hann notfært sér sögur annarra og fléttað þeir inn í skáldskap sinn. Hann hafi ávallt fengið mikið hrós fyrir þetta allt frá því hann tíu ára vann verðlaun fyrir smásöguna Old Mr Busybody. Þetta hafi þess vegna alls ekki virst neitt öðruvísi í hans huga.

Lögsóttur fyrir meiðyrði 

En Truman var greindur maður og það þarf svo sem ekki snilling til að reikna út samhengið. Hann mátti varla við því að tapa öllum sínum vinum og stjórnmálamenn eru ekki þekktir fyrir að taka því þegjandi sé að þeim vegið á opinberum vettvangi. Það var því góð og gild ástæða fyrir því að hann skilaði ekki af sér handriti þrátt fyrir ótal setta skiladaga um tveggja áratuga skeið. Hann var líka niðurbrotinn maður þótt hann héldi áfram að tala digurbarkalega um bókina sem öllu myndi breyta. Babe Paley, besta vinkona hans, talaði aldrei við hann eftir Mojave og hún lést úr lungnakrabba þremur árum síðar. Truman var ekki boðið að koma í jarðarförina. Honum þótti það ofboðslega leitt og lokaði sig af í þakíbúð sinni í Manhattan með gluggatjöldin dregin vandlega fyrir og hafði ekki samband við neinn.

71gaxaCM2lL._AC_UF1000,1000_QL80_Um þetta leyti fór Truman að sækja næturklúbbinn Studio 54. Þar var diskótónlistin allsráðandi og Andy Warhol gekk um með hirð af alls konar fólki í kringum sig. Hann og vinir hans voru ævinlega með birgðir af kókaíni, hugbreytandi pillum og öðrum vimuefnum meðferðis og Truman tók þátt í partíinu af lífi og sál. Hann birti einn kafla enn úr Answered Prayers, yfirskrift hans var Unspoiled Monsters og birtist í maí 1976. Sá vakti litla athygli en Truman hafði brátt um annað að hugsa. Hann hafði sagt frá því í viðtali við Playgirl að rithöfundinum Gore Vidal hefði eitthvert sinn verið hent út úr boði í Hvíta húsinu vegna ölvunar og andstyggilegrar hegðunar. Gore Vidal hóf lögsókn á hendur starfsbróður sínum og vildi fá milljón dollara í skaðabætur fyrir meiðyrði. Söguna hafði Truman eftir Lee Radziwill en hún skrifaði undir eiðsvarna yfirlýsingu þar sem hún kannaðist ekkert við að hafa séð nokkuð þessu líkt til Gore í þessu boði. Að lokum var gerð sátt í málinu og það fór aldrei fyrir dóm.

Eftir lát Trumans hófst leit að handritinu að Answered Prayers og einhver brot fundust. Þau voru gefin út árið 1986 Answered Prayers: The Unfinished Novel en þetta var lítið meira en kaflarnir þrír sem þegar höfðu verið birtir. Joanne Carson segist hafa lesið þrjá kafla í viðbót sem Truman hafi sýnt henni skömmu áður. Truman hafði einnig fengið henni lykla að öryggishólfi og sagt að þar væri að finna fleiri kafla úr bókinni. Fleiri hafa fullyrt að þeir hafi séð fullbúið handrit, fengið að halda á því og lesa suma kafla. En margir vina hans bera þetta til baka og segja að hann hafi einfaldlega aldrei getað komið sér að verki og klárað. Hann var auðvitað langt leiddur fíkill.

Kelleigh Greenberg-Jephcott telur að það hafi vel getað verið auðar síður. Það hefði verið í anda Trumans að hafa með sér slíkt handrit í partí og stæra sig af innihaldinu þótt þar væri lítil innistæða. „Hann hafði eitthvað yfir eins og hann væri að lesa,“ segir hún. „En fólk heyri sömu kaflana lesna aftur og aftur og Capote hafði skipulagt söguna vandlega. Það hefði því verið auðvelt að trúa því að stór hluti af Answered Prayers hafi verið tilbúin eða fullbúin.“

En hvort sú var raunin eða ekki verður ekki auðvelt að finna út með fullri vissu. Að vísu fannst enn einn kafli, Yachts and Things, meðal annarra pappíra í skjalasafni Trumans í New York Public Library og var birtur í Vanity Fair árið 2012. Ráðskona hans bjargaði einnig skáldsögunni Summer Crossing úr ruslafötunni á heimili hans og hún var gefin út eftir lát hans. En hann var mikill fullkomnunarsinni og því mjög líklegur til að eyðileggja heilu handritin ef þau voru að hans mati ekki nægilega góð. Margir telja að það hafi einmitt gerst með Answered Prayers. Höfundurinn hafi ekki verið nægilega ánægður og þess vegna hent handritinu, fremur en að vinna frekar að bókinni. Hafi hann hins vegar lokið bókinni og unnið hana af sömu snilli og sínar fyrri sögur er aldrei að vita nema vinir hans hefðu þakkað honum fyrir að gera sig ódauðlega fremur en að móðgast yfir trúnaðarbresti hans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband