26.2.2007 | 12:51
Mismunandi viðhorf
Við Svava fórum með Freyju að labba úti við Gróttu í gær. Þar var svo mikið rok að við systur hrökkluðumst fljótt í bílinn aftur. Tíkin var reyndar á því að ekkert væri að veðri en við vorum henni ekki sammála. Á leið í bílinn sungum við: Kaldar systur skrönglast hér, sælan löngu liðin er ekki er hér yl að fá, ekki þarf að því að gá. Freyja söng aftur hástöfum: Hér er mikið og mátulegt fjör, vindur rífur fólk úr hverri spjör, feldur minn er feiknahlýr, enda er ég heimskautadýr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2007 | 11:55
Eru tímarit ekki fjölmiðlar?
Ég horfði á Silfur Egils í gær og varð satt að segja undrandi þegar ég heyrði Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fullyrða og hafa eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur að hún væri eini kvenritstjórinn á Íslandi. Mér hnykkti vægast sagt við og ekki var nóg með að Steinunn Valdís endurtæki þetta tvisvar heldur mótmælti henni enginn af þeim sem sátu við borðið og að auki tók Egill undir með henni. Ég veit ekki betur en að Elín Arnar ritstýri Vikunni, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir Nýju Lífi, Steinunn Stefánsdóttir Fréttablaðinu og ég h-tímariti. Reyndar er sú tilhneiging ríkjandi að telja fréttamiðla á einhvern hátt æðri en tímaritin þannig að hugsanlega höfum við gleymst af þeim sökum en Steinunn hefði þá alla vega átt að fá sinn sess hjá Silfurfólkinu. Mér er svo sem sama þótt ég hafi gleymst en það fer óneitanlega í taugarnar á mér þessir leiðinlegu fordómar gegn tímaritum. Ég og aðrir sem vinnum á slíkum ritstjórnum vitum að þar er vandað til verka og íslensk tímarit hafa oft vakið fyrst máls og merkilegum málefnum og skapað umræðu sem þörf var á. Ég get til dæmis nefnt að þegar ég var á Vikunni skrifaði ég grein um tengsl hormónainntöku kvenna á breytingaskeiði og krabbamein. Sú umræða var hálfum mánuði seinna tekin upp í Kastljósi hið sama gildir um umræðuna um geðlyf og aðgerðarleysi í málefnum þeirra sem þurfa á því að halda. Ári áður en Kastljósið tók þetta upp hafði ég skrifað grein í Vikuna og tekið viðtal við unga konu sem fékk stöðugt uppáskrifuð lyf frá lækni sínum en engar ábendingar um aðra meðferð. Það var ekki fyrr en hún keypti sér sjálf námskeið hjá Bergþóru Reynisdóttur hjúkrunarfræðing að það rann upp fyrir henni að hún þyrfti ekki endilega að taka lyf. Margt fleira gæti ég nefnt en mér finnst það síst sitja á borgarstjóranum fyrrverandi og núverandi borgarfulltrúa að gera lítið úr miðlum sem fyrst og fremst eru ætlaðir konum og skrifaðir af konum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 09:40
Af hattaáti og annarri áráttu
Jæja ég losna við að éta hattinn minn því Forest Whitaker fékk óskarinn. Ég hafði lofað því hér á þessari síðu að snæða þetta þarfaþing mitt ef Forest fengi ekki styttu með sér heim. Svava systir var búin að lofa að sitja yfir mér þar til hver einasta ullararða úr hattinum væri snædd en segja má að þarna hafi skollið hurð nærri hælum og ég get staðið upp og haldið óskarþakkarræðu líka og þakkað akademíunni fyrir að velja rétta manninn. Ég er nokkuð gjörn á að lofa svona upp í ermina á mér líkt og herra Wilkins Micawber í David Copperfield. Wilkins hafði sjaldnast rétt fyrir sér og hefði því, ef alls réttlætis hefði verið gætt, átt að éta þónokkuð marga hatta. Hann slapp vegna þess að hans nánustu kusu að sleppa honum við að standa við stóru orðin. Ég veit hins vegar að Svava hefði ekki sýnt mér nokkra miskunn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)