14.4.2007 | 19:36
www.htimarit.is
Það er gersamlega óþolandi að geta ekki birt athugasemdir í gegnum þessa tölvu. Ég vona sannarlega að vefstjóra moggabloggsins kveiki á þessu og lagi það. En Katrín mín Snæhólm og aðrir sem vilja kíkja á blaðið á Netinu það er hægt að skoða það á www.htimarit.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2007 | 18:49
Konur og klæðaburður
Ég fékk það komment við nýju forsíðuna mína að hún bæri vott um karlæga afstöðu mína til kynhlutverka. Ég varð undrandi á þessu vegna þess að ekkert var fjær mér en karlremba þegar ég ræddi við stílistann um forsíðurnar. Við ákváðum að reyna að láta myndirnar endurspegla fólkið sem var í viðtali. Reynir Harðarson skóp tölvuleikinn Eve online sem gerist meðal annars úti í geimnum þannig að okkur fannst við hæfi að gera hann svolítið geimfaralegan, ekki síst vegna þess að þegar hann byrjaði var hugmynd hans svolítið far out eða speisuð eins og krakkarnir segja. Katrín Harðardóttir er hins vegar ung kona sem náð hefur ótrúlega langt í viðskiptaheiminum og það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hitti hana var að hún var ekki hrædd við að klæða sig kvenlega jafnvel svolítið stelpulega. Samt nýtur hún gífurlegrar virðingar meðal samstarfsmanna sinna og þeirra sem eiga við hana viðskipti. Klæðaburður er vissulega hluti af táknkerfi samfélagsins og ekki langt síðan að boðskapurinn dress for success var hluti af öllum þeim ótal námskeiðum sem ætlað var að kenna fólki hvernig það ætti að öðlast sjálfstraust og klífa metorðastigann. Í þessu fólst auðvitað að konur áttu að reyna að karlgera sig eins og þær gátu. Dragtirnar svörtu, dökkbláu og brúnu voru einmitt viðleitni í þá átt. Konur reyndu eftir bestu getu að klæða af sér kvenleikann. Mér fannst þess vegna svo ánægjulegt að sjá að Katrín var alls ekki hrædd við að undirstrika glæsilegan og mjög svo kvenlegan vöxt sinn. Hún er sannarlega ekki mjaðma- og brjóstalaus horrengla og hefur ánægju af því að velja föt sem fara vel á líkama hennar og undirstrika hann. Þetta fannst mér sjálfsagt að reyna að endurspegla því að mínu mati er frami kvenna ekki eftirsóknarverður nema að hann sé á þeirra forsendum. Ef konur þurfa að fórna hluta af persónuleika sínum til þess að komast áfram í starfi höfum við til lítils barist í hálfa aðra öld. Boðskapur kvennalistans um að konur væru góðar eins og þær eru og þær ættu erindi út á vinnumarkaðinn, í stjórnmálin og hinn opinbera vettvang einmitt vegna þess hefur alltaf hljómað eins og tónlist í mínum eyrum. Minnumst þess að hjá kvennalistanum mættu konur á fundi með smábörn og gáfu þeim brjóst meðan rætt var um landsins gagn og nauðsynjar. Kvennalistakonur áttu líka til að taka með sér vær ungabörn í tíma í Háskólanum og hika ekki við að gefa þeim brjóst ef á þurfti að halda. Þær prjónuðu líka á borgarstjórnarfundum og í þingsölum. Ég elska konur sem þora að vera konur og vilja vera konur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.4.2007 | 18:27
Gengisfelling mannslífa
Fyrrum skólafélagi minn Guðni Einarsson skrifar áhugaverðan pistil í Morgunblaðið í dag um blogg og hvernig í skjóli nafnleyndar eða kannski vegna eðlis miðilsins mönnum finnst þeir geta verið stóryrtari og sagt meira en þeir myndu nokkru sinni gera í öðrum fjölmiðlum. Hann nefnir dæmi um líflátshótanir sem erlendum bloggurum hafa borist. Mér finnst hins vegar ekki þurfa komment á bloggsíðum til. Ég hef þá tilfinningu að mannslífið hafi verið gengisfellt á ákveðinn hátt á undanförnum árum. Kannski vegna ofbeldismynda og sjónvarpsþátta þar sem ótal einstaklingar eru strádrepnir fyrir augun á okkur þykir ekki lengur eins alvarlegt að segja við fólk eitthvað á borð við: Það ætti bara að skjóta þig. Þegar ég var barn var það lokaúrræðið þegar fokið var í öll skjól og maður gersamlega búinn að missa stjórn á sér vegna stríðni eða áreitni að maður hreytti í einhvern annan: Ég skal drepa þig. Eftir á var eins og köld hönd gripi um hjartað og manni fannst maður hafa verið óskaplega áræðinn og gengið fjarskalega langt. Núorðið heyri ég oft fólk hafa gróft ofbeldi í flimtingum og jafnvel tala um að það sé ásættanlegt að samfélagið beiti því í refsingarskyni. Til að mynda er algengt að eftir að sagðar eru fréttir af að komist hafi upp um barnaníðinga að heyra yfirlýsingar eins og: Það ætti bara að skera undan þessum perrum. Það ætti að hengja þá alla í hæsta gálga þessa barnaníðinga, þeir eru óforbetranlegir. Eru þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum mönnum eitthvað bættari ef þeir eru teknir af lífi? Verður samfélagið betra við það? Sennilega ekki en víst er að karlmönnum myndi fækka umtalsvert á Íslandi ef tekið er tillit til þess að samkvæmt könnunum verður þriðja hvert stúlkubarn og fjórði hver drengur fyrir kynferðislegri misnotkun af einhverju tagi. Ég hef líka heyrt menn lýsa því yfir að eiturlyfjasala eigi að taka af lífi og það helst án dóms og laga. Hvers vegna ætli þetta sé? Ég finn ennþá kaldan hroll hríslast um mig þegar ég heyri fólk tala svona því mér finnst eitthvað kaldlynt við að geta talað á þennan veg um líf annars manns sama hversu brotlegur hann hefur gerst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)